Handbók um velferð og öryggi barna í leikskólum


Öryggismál á leikskólum

8. Slys

Söngstund á SólborgÍ lögum um landlækni nr. 41/2007 segir að landlæknir skuli, í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, skipuleggja og halda skrár á landsvísu um heilsufar, sjúkdóma, slys, lyfjaávísanir, fæðingar og starfsemi og árangur heilbrigðisþjónustunnar. Formleg skráning í Slysaskrá Íslands hófst 1. október 2001. Slysaskrá Íslands inniheldur upplýsingar um slys með meiðslum og upplýsingar um eignatjón í umferðaróhöppum. Einungis eru skráðar lágmarksupplýsingar um slysið sjálft, slasaða einstaklinga og ökutæki.

Hægt er að skoða tölur um fjölda slasaðra eftir aldri og kyni á vefsíðu Embættis landlæknis

Hér á landi verða alvarlegustu slysin á eða við heimili barna og má þar nefna að alvarlegustu brunaslysin verða á eða við heimili barna á leikskólaaldri.

8.1. Að hefja skyndihjálp og sinna barni þar til sjúkrabíll kemur

Starfsfólk leikskóla hefur ekki heimild til að meðhöndla áverka, slíkt er í höndum lækna og hjúkrunarfræðinga og þeirra sem öðlast hafa til þess sérstakt leyfi. Hlutverk starfsfólks leikskóla, þegar slys ber að höndum, er að greina, koma í veg fyrir frekara líkamlegt tjón og koma barni til læknis, en það er skilgreint sem skyndihjálp.Á vefsíðu Rauða kross Íslands má finna stuttar og hagnýtar leiðbeiningar fyrir almenning um hvernig bregðast megi við ýmsum slysum og veikindum. Leiðbeiningarnar henta vel þegar rifja skal upp aðferðir skyndihjálpar, t.d. þegar komið er að umferðarslysi, einstaklingi sem hefur hlotið áverka á höfði, beinbrot eða hjartaáfall.

Hafa ber í huga að:

 • Skyndihjálp er veitt út frá mati á ástandi barnsins og því haldið áfram þangað til sjúkrabíllinn er kominn.
 • Í þeim tilfellum þar sem viðkomandi ræður ekki einn við að veita skyndihjálp óskar hann eftir aðstoð nærstaddra.
 • Þegar enginn er til aðstoðar, verður viðkomandi að reyna sitt besta og bíða rólegur þangað til sjúkrabíllinn kemur.

8.2. Að koma ró á svæðið - Hinn slasaði gengur alltaf fyrir

Þegar alvarlegt slys verður í leikskóla eða í ferðum á vegum hans er ekki óeðlilegt að það myndist ringulreið meðal starfsfólks og barna. Til að draga úr líkum á að slíkt ástand skapist er mikilvægt að leikskólar hafi virka viðbragðsáætlun og æfi hana reglulega.

8.3. Fyrstur á slysstað

Mikilvægt er að sá sem kemur fyrstur á slysstað taki yfir stjórnina hafi hann lokið námskeiði í skyndihjálp, ef ekki kallar hann til næsta yfirmann.  Auk þess þarf hann að:

 • Meta ástand þess slasaða út frá sinni kunnáttu í skyndihjálp.
 • Afla upplýsinga frá hinum slasaða eða vitnum.
 • Meta hvort hringja á í Neyðarlínu 112.
 • Veita skyndihjálp.
 • Meta hvort þörf sé á aðstoð annarra starfsmanna.

8.4. Fjögur skref skyndihjálpar

 • Tryggja öryggi og koma þannig í veg fyrir frekara slys.
 • Meta ástand hins slasaða til að greina hvort um lífshættulegt ástand er að ræða eða ekki. Aðstæður á vettvangi og umkvartanir slasaðra gefa strax góða mynd af ástandinu.
 • Kalla til hjálp, hringja í Neyðarlínuna 112.
 • Veita viðeigandi skyndihjálp á rólegan og yfirvegaðan hátt.

8.5. Greiningarstig áverka

1. Lægsta stig: Minniháttar skrámur og skurðir sem ekki þarfnast meðferðar á heilsugæslustöð eða á slysadeild. Sár sem starfsmaður má meðhöndla og setja á einfaldar umbúðir. Dæmi: grunnt klór, kæling á kúlu, skolun á sandi úr auga.

2. Miðstig: Áverki sem starfsmaður metur að þarfnist meðferðar á heilsugæslustöð eða slysadeild. Áverkinn er þess eðlis að foreldrar/forsjáraðilar geta farið með barnið á heilsugæslustöð, til tannlæknis eða á slysadeild. Dæmi: handleggsbrot, skurðir sem þarfnast saumaskapar, tannáverkar, heilahristingur. Þó þessir áverkar þarfnist ekki í fyrstu sjúkrabíl 112 geta þeir breyst í alvarlegt stig sökum þess að ástand barns versnar skyndilega. Það þarf starfsmaður að geta metið strax og hringt í Neyðarlínuna 112. Leiki vafi á alvarleika áverka skal kalla til sjúkrabíl.

3. Alvarlegt stig: Áverkar sem falla undir þetta eru t.d. stórir brunar, meðvitundarleysi vegna höfuðáverka eða annarra hluta, fótbrot/lærbrot, aðskotahlutur í öndunarvegi, hjarta og öndunarstopp. Mikilvægt er að starfsmenn bregðist fumlaust við og meti alvarleika ástandsins strax, virkji viðbragðsáætlun, hefji viðeigandi skyndihjálparmeðferð og hringi strax í Neyðarlínuna 112.

8.6. Hringt á sjúkrabíl og sjúkrakassi sóttur

 • Ef hringja þarf á sjúkrabíl er best að fá einhvern nærstaddan til að hægt sé að vera áfram hjá barninu, það veitir því öryggi.
 • Í þeim tilfellum þar sem ástandið er lífshættulegt (hjarta- og öndunarstopp, meðvitundarleysi eða köfnun) og enginn nærstaddur verður starfsmaður að fara sjálfur og hringja í Neyðarlínuna, 112.
 • Mikilvægt er sá sem hringir geti gefið allar upplýsingar, H-in 3 (Hvar? Hver? Hvað?).
 • Ef nauðsynlegt er að nota gögn úr sjúkrakassa má biðja þann sem fór í símann að taka hann með á bakaleiðinni. Ef það þolir ekki bið er mikilvægt að annar nærstaddur sé sendur að ná í sjúkrakassann.

8.7. Hvernig á að hringja í Neyðarlínuna - 112

Það er grundvallaratriði að allir starfsmenn leikskólans kunni að hringja í Neyðarlínuna. Hér á landi er eitt neyðarnúmer fyrir sjúkrabíl, lögreglu og slökkvilið. Neyðarnúmerið er 112, EINN EINN TVEIR en ekki hundrað og tólf.

Athugið að ef hringt er úr heimasíma birtist strax á skjá Neyðarlínunnar hvaðan er hringt þ.e.a.s. nafn leikskólans, heiti götu, hús- og póstnúmer hans. Ef hringt er úr farsíma kemur ekki staðsetning símans upp á skjá Neyðarlínunnar.

Mikilvægt er að sá sem hringir í 112 gefi þeim sem svarar yfirlit yfir ástandið á fyrstu 30 sekúndum samtalsins en það eru H-in þrjú:

 • H – HVAR VARÐ SLYSIÐ. NAFN LEIKSKÓLANS, HEIMILISFANG OG NÁKVÆMARI STAÐSETNING Á BARNI (mikilvægt er að taka fram ef barnið er úti á lóð og þá hvar, sérstaklega þar sem lóðir eru stórar).
 • H - HVER ER ÞAÐ SEM HRINGIR (kynna sig með fullu nafni og taka strax fram að verið sé að hringja úr leikskóla).
 • H - HVAÐ KOM FYRIR, ALDUR OG KYN, HVER ER LÍÐAN VIÐKOMANDI (dæmi: Hinn slasaði heitir Jón Jónsson og er 5 ára, hann féll úr rólu og er mögulega fótbrotinn).

8.8. Viðbrögð gagnvart vitnum og öðrum börnum á slysstað

Mikilvægt er að færa áhorfendur (börn) af svæðinu sem fyrst þannig að þeir þurfi ekki að horfa upp á hið slasaða barn.

Starfsfólk kannar hvaða börn urðu vitni af slysinu. Það þarf að tala sérstaklega við þau undir rólegum kringumstæðum og útskýra á sem einfaldastan hátt og út frá þroskaforsendum þeirra hvað gerðist, hvert var farið með þann slasaða (ef við á) og hver var útkoman. Útskýra þarf fyrir öllum börnum leikskólans það sem gerðist. Mikilvægt er að öll börn fái réttar upplýsingar hjá hinum fullorðnu. Lítil börn túlka hluti eins og þau sjá þá en niðurstaða túlkunar þeirra er oft röng og ekki er óeðlilegt að þau verði hrædd vegna þess sem þau horfðu upp á og skilja ekki. Því er mikilvægt að allt starfsfólk leikskólans sé meðvitað um þetta og taki strax á málum til að draga úr hræðslu þeirra.

 • Tryggja þarf að ekkert barn telji sig ábyrgt fyrir því sem gerðist og sitji uppi með sektarkennd. Ábyrgðin er alltaf hjá hinum fullorðnu.
 • Í þeim tilfellum þar sem um lífshættulega áverka er að ræða og tvísýnt er um útkomu hjá slasaða barninu er mikilvægt að fá inn aðila sem uppfyllir öll skilyrði um áfallahjálp. Þetta er sérstaklega mikilvægt í þeim tilfellum þar sem börn látast.
 • Ef slasaða barnið er fjarverandi í einhvern tíma er mikilvægt að leyfa félögum þess í leikskólanum að fylgjast með framvindu mála. Það er einnig mikilvægt fyrir hið slasaða barn að vera í samskiptum við skólann sinn og félaga með bréfasendingum eða öðrum hætti.
 • Í þeim tilfellum þar sem kallaður hefur verið til sjúkrabíll er algengt að lögregla komi einnig með. Það getur valdið ótta hjá börnum, því eru allar útskýringar til barnanna nauðsynlegar. Ef því verður við komið er æskilegt að lögreglan komi inn á deild til barnanna og kynni sig og spjalli við þau.
 • Mikilvægt er að láta foreldra vita áður en þeir sækja börn sín að kalla hafi þurft til sjúkrabíl og skýra frá helstu staðreyndum. Börn vilja gjarnan tala um það sem þau hafa upplifað og því mikilvægt að foreldrar hafi réttar upplýsingar til að geta rætt við börn sín og hjálpað þeim að jafna sig á því sem þau upplifðu.

8.9. Tilkynning til foreldra um slys á barni

Mikilvægt er að skólar setji sér verklagsreglur um tilkynningar til foreldra um á slys á barni.

8.9.1. Slys sem ekki eru talin lífshættuleg

 • Öll slys sem ekki eru talin lífshættuleg t.d. beinbrot og skurðir eru tilkynnt beint til foreldra af starfsmönnum leikskólans. Æskilegt er að deildarstjóri barnsins eða leikskólastjóri sjái um að hringja í foreldra.
 • Mikilvægt er að sá starfsmaður sem hringir viti nákvæmlega um ástand barnsins og hver viðbrögð leikskólans hafi verið fram að símtalinu til dæmis hvort hringt hefur verið á sjúkrabíl eða leitað ráða hjá heilsugæslu.

Símtalið

 • Sá sem hringir kynnir sig með nafni og segir hvaðan er hringt.
 • Sá sem hringir á að vera rólegur og tala skýrt.
 • Sagt er í stuttu máli frá því sem kom fyrir barnið og reynt að koma strax til skila hvað sé að. Mikilvægt er að nota ekki sterk orð.
 • Ef hringt hefur verið á sjúkrabíl er endað á að segja frá því og látið vita hvaða starfsmaður fór með barninu á sjúkrahús/heilsugæslu og hvert var farið.

8.9.2. Lífshættulegt ástand

Mikilvægt er að öll sveitarfélög setji sér verklagsreglur um tilkynningu til foreldra vegna alvarlegra og lífshættulegra slysa á börnum. Tillaga að verklagsreglum sveitarfélaga er í viðhengi

Leikskólastjórum ber að kynna sér þær verklagsreglur sem gilda í sínu sveitarfélagi.

Ef ástand barnsins er lífshættulegt (barnið er í hjarta- og öndunarstoppi eða meðvitundarlaust) þarf að vinna samkvæmt verklagsreglum í hverju sveitarfélagi fyrir sig.

Æskilegt er að tilkynning til foreldra komi frá áfallateymi slysadeildar eða sambærilegu teymi á hverju svæði fyrir sig.

8.10. Eftir slys

Eftir að slys hefur átt sér stað er mikilvægt að fara yfir skráningar á slysinu og öryggisatriði skólans

8.10.1. Skráning slysa í leikskólum

Mikilvægt er að öll slys sem verða í leikskólum, á börnum séu skráð á tiltekið slysaskráningarblað.. Skráning slysa er mikilvægur hluti af innra og ytra eftirliti leikskólans. Leikskólastjóri tekur saman í lok hvers árs hvar, hvenær og hvernig slys hafa átt sér stað og skoðar t.d. hvar hættur í leikskólanum er að finna eða hvort eftirlit starfsfólks með börnum sé fullnægjandi. Sveitarfélög ættu að taka saman yfirlit yfir slys í leikskólum árlega.

8.10.2. Hvenær á að skrá slys í leikskóla?

Öll slys þar sem barn hefur hlotið það mikinn áverka að það þarfnast meðferðar hjá tannlækni, slysadeild, barnaspítala, heilsugæslustöð eða hjá sérfræðingi ber að skrá á slysaskráningarblað.

Ekki er ástæða til að skrá alla áverka. Minniháttar áverkar þar sem ekki er hætta á frekari afleiðingum ber ekki að skrá eins og kúla á enni, skrámur, grunnt klór og skolun á sandi úr auga.

Í þeim tilfellum þar sem leikskólastjóri óskar eftir því að slys sé skráð skal það gert.

8.10.3. Að hverju þarf að gæta þegar skráð er?

Mikilvægt er að við skráningu á slysaskráningarblaðið sé skráð hver var endanlegur meðferðaraðili og hver áverkagreiningin var. Slysaskráningarblað þar sem þessar upplýsingar vantar er ekki fullgilt. Ef ekki er hægt að skrá það strax verður að bíða eftir að foreldri láti vita hver/hverjir meðferðaraðilar voru og hver endanleg sjúkdómsgreining var. Leikskólastjóri ber ábyrgð á verklagi um frágang þessara blaða og tryggir að þeim sé framfylgt.

8.10.4. Undirritun foreldra á slysaskráningarblaðið og afrit af því

Meginreglan er að foreldrar þurfa ekki að kvitta á slysaskráningarblöðin nema þar sem sveitarfélög hafa sett um það reglur að svo skuli vera. Hins vegar er nauðsynlegt að foreldri kvitti á slysaskráningarblaðið í þeim tilfellum þar sem starfsmaður leikskóla hefur metið áverkan á þann hátt að það þurfi að fara með barnið til læknis/hjúkrunarfræðings en foreldri ákveður að fara ekki eftir þeim tilmælum. Er þetta gert til að tryggja að ekki verði hægt að koma síðar og halda því fram að starfsmenn leikskólans hafi ekki áttað sig á alvarleika áverkans. Það getur til dæmis verið í tilfelli þar sem barn hefur fengið gat á höfuðið og starfsmaður leikskólans hefur hringt í foreldri og óskað eftir því að farið sé með barnið á slysadeild. Við komu foreldris í leikskólann ákveður það að fara ekki með barnið heldur býr um sárið sjálft (í leikskólanum eða heima). Þetta er mikilvægt að skrá þar sem meðferðin var í höndum foreldris og aukaverkanir geta komið fram í sárinu síðar. Í slíkum tilfellum er mikilvægt að fá undirskrift foreldra á skráningarblaðið. Dæmi um texta sem foreldrar eru beðnir um að skrifa neðst á skráningarblaðið: „Ég undirrituð móðir/faðir barnsins (nafn barns) hef tekið þá ákvörðun að fara ekki eftir tilmælum leikskólans um aðhlynningu fyrir barniðá slysadeild eða heilsugæslu“. Viðkomandi undirritar með dagsetningu, nafni og kennitölu.

Ekki er gert ráð fyrir því að foreldri fái sjálfkrafa afrit af slysaskráningarblaðinu nema reglur sveitafélagsins kveði á um það. Foreldrum er heimilt að skoða blaðið og fá afrit af því.

Slysaskráningarblaðið er trúnaðarmál og má því ekki afrita né afhenda það öðrum en þeim sem hafa heimild til að skoða það s.s. heilbrigðiseftirlitinu sem ber að skoða þessi blöð til að kanna fjölda slysa og ástæður þeirra sem hluta af sínu ytra eftirliti. Ef beðið er um skráningarblaðið af öðrum þarf leyfi foreldra. Tilgangur beiðninnar þarf að vera skýr, s.s. ef verið er að vinna rannsóknir. Mikilvægt er að einungis þeir sem uppfylla allar kröfur um rannsóknarheimildir og meðferð persónuupplýsinga fái aðgang að slysaskráningarblöðum í rannsóknarskyni. 

8.10.5. Hvað er gert við slysaskráningarblöðin?

Leikskólastjóri ber ábyrgð á að slysaskráningarblöð séu varðveitt og aðgengileg á meðan barnið dvelur þar. Við útskrift þess skal leikskólastjóri sjá til þess að blaðið fari í varðveislu í skjalasafni sveitarfélagsins eða til þess einstaklings sem varðveitir skjalasöfn einkarekinna leikskóla. Slysaskráningarblöðin þurfa að vera aðgengileg ef foreldrar eða barnið sjálft þurfa á þessum upplýsingum að halda síðar á lífsleiðinni samkvæmt lögum um Þjóðskjalasafn nr. 66/1985.

8.11. Lögregluskýrsla

Ef alvarlegt slys verður í leikskóla eða slys sem veldur barni áverka sem hugsanlega getur tekið sig upp síðar á ævinni er mikilvægt að gera lögregluskýrslu. Lögregluskýrsla greiðir fyrir afgreiðslu hjá tryggingarfélögum. Skýrslan er varðveitt hjá lögreglu. Leikskólastjóri getur óskað eftir afriti af henni ef þörf krefur.

Í þeim tilfellum sem hringt er á sjúkrabíl kemur lögregla oftast með. Lögregla biður um ýmsar upplýsingar tengdar slysinu. Það er ekki lögregluskýrsla heldur skýrsla vegna útkalls sjúkrabíls því þarf að fá lögreglu á staðinn til að gera sérstaka lögregluskýrslu um atvikið eða biðja um að hún sé gerð samhliða skýrslu vegna útkalls sjúkrabíls. Leikskólastjóri ber ábyrgð á að lögregluskýrsla sé gerð. Hægt er að óska eftir því að lögregluskýrsla sé gerð eftir á. Til að hægt sé að meta hvenær á að gera lögregluskýrslu þarf oft að bíða eftir að læknisskoðun hafi farið fram.

Ef gerð er lögregluskýrsla á að upplýsa foreldra og rekstraraðila um það.

8.11.1. Slys á börnum sem gera skal lögregluskýrslu fyrir:

 • Öll alvarleg slys t.d. áverkar á innri líffærum, drukknun, umferðaslys.
 • Höfuðhögg. Heilahristingur, brot, umtalsverð blæðing, bjúgur eða annar alvarlegur áverki.
 • Brunaslys. Ef meira en 8-10% af líkamanum eru brenndur og sár eru djúp.
 • Öll beinbrot. Sama hversu lítil þau virðast vera. Komi í ljós að grunur um beinbrot sé ekki réttur og barnið aðeins tognað illa þá er óþarfi að gera lögregluskýrslu.
 • Tannáverkar. Alla áverka á tönnum þar staðfest er eða vafi leikur á að fullorðinstennur hafi skaddast.
 • Augnáverkar. Allir alvarlegir augnáverkar t.d. skert sjón.
 • Klemmuáverkar. T.d. fingur fer af eða hangir á húðpjötlu.

8.12. Endurskoðun öryggismála eftir slys

Eftir slys er mikilvægt að fara vel yfir það sem gerðist og kanna hvort unnt hefði verið að fyrirbyggja það.

Áður en farið er í slíka vinnu þarf að ganga úr skugga um að starfsfólk sem hlut á að máli eigi ekki um sárt að binda. Ef einhverjum starfsmönnum líður illa er mikilvægt að þeir fái viðhlítandi áfallahjálp áður en greiningarvinnan á sér stað.

Æskilegt er að árlega sé gerð skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði í leikskólanum sem byggir á áhættumati. Við áhættumat þurfa  starfsmenn að vera vakandi fyrir umhverfi sínu með tillit til slysavarna og bregðast við með viðeigandi hætti til að fyrirbyggja slys. Mikilvægt er að starfsmenn upplýsi leikskólastjóra um atvik sem túlka má sem „næstum því slys“ til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig. Dæmi: Barn klifrar upp í bókahillu. Bókahillan fellur frá vegg með barninu áhangandi. Starfsmönnum tekst að grípa hilluna og forða því að hún falli yfir barnið og mögulega slasi það.

Í mörgum tilvika alvarlegra slysa í leikskólum eru engin vitni og því liggja ekki alltaf fyrir upplýsingar um atburðinn. Til að koma í veg fyrir slíkt er mikilvægt að:

 • Gera áhættumat á öllum svæðum leikskólans bæði inni og úti.
 • Gera teikningu af lóðinni og gera áhættumat þar sem öll falin og hættuleg svæði eru skilgreind og merkt.
 • Tryggja að mönnun sé í samræmi við áhættumat og að starfsmenn hafi yfirlit yfir öll svæði skólans þar sem börn eru, bæði úti og inni.
 • Ef starfsmaður þarf að víkja frá því svæði sem hann einn hefur yfirsýn yfir gerir hann öðrum viðvart til að tryggja gæslu allra svæða.
 • Fara yfir allar aðstæður og verkferla þegar alvarleg atvik eiga sér stað og ræða ábyrgð starfsmanna. Ræða þarf hvað gerðist, hvernig var staðið að öryggismálum, t.d. hvers vegna ekki var starfsmaður á slysstað (ef við á) og ákveða hvernig verkferlum verði breytt til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.
 • Tryggja að allir starfsmenn þekki áhættumatið og verkferla því tengdu.

8.13. Viðtal við foreldra eftir alvarlegt slys

Þegar niðurstöður könnunar á slysi liggja fyrir er mikilvægt að leikskólastjóri bjóði foreldrum barnsins sem slasaðist viðtal. Í viðtalinu er farið yfir athugun leikskólans á tildrögum slyssins og hvað leikskólinn hyggst gera í framhaldinu. Með því að fara yfir það sem gerðist með foreldrum og að segja þeim frá hvað gert hefur verið í kjölfarið eykst öryggistilfinning foreldra og traust þeirra til leikskólans. Því er mikilvægt að halda ekki upplýsingum sem skipta máli frá foreldrum.

Leikskólastjóri þarf að hafa allar upplýsingar um málið áður en hann tjáir sig um það.

Mikilvægt er að sveitarfélög/rekstraðilar setji sér verklagsreglur um framkvæmd viðtala eftir alvarleg eða lífshættuleg slys.

8.13.1.  Foreldraráð og foreldrafélag

Mikilvægt er að foreldrum, foreldraráði og foreldrafélagi sé tilkynnt um stöðu öryggismála í leikskólanum og að foreldraráði sé greint frá alvarlegum atvikum sem upp koma. Eftirlitsskýrslur heilbrigðiseftirlits ættu að vera aðgengilegar fyrir foreldra.

8.14. Tilkynning á slysi - Hvert ber að tilkynna?

Mikilvægt er að ákveðin slys sem verða á börnum í leikskóla séu tilkynnt til þeirra aðila er málið varðar. Þau slys sem þarf að tilkynna eru skilgreind í kaflanum: Slys á börnum sem gera þarf lögregluskýrslu fyrir.

8.14.1.  Tilkynning til rekstraraðila

Tilkynna á öll slys til rekstraraðila til að tryggja að þeir hafi yfirlit yfir öll meiriháttar slys og geti gert viðeigandi ráðstafanir. Rekstraraðilar bera ábyrgð á því að öryggi barna sé tryggt. Rekstaraðili er auk þess ábyrgur fyrir fjármálum og því mikilvægt fyrir hann að hafa þessar upplýsingar t.d. þegar hann undirbýr fjárlög. Þetta ætti einnig að hjálpa honum í forgangsröðun viðhalds.

Mikilvægt er að verkferlar varðandi tilkynningar til rekstraraðila og þeirra sem hafa eftirlit með húsnæði og leiksvæðum á vegum rekstraraðila séu skýrir þannig að leikskólastjóri viti hvert hann á að tilkynna slys. Verkferlarnir og gerð þeirra er á ábyrgð rekstraraðila.

Yfirleitt er ákveðnum starfsmanni í sveitarfélaginu falið eftirlit með starfsemi leikskólans. Ef um einkarekna leikskóla er að ræða eða leikskóla sem starfræktir eru af félagasamtökum er almennt ákveðinn aðili skipaður til að vera í samstarfi við leikskólastjóra um almennan rekstur.

8.14.2. Heilbrigðiseftirlit

Heilbrigðiseftirlit viðkomandi sveitarfélags veitir leikskóla starfsleyfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Starfsleyfisskilyrðin taka m.a. á öryggi og slysavörnum, húsnæði og búnaði, leikföngum, lóð, leikvallatækjum og leiksvæði, skráningu slysa og reglubundnu innra eftirliti. Sjá nánar Starfsleyfisskilyrði fyrir leikskóla og grunnskóla á vef Umhverfisstofnunar.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga gerir árlega athugun á að kröfum um öryggi sé framfylgt og að reglubundið innra eftirlit hafi farið fram.

Ef rekja má slys til vanbúnaðar/bilunar á húsnæði, lóð eða öðrum þáttum sem fram koma í starfsleyfisskilyrðum leikskóla skal tilkynna viðkomandi heilbrigðiseftirliti um slysið. Hægt er að senda tilkynningu rafrænt á vef Umhverfisstofnunar en einnig má senda þeim afrit af slysaskráningarblaði.

8.14.3.  Tilkynningar til tryggingafélaga

Mikilvægt er að leikskólastjóri hafi upplýsingar um hvar leikskólinn er tryggður og yfirlit yfir þær tryggingar sem samningar liggja fyrir um. Sérstaklega er það mikilvægt þegar kemur að slysatryggingum barna. Í þeim tilfellum þar sem slys á barni er þess eðlis að gera þarf lögregluskýrslu þarf að tilkynna slysið til viðkomandi tryggingafélags. Um er að ræða þau tilfelli þar sem eftirmál geta orðið vegna slyssins og því nauðsynlegt að slysatilkynning sé skilvirk til að réttindi barns séu tryggð síðar.

Einnig getur þurft að tilkynna til tryggingafélags af öðrum ástæðum. Dæmi: Barn er flutt með sjúkrabíl vegna gruns um fótbrot. Í ljós kemur að barnið hefur tognað og því ekki um alvarlega áverka að ræða og því ekki nauðsynlegt að gera lögregluskýrslu. Nauðsynlegt getur verið í þessu tilfelli að tilkynna atvikið til tryggingarfélagsins vegna tryggingarmála.

| Fyrri kafli: 7. Öryggi í ferðum8. Slys | Næsti kafli: 9. Almannavarnir og eldvarnir |
 | - Efst á síðu - |

Til baka Senda grein