Hoppa yfir valmynd
7. september 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur við vígsluathöfn menningarhússins Hofs á Akureyri, 28. ágúst 2010

Í dag fögnum við húsi, glæsilegu húsi sem við getum verið stolt af. En fyrst og fremst fögnum við því sem það hýsir. Listinni og menningunni

Menningarhúsið Hof á Akureyri
Menningarhusid-Hof,-Akureyri

Vígsluathöfn menningarhússins Hofs á Akureyri


Forseti Íslands, forsetafrú, Norðlendingar og aðrir góðir gestir.

Í dag fögnum við húsi, glæsilegu húsi sem við getum verið stolt af. En fyrst og fremst fögnum við því sem það hýsir. Listinni og menningunni – verkinu sem við heyrðum áðan eftir Hafliða Hallgrímsson, þeirri frábæru hljómsveit sem það flutti – listinni og menningunni sem gerir okkur að meiri mönnum. Því þegar upp er staðið eru það hin huglægu gæði sem mestu máli skipta, meiri en hin veraldlegu.

En listina er oft erfitt að skilgreina, hún er síbreytileg og endurspeglar lífið í kringum okkur, tíðarandann, smekk og fagurfræðilegar viðmiðanir. Hún er einnig samgróin allri framvindu í samfélaginu, pólitískri sem efnahagslegri, og er oft aflvaki þeirra breytinga sem verða í samfélaginu. En þegar upp er staðið er það upplifun hvers og eins sem skiptir máli.

Þrátt fyrir nauðsyn fjármagns og aðstöðu í menningarlífi landsmanna má ekki gleyma að öflugt menningarlíf fær ekki eingöngu þrifist fyrir tilstilli slíkra hluta. Það byggir öðru fremur á hugmyndaauðgi og sköpunargleði einstaklinga og hópa, sem hafa til að bera þann kraft sem þarf til að koma hlutunum í verk.

Ég vil halda því fram að á endanum eru þjóðir metnar í sögulegu tilliti á grundvelli þeirrar menningar sem þær fóstra, og þeirra menningarverðmæta, sem kynslóðirnar skilja eftir sig fremur en efnislegum gildum, auði og völdum.

Gildi bygginga eru óháð tíma, og hafa verið óbreytt frá örófi alda. Í fyrsta lagi er það notagildið, þær þurfa að þjóna þeim tilgangi sem þeim er ætlaður. Þá þurfa þær að vera vel gerðar og varanlegar og falla vel að umhverfi sínu.  Loks þurfa þær að uppfylla hið listræna gildi fegurðarinnar og vera til sóma í samtíma sínum og um fyrirsjáanlega framtíð. 

Það er skylda okkar sem auðugrar þjóðar við upphaf  21. aldarinnar að hlúa að góðri byggingarlist og reisa mannvirki sem þjóna hlutverki sínu með sóma, eru vel gerð og hafa listræn gildi að leiðarljósi. Mannvirki og hús sem rísa á grunni þekkingar, virðingar fyrir sögu og umhverfi, víðsýni og framsækni, eru verðmæti sem þjóðin getur búið að um langan aldur.

Vel heppnaðar byggingar eru vissulega listaverk, eins og skáldið Goethe sagði fyrir um tvö hundruð árum: „Ég kalla byggingarlist frosna tónlist.“

Ég er þess fullviss að menningarhúsið Hof mun verða vel metið á slíkum mælikvarða, og verða vettvangur nokkurs af því besta sem íslensk menning hefur fram að færa.  Húsið verður tákn nýrra tíma í menningarlífi allrar þjóðarinnar og um leið eitt af helstu kennileitum Norðurlands. Má vænta þess að þessi bygging verði eitt af upphafsstefjum að glæsilegu skeiði í íslenskri byggingarlist á 21. öldinni.

Hér býðst íslensku listafólki nýr vettvangur til að koma hugmyndum sínum á framfæri við þjóðina. En svo vísað sé til orða John F. Kennedy:  „Ef listinni á að takast að næra rætur menningarinnar, verður samfélagið að veita listamanninum frelsi til að fylgja hugsjón sinni hvert þangað sem hún kann að leiða.“ Fjölbreytni í framsetningu listamanna á hugmyndum sínum endurspeglar það frelsi sem er listunum nauðsynlegt, og það er von mín að sú ríkulega menningarstarfsemi sem á eftir að dafna hér nái að endurspegla þær hugsjónir og gera okkur öll að meiri mönnum. Þá getum við sagt að vel hafi tekist til. 

Undirbúningur og bygging menningarhússins Hofs á Akureyri hefur staðið frá 1999 og vel hefur verið vandað til hans í alla staði, í góðri samvinnu mennta- og menningarmálaráðuneytis og Akureyrarbæjar. Ráðuneytið er stolt af því af hafa verið þátttakandi í þessu ferli. Bæjaryfirvöld á Akureyri sýna líka mikinn metnað með því að tengja tónlistarskólann í bænum við hið nýja menningarhús.

Á Akureyri hafa um langt skeið búið margir andans menn og menningarsinnaðir sem fengið hafa innblástur í sköpun sína af fegurð Eyjafjarðar. Ég er sannfærð um að margir andans menn í listum og menningu 21. aldarinnar eiga einnig eftir að finna sér bólstað hér. Og Hof getur því ekki annað en orðið mikilvæg kjölfesta fyrir listafólk framtíðarinnar.

Á þessum merku tímamótun vil ég þakka öllum þeim sem unnið hafa að því að gera þessa stund mögulega, byggingaverktökum, starfsfólki Akureyrarbæjar og Hofs og öllum öðrum sem stutt hafa við framkvæmdina með margvíslegum hætti. Einnig vil ég færa þakkir til fyrri menntamálaráðherra og bæjarstjóra sem sinnt hafa þessu verki af mikilli alúð og festu á þeim tíma sem liðinn er frá því að undirbúningur hófst sem og þeim alþingismönnum sem lagt hafa sitt af mörkum til að þessi draumur okkar landsmanna yrði að veruleika.

Ég óska Akureyringum, Eyfirðingum, Norðlendingum og öllum landsmönnum innilega til hamingju með daginn og ég óska þess af öllu hjarta að framtíð Hofs megi vera björt um langan tíma, okkur öllum og komandi kynslóðum til yndis og ánægju.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum