Hoppa yfir valmynd
23. september 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur á landsfundi Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræða „Upplýsingalæsi á 21. öldinni“

„Upplýsingalæsi á 21. öldinni“ en þetta hugtak er stöðugt að vinna sér fastari sess í vitund allra sem er umhugað um menntun og fræðslu sem nauðsynlega undirstöðu tilveru hins upplýsta manns á okkar tímum.

17. september 2010, Hótel Stykkishólmur

Upplýsingalæsi og hlutverk bókasafna

Það er mér ánægja að geta verið með ykkur hér í Stykkishólmi í dag á landsfundi Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræða árið 2010.  Fundurinn er haldinn undir yfirskriftinni „Upplýsingalæsi á 21. öldinni“ en þetta hugtak er stöðugt að vinna sér fastari sess í vitund allra sem er umhugað um menntun og fræðslu sem nauðsynlega undirstöðu tilveru hins upplýsta manns á okkar tímum.

Það er athyglisvert að velta fyrir sér þeirri þróun sem felst í þessu hugtaki, og um leið hafa í huga að hér er ef til vill um að ræða baráttumál sem einkum er sinnt meðal hinna þróuðu ríkja heimsins; hin eru mörg hver enn að takast á við þá baráttu sem var einkum háð hér á landi á 19. öld og ef til vill lengur og fólst í almennu læsi, eins og það hefur lengst af verið skilgreint – að geta lesið ritað mál sér til skilnings.

Hugtakið upplýsingalæsi er ágætt orð í íslensku máli, en á ensku er notað orðtakið „information literacy“ yfir það sem hér um ræðir. Þar að baki hvílir umræða sem hefur verið að þróast í meira en aldarfjórðung, einkum á vettvangi eins og þeim sem við eru nú stödd á, þ.e. meðal starfsfólks og fræðimanna á sviði bókasafns- og upplýsingafræða, fólks sem sífellt þarf að vera velta fyrir sér með hvaða hætti starf þess getur sem best þjónað samfélaginu í heild.

Eins og oft hefur verið rakið á hugtakið rætur sínar að rekja til umræðu á vettvangi upplýsingafræða í Bandaríkjunum, og hefur síðan þróast í gegnum yfirlýsingar sem hafa komið út úr alþjóðlegum ráðstefnum eins og Prag-yfirlýsingunni frá 2003 og síðast Alexandríu-yfirlýsingunni frá 2005. Flestir hér þekkja þær skilgreiningar upplýsingalæsis sem felast í síðarnefndu yfirlýsingunni. Það sem vekur helst athygli við þær er að þar er ekki einungis fjallað um hæfileika mannsins til að afla sér upplýsinga með skilvirkum hætti – að menn viti hvar efni er að finna, kunni að leita sér upplýsinga og þar með að afla sér þekkingar – heldur einnig, að einstaklingurinn geri sér grein fyrir þörf sinni fyrir upplýsingar og leitist við að fullnægja henni.

Þetta síðastnefnda er ef til vill erfiðast viðureignar, því það er fæstum tamt að viðurkenna vanþekkingu sína. Sú staðreynd hittir ekki síst okkur Íslendinga fyrir, þar sem segja má – með hæfilegri kaldhæðni þó – að það sé eitt af þjóðareinkennum Íslendinga að telja sig vita allt manna best af eðlislægri skynsemi; það er þjóðaríþrótt að vera „besserwisser“, og svarið „ég veit það ekki“ er talið ótvírætt veikleikamerki.

Í þessu ljósi má segja að þeir sem vilja veg upplýsingalæsis sem mestan – og það viljum við vonandi sem flest – standi hér andspænis nýrri áskorun á nýrri öld. Áskorunin felst í að skapa viðhorfsbreytingu. Það er vel vinnandi vegur að kenna mönnum á nýjar vélar og að notfæra sér nýja tæknimöguleika hafi þeir áhuga á því; erindi á dagskrá þessa landsfundar bera því vitni með hvaða hætti er unnið að þessum málum á ýmsum stigum. Það getur hins vegar reynst erfiðara að fá fólk til að viðurkenna þörf sína fyrir nýjar upplýsingar, þar sem fyrri vitneskja dugi ekki lengur til; og það hlýtur að vera mikilvægasta verkefnið sem er framundan á þessu sviði.

Orðið upplýsingalæsi er hvergi að finna í íslenskri löggjöf. Eftir því sem vitund samfélagsins eykst um mikilvægi þessa hugtaks er líklegt að það breytist. Það sem breytist ekki er þörf mannsins fyrir upplýsingar til að geta tekið virkan þátt í samfélaginu; sú þörf á aðeins eftir að aukast um fyrirsjáanlega framtíð. Til að mæta þessum þörfum er nauðsynlegt að mennta- og fræðslukerfi landsins verði áfram tilbúið til að veita þá þjónustu sem borgurunum er nauðsynleg til að þeir geti tekist á við þær skyldur sem felast í því að vera þegn í velferðar- og réttarríki á 21. öld, og geti um leið notið þeirra réttinda og þeirrar verndar, sem í því felst. Það versta sem getur komið fyrir nokkurt þjóðfélag, og við sjáum því miður votta fyrir víða um heim í dag, er að fólk skiptist í hópa upplýstra annars vegar og óupplýstra hins vegar. Slík skipting byggir öðru fremur á misjöfnu aðgengi að upplýsingum, misjöfnu upplýsingalæsi, og með henni er lagður grunnur að klofningi, stéttaskiptingu, niðurbroti viðkomandi þjóðfélags – og afleiðingarnar geta aðeins verið vondar.

Íslendingar hafa lengi gert sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að hafa aðgang að upplýsingum, að lestrar- og fræðsluefni, aðgangi að bókum. Fyrstu lestrarfélögin voru stofnuð hér á landi seint á 18. öld, og hétu Hið íslenska bókasafns- og lestrarfélag Suðurlands, sem var stofnað 1790, og Hið norðlenska bóklestrarfélag, sem var stofnað 1792. Fleiri slík félög voru stofnuð á næstu árum, og báru oft jafn mikilfengleg nöfn og þessi tvö; þannig má nefna Barðastrandarsýslulestrarfélag, sem einnig var nefnt Lestrarfélag þarflegra danskra bóka, og var stofnað 1801. Þessi fyrstu lestrarfélög urðu ekki langlíf, en þau voru kveikjan að því sem koma skyldi. Á 19. öld og nokkuð fram eftir 20. öld höfðu verið stofnuð, dáið drottni sínum og/eða verið endurvakin lestrarfélög í sveitahreppum um nær allt land; eftirspurnin eftir aðgangi að fróðleik var mikil, og menn nýttu samtakamáttinn til að koma til móts við hana. Það er afar fróðlegt að skoða heimasíður skjalasafna nú á dögum og sjá þann fjölda lestrarfélaga sem hafa starfað og skilið eftir sig gögn og fróðleik; það er einnig ánægjulegt að sjá hversu vel bókasafns- og upplýsingafræðingar hafa sinnt þessum menningararfi í rannsóknum sínum.

Grundvöllur lestrarfélaganna endurspeglast vel í texta dreifibréfs, sem gekk um Mýrar í Austur-Skaftafellsskýslu vegna undirbúnings stofnunar lestrarfélags í sveitinni 1908. Að hluta til er þessi texti klassískur og í honum er að finna viðhorf, sem enn eru í fullu gildi, hvatningu sem alltaf á við og því langar mig að vitna til orða sem þar er að finna:
„Kröfurnar sem vér gerum til lífsins, eru orðnar margbreyttar nú á tímum og mjög erfitt að fullnægja þeim. Reynslan hefir sýnt það að ekkert betra ráð er til fyrir hendi til þess að greiða úr þessum erfiðleikum, en góður félagsskapur. Oss veitist jafnan erfiðar að bæta úr andlegu þörfunum, en hinum líkamlegu, svo að í því efni er brýn nauðsyn að sameina kraft sína eins vel og hægt er.
Úr þeim skorti verður best bætt, á hyggilegan hátt, með því að mynda félag til bókakaupa. Það er bæði ókleifur kostnaður og illa farið með efni sín af mönnum, er kaupa mikið af bókum einir út af fyrir sig. Í stað þess að geta fengið bækur að lesa, á kostnaðarminni hátt, með því að mynda lestrarfélag. Slík félög ættu að vera í hverri sveit, enda eru þau nú þegar mynduð í mörgum sveitum þessa lands. Þótt vér íbúar þessa hrepps séum fámennir og fátækir , gætum vér þó ekki myndað lestrarfélag hjá okkur? Jú, vissulega, en eitt atriði þurfum vér til þess, umfram allt, - það er góður félagsskapur.“

Lestrarfélögin höfðu líka ákveðnu hlutverki að gegna í þeirri réttindabaráttu sem fram fór í íslensku þjóðfélagi, sem enn er í mótun. Þannig var eitt af fyrstu verkum Kvenréttindafélags Íslands, sem var stofnað 1907, að koma á legg lesstofum fyrir konur. Laufey Vilhjálmsdóttir, einn af stofnendum félagsins, gekkst síðan fyrir stofnun sérstaks lestrarfélags kvenna í Reykjavík 1911, en það starfaði í 35 ár. Markmiðið var að fá konur til að lesa góðar bækur og ræða efni þeirra til að auka skilning, og átti félagið t.d. stórt safn bóka á norðurlandamálunum og ensku, sem var einstakt á þessum tíma.

Það leið nokkuð inn á 20. öldina þar til bókasöfn urðu almenn, en örlítil löggjöf sem tók gildi á kreppuárunum var það sem nú væri kallað hjáleið miðað við það sem framundan var. Hér á ég við lög um bókasöfn prestakalla nr. 17/1931, sem enn eru í lagasafninu, þó óvíst sé um framkvæmd þeirra. Þar koma fram ákveðin gildi, sem fróðlegt er að sjá í lögum. Þannig segir í 2. gr. laganna að „til bókasafna prestakalla skulu einkum keyptar bækur guðfræðilegs og heimspekilegs efnis, svo og almennar fræðibækur og úrvals skáldrit.“ – Með hvaða hætti bækur gátu fengið þá einkunn að vera „úrvals skáldrit“ kom í ljós í 4. gr. laganna, þar sem fjallað er um skipan bókanefndar prestakalla sem á að veita leiðbeiningar um val bóka, en í henni skulu vera þrír menn, tveir kosnir af prestastefnu, en svo segir: „ … en kirkjumálaráðuneytið skipar einn mann, kunnan að smekkvísi og þekkingu á bókmenntum.“  – Það er ákveðin eftirsjá í slíkri nákvæmni í löggjöf; það væri gaman að sjá víðar að við skipan í nefndir og til embætta skuli ráða „smekkvísi og þekking“ á viðkomandi sviði, og er ég viss um að slík ákvæði mundu ekki aðeins lífga upp á lagasafnið, heldur einnig auka áhuga manna á öllum sviðum. En þetta er útúrdúr.

Segja má að lestrarfélögin um land allt hafi um síðir orðið sá grundvöllur sem almenningsbókasöfnin voru byggð á í fyrstu löggjöfinni um þau, sem samþykkt var 1955. Þessi lög hafa verið endurskoðuð nokkrum sinnum síðan, en gildandi lög um almenningsbókasöfn eru frá 1997. Hlutverk almenningsbókasafna er skýrt með ótvíræðum hætti í 1. grein laganna, en kjarni hennar er skýr :

  • Almenningsbókasöfn eru upplýsinga- og menningarstofnanir.
  • Hlutverk þeirra er að veita aðgang að bókum, miðlunargögnum og upplýsingum í öllum formum sem hægt er að   hugsa sér.
  • Þau skulu hafa tiltækar upplýsingar um opinberar stofnanir og þjónustu.
  • Markmiðið er að efla íslenska tungu.
  • Allir landsmenn skulu eiga kost á þjónustu almenningsbókasafna.

Lög þurfa stöðugrar endurskoðunar við, og lög á sviði málefna bókasafna eru þar engin undantekning. Í núverandi lagasafni er fjallað um bókasöfn með einum eða öðrum hætti í nokkrum fjölda lagabálka, og er til vinnandi að reyna að einfalda þessa umgjörð og færa nær samtímanum þar sem þörf er á.

Í frumvarpi um breytingar á framhaldsskólalögum sem lagt var fram í mars sl.  var aftur sett inn ákvæði um skólasöfn. Við undirbúning og vinnu við námskrárgerð hefur í samræmi við markmiðsgreinar laga um framhaldsskóla verið lögð áhersla á fimm grunnþætti menntunar: Læsi í víðum skilningi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi skólastarf. Ljóst er að skólasöfn munu gegna mikilvægu hlutverki í þessu sambandi, einkum að því er varðar skilning á eðli upplýsinga og gagna sem nemendur þurfa að hafa greiðan aðgang að í námi sínu og tómstundum. Skólasöfn eru mikilvægur liður í því að skapa öflugt námssamfélag í hverjum skóla. Með þessu er verið að tryggja að skólasöfnum sé gefinn sá sess sem þeim ber að hafa í daglegu starfi framhaldsskóla. Verði safni ekki við komið í skóla gerir ákvæðið ráð fyrir að aðgangur að líku safni geti verið með öðrum hætti, svo sem í tengslum við bókasafn á vegum sveitarfélags eins og dæmi eru um.

Eins og kunnugt er skipaði þáverandi menntamálaráðherra nefnd 2003 sem einkum var falið að kanna hvort hagkvæmt væri að setja heildarlög sem gætu tekið til allra tegunda bókasafna og skilgreina hlutverk og stöðu þeirra í safnakerfi landsins. Nefndinni var einnig falið að skilgreina stöðu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns sem forystusafns allra bókasafna landsins og fjalla um lög um almenningsbókasöfn með tilliti til þessa.

Nefndin skilaði af sér snemma árs 2004 og lagði fram þrjár tillögur að nýjum frumvörpum ásamt greinargerð með athugasemdum. Eftir að þessar tillögur höfðu verið til skoðunar í ráðuneytinu varð niðurstaðan að heppilegt væri að setja ein lög um starfsemi almenningsbókasafna, skólabókasafna og Blindrabókasafns Íslands, og var nefndin beðin að endurskoða tillögur sínar með tilliti til þess að sett yrðu ein heildarlög á þessu sviði. Nefndin skilaði ráðuneytinu einu frumvarpi til nýrra laga um bókasöfn 2006. Það var síðan m.a. haft til hliðsjónar við undirbúning á nýju frumvarpi til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, sem lagt var fram en hlaut ekki afgreiðslu á Alþingi átakaveturinn mikla, 2008 – 2009.

Margt hefur breyst í íslensku þjóðfélagi á síðustu tveimur árum bæði hvað varðar viðhorf og aðstæður, en fyrirhugað er að frumvarp til nýrra laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn verði lagt fram að nýju að lokinni endurskoðun. Í kjölfar afgreiðslu þess er hægt að huga að framlagningu nýs frumvarps til laga um bókasöfn. Það er ljóst að ýmsar forsendur lagasetningar á þessu sviði hafa breyst frá því lögin um Landsbókasafnið voru samþykkt 1994 og lögin um almenningsbókasöfn 1997. Meðal slíkra breytinga má telja eftirfarandi atriði:

  • Stórstígar framfarir hafa orðið í upplýsingatækni sem hafa haft víðtæk áhrif á starfshætti og  samstarfsmöguleika bókasafna.
  • Hugmyndir um heildstæða bókasafnsþjónustu (seamless library service) eru mjög að ryðja sér til rúms í  samfélaginu.
  • Sameining sveitarfélaga og aukið samstarf þeirra á ýmsum sviðum hefur breytt rekstrargrundvelli margra  almenningsbókasafna og skólasafna.
  • Sameiginlegt bókasafnskerfi fyrir allt landið, http://www.gegnir.is/, hefur sannað sig í rekstri og skapað  sameiginlegan grundvöll bókasafna, sem ekki var áður fyrir hendi.
  • Kominn er landsaðgangur að gagnagrunnum og tímaritum með samvinnu allra safnategunda í landinu í gegnum  http://www.hvar.is/.

- Öll þessi atriði skipta máli fyrir framtíðina, og eru hluti þess sem líta verður til við nýja lagasetningu á þessu sviði.

Góðir gestir,

Það er til gömul tilvitnun þar sem segir:

„Bókasafn er vopnabúr frelsisins.“

Það er mikið til í þessu. Raunverulegt frelsi byggir á þekkingu, og þekking byggir á aðgengi að upplýsingum, sem er, hefur verið og mun um ókomna framtíð verða helsta hlutverk bókasafna að tryggja.

Fyrir daga almenns barnanáms voru orð eins og stafar, stautar, les og les vel skráð í kirkjubækur eftir húsvitjanir presta í sínum sóknum sem mælistikur á menntun barna og ungmenna, og þegar þau voru orðin læs var námi þeirra lokið, nema metnaður og efnalegar aðstæður fjölskyldunnar gæfu tækifæri til fremari menntunar. Frá þessum tíma hefur skilningur okkar á þessum grunnþætti menntunar breyst frá því að vera bundinn við að geta lesið texta til þess að því fylgi einnig skilningur á því sem í textanum felst.

Bókasöfn eru þær upplýsinga- og menningarstofnanir, sem best tryggja jafnt aðgengi allra þegna landsins að öllum þeim upplýsingum sem þeir óska eftir og telja sig hafa þörf fyrir, öllum þeim textum og öðru efni sem hefur slíkar upplýsingar að geyma. Bókasöfn eru því jafnframt einkar vel til þess fallin að vinna að góðu upplýsingalæsi allra, til að hjálpa fólki að nálgast og nýta þær upplýsingar sem það þarf á að halda.

Það ber að standa tryggan vörð um þetta hlutverk bókasafna í samfélagi 21. aldarinnar, tryggja að þau verði áfram þau vopnabúr frelsis, sem byggir á þekkingu, og ég mun leggja mitt af mörkum til að svo verði.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum