Hoppa yfir valmynd
27. september 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur á fundi höfundaréttarráðs

Höfundaréttarráði er samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 500/2008 ætlað að vera er vettvangur fyrir kynningu og umræðu um höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið.

22. september 2010, Þjóðminjasafnið

Fundur höfundaréttarráðs

Ágætu fulltrúar í höfundaréttarráði og aðrir gestir.

Höfundaréttarráði er samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 500/2008 ætlað að vera vettvangur fyrir kynningu og umræðu um höfundaréttarmálefni sem efst eru á baugi á hverjum tíma, einkum tillögur um breytingar á höfundalögum og áhrif höfundalaga á samfélagið.

Á fyrsta fundi höfundaréttarráðs, sem haldinn var í Þjóðminjasafninu 29. október 2009 voru kynntar tillögur um breytingar á höfundalögum sem nú hafa orðið að lögum nr. 93/2010. Hér á eftir gerir Rán Tryggvadóttir formaður höfundaréttarnefndar grein fyrir efni laganna sem eru fyrsti áfanginn í heildarendurskoðun höfundalaga.

Örar breytingar á samfélagi og tækni á síðastliðnum áratugum hafa gert það að verkum að endurskoðun höfundalaga var orðin löngu tímabær. Þar vísa ég einkum til þeirra breytinga sem felast í stafvæðingunni (d. digitalisering) og nýrri upplýsinga- og samskiptatækni.

Áhrifum stafvæðingarinnar á samfélagið má lýsa sem hæglátri en gagngerri byltingu í því hvernig við nálgumst fróðleik og upplýsingar, njótum afþreyingar og síðast en ekki síst í því hvernig við eigum samskipti hvert við annað. Í hinu stafræna netsamfélagi er notandinn gerandinn, hann velur staðinn, stundina og efnið sem notið er, hann framleiðir jafnvel efnið sjálfur og miðlar því til umheimsins um tölvu eða síma. Í hinu nýja netsamfélagi hefur vaxið upp kynslóð notenda sem hefur t.d. vanist því að tónlistarhlustun er ekki bara athöfn til að stunda heima í stofu við grammófóninn – tónlistin er alls staðar, hún er í viðtækjum, tölvunum, símunum og hvers konar margmiðlunarbúnaði sem menn bera á sér. Þessi bylting er ekki síst tilkomin af vinsældum MP3 hljóðþjöppunarformsins sem gerði mögulegt að miðla tónlist um netið og hlaða svo niður á tölvur, síma og önnur margmiðlunartæki.

Sú ógn sem höfundaréttinum hefur staðið af stafvæðingunni og netinu hefur einkum falist í því að með stafrænni afritun verður til eintak sem er nálægt hinu upprunalega að gæðum, og fyrir tilstilli netsins má senda slíkt eintak heimshorna á milli, á einu augabragði.

Í sögulegu samhengi má rifja upp að höfundaréttinum hefur í gegnum tíðina staðið ógn af nýrri tækni og má nefna almenna tilkomu ljósritunartækni í upphafi áttunda áratugarins í því sambandi. Það hefur reyndar einkennt þróunina að höfundalögin hafa ekki fylgt tækninni og togstreita hefur áður skapast á milli rétthafanna og tæknifyrirtækja. Rétthafar voru þannig ósáttir við tilkomu hljóðsnældunnar, kassettunnar og síðast en ekki síst tilkomu myndbandstækja. Í upphafi börðust rétthafarnir hatrammlega gegn sölu myndbandstækja til almennings og töldu að með notkun þeirra væri stórlega vegið að afkomumöguleikum þeirra. Reyndin varð hins vegar allt önnur, því með myndböndunum opnaðist stór markaður fyrir útleigu og sölu kvikmynda til almennings.

Hvernig hafa útgefendur og rétthafar nýtt sér tækifæri stafvæðingarinnar? Hafa þeir nýtt sér hina nýju tækni til að koma fram með ný viðskiptamódel og verða þannig við óskum notenda um geta notið afþreyingarefnis hvar sem er og hvenær sem er, á lögmætan hátt? Sannast sagna, hafa útgefendur og rétthafar verið seinir að taka við sér. Líkt og á upphafsárum myndbandstækjanna hafa þeir sett meiri orku í lögsóknir og hagsmunabaráttu en að stuðla að framboði efnis og afþreyingar fyrir hina nýju tækni.

Ég hef á opinberum vettvangi talað fyrir mikilvægi þess að leita bera jafnvægis á milli hagsmuna rétthafa og notenda. Það ættu að vera hagmunir beggja að ný tækni verði notuð til að stuðla að löglegu framboði efnis, þar sem hagsmunir rétthafa eru tryggðir með viðeigandi tæknilegum ráðstöfunum.

Ég tel að rót þess vanda sem við stöndum frammi fyrir megi rekja til nokkurra atriða. Eins og ég hef áður rakið tel ég að útgefendur og rétthafar hafi ekki beitt sér nægilega fyrir því að virkja áhuga netverja til að njóta efnis á stafrænu formi með því að þróa nýjar löglegar efnisveitur. Þá virðist vera þverrandi virðing fyrir höfundarétti meðal ungs fólks sem hefur jafnvel vanist því að greiða aldrei fyrir tónlist sem notið er í tölvum. Úr þessu þarf að bæta með fræðslu á tungumáli sem ungt fólk skilur og í gegnum miðla sem ungt fólk notar til daglegra samskipta og upplýsingaöflunar.

Úrræði höfunda- og réttarfarslaga verða að þjóna rétthöfum á þann hátt að unnt verði að bregðast við yfirstandandi höfundaréttarbrotum með skilvirkum hætti. Hagsmunir rétthafanna eru slíkir að hver dagur sem ný ólögleg þjónusta fær að starfa óáreitt geta margfaldað það tjón sem rétthafar verða fyrir í missi tekna af sölu og útleigu efnis.

Á samráðsvettvangi norrænna stjórnvalda hafa verið ræddar aðgerðir til að sporna við ólöglegri dreifingu á höfundavörðu efni á netinu. Til að mynda hefur Norðurlandaráð gefið út tilmæli (Rekommandation 31/2009) – „Fullnusta höfundaréttar á netinu“ þar sem eftirfarandi tilmælum er beint til norræna ráðherraráðsins:

  •  Að rannsaka skuli samhengi höfundaréttar og afþreyingarhagkerfið, þ.m.t. í hve miklum mæli tækniþróun hefur   áhrif á verðmætasköpun fyrir listamenn og höfundaréttariðnaðinn,
  • Að stofna skuli umræðugrundvöll sem tryggir samtal á milli stjórnmálamanna, listamanna, framleiðenda,   notenda og annarra hagsmunaaðila á höfundaréttarsviðinu,
  • Setja skuli upp samhliða vöktun og rýni löggjafar á sviði höfundaréttar og réttaröryggissviðinu í   Norðurlöndunum og í tengslum við EB, með samræmingu löggjafar að leiðarljósi,
  • Skipuleggja og koma af stað upplýsingaherferðum sem ætlaðar eru skólum, börnum og ungmennum, sem og  neytendafélögum, þar sem veittar verða upplýsingar um þýðingu höfundaréttar og afleiðingar þess ef brotið er  gegn honum.

Ég tel að nú þegar séu stjórnvöld hér á landi að vinna í anda þessara tilmæla frá Norðurlandaráði, m.a. með þeim samráðsvettvangi sem höfundaréttarráði er ætlað að vera. Það má hins vegar gera betur, einkum í uppfræðslu barna og ungmenna um þýðingu höfundaréttar.

Hér á eftir verður svo gerð grein fyrir fundaröð mennta- og menningarmálaráðuneytisins með fagaðilum um leiðir til að stuðla að aukinni verslun með stafrænt menningarefni og um leið að sporna við ólögmætri dreifingu höfundavarnis efnis á netinu.

Ég hvet ykkur fulltrúa í höfundaréttarráði til að taka þátt í umræðunni hér á eftir og lýsi hér með annan fund höfundaréttarráðs settan.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum