Hoppa yfir valmynd
4. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur - Heilsuefling í framhaldsskólum

Árið 2007 var gerður samningur milli mennta-og menningarmálaráðuneytis, Lýðheilsustöðvar og samtaka framhaldsskólanemenda sem kallaður hefur verið HOFF og stendur fyrir Heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum

Katrín Jakobsdóttir 1.oktober 2010
Katrin-Jakobsdottir-1.-oktober-2010-

1. október 2010, Flensborgarskólinn í Hafnarfirði

Heilsuefling  í framhaldsskólum

Árið 2007 var gerður samningur milli menntamálaráðuneytisins, Lýðheilsustöðvar og samtaka framhaldsskólanemenda sem kallaður hefur verið HOFF og stendur fyrir Heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum. Samningurinn var til þriggja ára og verður endurnýjaður hér á eftir.

Það hefur margt áunnist á þeim þremur árum sem HOFF verkefnið hefur verið við lýði.  Svokölluð Íþróttavakning framhaldsskólanna, hefur verið framkvæmd tvisvar sinnum en markmiðið með henni er að fá sem flesta framhaldsskólanemendur til að hreyfa sig, sem síðan leiðir sjálkrafa til betri líðanar og betri námsárangurs.  HREYFING ER GEÐVEIK GEÐRÆKT var yfirskrift Íþróttavakningarinnar síðastliðinn vetur en í átakinu tóku þátt alls um 10.000 framhaldsskólanemendur úr rúmlega 30 framhaldsskólum landsins.  Nemendur notuðu ýmis tækifæri til að hreyfa sig á fjölbreyttan máta, sumir fóru á skíði, aðrir á skauta og í íshokkí, einhverjir fóru í fjallgöngu og ratleik á meðan aðrir létu sér nægja að ganga eða hjóla.  Gríðarleg ánægja nemenda og kennara með þetta átak hefur leitt til þess að nú eru uppi á borðum hugmyndir þess efnis að keppt verði í svokallaðri framhaldsskólahreysti á næsta ári, en þar myndu nemendur spreyta sig í ýmsum keppnisgreinum tengdum íþróttum, almennri þekkingu og forníslenskum glímubrögðum!

Eins og yfirskrifti Íþróttavakningarinnar síðastliðinn vetur gefur til kynna þá er heilbrigð sál í hraustum líkama.  Sem lið í því að efla betri líðan framhaldsskólanema og sporna gegn brottfalli og almennri vanlíðan þeirra fór, í upphafi þessa árs, í gang tilraunaverkefni í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í samvinnu við Eirík Örn Arnarson sálfræðing, um skimun gegn þunglyndi hjá fyrsta árs nemum í skólanum.  Í ljós kom að ákveðinn hluti nýnema glímir við depurð og kvíða sem síðan leiðir til þunglyndis sé ekkert að gert.  Verkefnið miðar að því að veita þeim nemendum stuðning sem greinast í áhættuhópi og koma í veg fyrir frekari vanlíðan, erfiðleika í námi og brottfall.  Í nýjum HOFF samningi er gert ráð fyrir sérstökum faghópi um sálfélagslegan stuðning og geðheilbrigði og því ber að fagna.

Í dag verður skrifað undir nýjan og endurbættan HOFF-samning til þriggja ára. Markmið hans er að stuðla að bættri almennri líðan og heilsu nemenda, bæta og efla ráðgjöf við nemendur á sem flestum sviðum sem snerta velferð þeirra og hvetja nemendur til að taka ábyrgð á eigin heilsu og stuðla að heilbrigðum og sjálfbærum lífsháttum. Eins og áður verður haldið áfram að vinna ötullega að áfengis- og fíkniefnaforvörnum og eins og fram hefur komið verður aukin áhersla á geðrækt og einnig á að efla kynheilbrigði meðal ungs fólks.

Ástæða þess að Flensborgarskólinn verður fyrir valinu varðandi undirskrift samningsins hér í dag er að nú hefst formlega verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli. Flensborg er fyrsti skólinn sem fer af stað eftir árslangt aðlögunarferli og 20 skólar hafa bæst í tilraunahópinn undir leiðsögn Lýðheilsustöðvar, í samvinnu við aðila HOFF samningsins, með það að markmiði að ganga inn í verkefnið að ári.

Flensborgarskólinn hefur verið valinn sem forystuskóli í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli. Fyrst verður næring tekin fyrir, því næst hreyfing, þá geðrækt og loks lífsstíll. Verkefnið er ekki hugsað sem átak heldur viðvarandi þróun þar sem áhersla er lögð á að  hver og einn taki ábyrgð á eigin heilsu og líðan og tileinki sér lífsvenjur sem eru uppbyggilegar fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði.

Flensborgarskóli var fyrst settur 1. október 1882 sem „alþýðu- og gagnfræðaskóli.“ Það er því ástæða til að fagna með nemendum og starfsfólki skólans á þessum afmælisdegi skólans og óska Flensborgurum alls hins besta í því verkefni sem framundan er.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum