Hoppa yfir valmynd
5. október 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur á málþingi um tungumálakennslu í grunn- og framhaldsskólum í tilefni af Evrópska tungumáladeginum

Mér er það mikil ánægja að ávarpa ykkur í tilefni af Evrópska tungumáladeginum. Daginn ber reyndar upp á 26. september en því miður gat ég ekki verið hér með ykkur þann dag.

28. september 2010, Náma, salur Endurmenntunar, Dunhaga 7

Í tilefni af Evrópska tungumáladeginum 26. september, flutt 28. september.

Mér er það mikil ánægja að ávarpa ykkur í tilefni af Evrópska tungumáladeginum. Daginn ber reyndar upp á 26. september en því miður gat ég ekki verið hér með ykkur þann dag. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur býður til þessarar dagskrár og er það vel við hæfi.

Margir líta svo á að tungumálakennsla sé sjálfsagður hluti skólastarfs, enda hefur kennsla í erlendum tungumálum verið eðlilegur hluti námsefnis frá upphafi skólahalds. Hvort sem við horfum aftur til skólanna í Grikklandi hinu forna eða lítum okkur nær í tíma og upphafs almenningsskóla á Vesturlöndum finnum við erlend tungumál í kennsluskrám. Ef grannt er skoðað kemur þó í ljós að ekki er allt sem sýnist og námsgreinin tungumál getur verið ærið fjölbreytt og markmið tungumálanáms breytileg frá einum tíma til annars.

Guðmundur Finnbogason greindi í bók sinni Lýðmenntun (útg. 1903) milli menntagildis og notagildis námsgreina.  Námsgreinar áttu að hans viti að hafa hvort tveggja, stuðla að þroska og almennri menntun hvers og eins, en jafnframt að hafa hagnýtt gildi, þ.e. aðvelda nemandanum að skilja umhverfi sitt og takast á við dagleg viðfangsefni í leik og starfi.

Þennan mun á menntagildi og notagildi  námsgreina sjáum við t.d. þegar við skoðum stöðu latínu og grísku í skólum miðaldakirkjunnar og í lærða skólanum okkar fram á 20.öld. Rökin fyrir kennslu þessara fornmála lutu lengst af frekar að almennu menntagildi þeirra, en hagnýtu notagildi í samtíma nemendanna.

Þegar almenningsfræðslu óx fiskur um hrygg urðu kröfur háværari um aukið vægi nútímamála í námskrám skólanna. Rökin fyrir því voru fyrst og fremst byggð á notagildi þeirra fram yfir fornmálin. Lifandi mál, s.s. franska, þýska og enska, hlytu að hafa almennt menntagildi svipað og fornmálin. Þau byggju að rökfastri málfræði, eldri og nýrri bókmenntum og skýrum tengslum við hraðfara þróun nútímasamfélagsins. Með innleiðingu nútímamálanna í námskrár skólanna má segja að reynt hafi verið að halda í menntagildi tungumálanáms um leið og notagildi þess átti að aukast til mikilla muna.

Þetta sést glögglega sé rýnt í námskrár erlendra tungumála fyrir grunnskóla og framhaldsskóla síðustu áratugi. Í aðalnámskrá birtist útfærsla á texta menntalöggjafar og stefna stjórnvalda í skólamálum hverju sinni. Þessa sér stað í núgildandi aðalnámskrám í erlendum tungumálum, fyrir framhaldsskóla frá 1999 og fyrir grunnskóla frá 2007. Annars vegar er lögð áhersla á hið almenna menntagildi tungumálanáms, en áherslan á notagildi námsins er þó skýrð í lengra máli í námskrártextunum.

Áhersla er nú lögð á hinn menningarlega þátt tungumálakunnáttu sem veita á  innsýn í menningu annarra þjóða til að einstaklingurinn geti átt farsæl samskipti og samvinnu við fólk af öðru þjóðerni. Samhliða því að nemendur eiga að öðlast þekkingu á margþættum reglum tungumála er náminu ætlað að auka alhliða færni þeirra í erlendum tungumálum. Það er því ekki talið nægilegt að geta lesið málið, geta skrifað bundinn texta, ráða yfir tilteknum orðaforða og kunna málfræðireglur utan að.

Í kennslu skal nú leitast við að gefa nemendum tækifæri til þess að kljást við tungumálið með fjölbreytilegum hætti. Mikilvægt er að hvetja nemendur til að lesa og hlusta á erlend tungumál þegar færi gefst, jafnframt því að hvetja þá til að nota tungumálið á skapandi og uppbyggi­legan hátt við raunhæfar aðstæður til þess að þeir öðlist kunnáttu og færni til að nota erlend mál í venjulegum samskiptum.

Í námskránum er notagildi tungumálanáms svo t.d. tengt við aukin ferðalög milli landa, vaxandi hlut ferðaþjónustu í atvinnulífinu, við möguleika á framhaldsmenntun erlendis, samskiptaleiðir á Netinu og þróun margmiðlunartækni ýmiss konar í daglegu lífi og viðskiptum. Bylting á sviði ljósvakafjölmiðlunar hafi  haft það í för með sér að Íslendingar hafi nú aðgang að alls kyns ótextuðu eða ótalsettu efni sem krefst skilnings á erlendum tungumálum. Þannig má segja að áhersla á notagildi málanáms yfirgnæfi menntagildi þess í gildandi námskrám.

Norræn tungumálastefna byggir á þessum hagnýtu stoðum tungumálanáms. Menntamálaráðherrar Norðurlanda samþykktu árið 2006 yfirlýsingu um málstefnu Norðurlanda, Deklaration om nordisk språkpolitik. Yfirlýsingin er ekki bindandi lagalega og hefur hvergi verið lögfest, svo ég viti,  en hún er mikilvæg viljayfirlýsing sem byggir á þeirri skoðun að tungumál sem notuð eru í samfélaginu séu lifandi og eigi að vera það áfram og að samstarf Norðurlanda eigi áfram að fara fram á skandinavískum málum, þ.e. dönsku, norsku og sænsku.

Verkefni þetta snýr fyrst og fremst að börnum og ungmennum og stendur út árið 2011.

Málaátakið eða Språkkampanjen er norrænt samstarfsverkefni í anda málstefnunnar og byggist annars vegar á að nýta þau verkfæri og verkefni sem fyrir hendi eru á vettvangi norræns samstarfs, t.d. Nordplus eða Norræna menningarmálasjóðsins og hins vegar á þeim verkefnum sem hvert Norðurlandanna ákveður að setja á laggirnar.

Aðaltilgangur verkefnisins  er að styrkja skilning barna og ungmenna á dönsku, norsku og sænsku. Höfuðáherslu á að leggja á að skapa og styðja við verkefni þar sem beita þarf tungumálunum fyrrnefndu í gegnum nýja miðla og samskiptaform sem höfða til barna og ungmenna. Markmiðið er að börn og ungmenni fái áhuga á að hafa samskipti við jafnaldra sína á Norðurlöndum..

Fjárveiting til verkefnisins er 300 þús danskar kr á hvert Norðurlandanna sem þau hafa sjálfdæmi um í hvað  er ráðstafað.  Ákveðið hefur verið að auglýsa eftir verkefnum hér á landi og mun auglýsing birtast innan tíðar. Markmiðið er að verkefnin verði heldur stærri en smærri, fá en stór miðað við þessa fjárveitingu. Ég bendi fólki á að fylgjast með þessari auglýsingu en einnig verða birtar upplýsingar á heimasíðu ráðuneytisins. Hvað varðar hinn hluta fjárveitingarinnar er upplýsingar að finna á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar, norden.org

Dæmi um fleiri farsæl samstarfsverkefni er danskur styrkur fyrir farkennara frá Danmörku sem íslenska mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir einnig. Eins má minnast á nemendaskipti sem norræna ráðherranefndin styrkir. Öll þessi verkefni eru gríðarlega mikilvægur liður í að vinna að norrænu málstefnunni.

Árið 2008 voru samþykkt ný lög um framhaldsskóla, grunnskóla og leikskóla. Eitt markmið þeirrar löggjafar er að skapa meiri samfellu í námi, inntaki og kennsluháttum á milli skólastiga. Meðal þess sem rætt var í aðdraganda lagasetningarinnar voru möguleikar á að nýta námstíma skólanna betur. M.a. var bent á að þar sem langstærstur hluti barna hér á landi sækir nú leikskóla mætti að ósekju nýta næmi þeirra betur til að leggja þar traustan grunn að tungumálanámi. Þá var bent á að námstími í grunnskólum hefði aukist umtalsvert undangenginn áratug, þannig að nýta mætti tímann á því skólastigi betur og e.t.v. flytja námsefni byrjunaráfanga framhaldsskólans í nokkrum námsgreinum alfarið í grunnskólann, var tungumálanám nefnt í því sambandi. Samkvæmt grunnskólalögunum 2008 eru enska og danska enn skyldunámsgreinar. Þá á að vera meira valfrelsi í viðmiðunarstundaskrá sem m.a. mætti nýta til að auka við tungumálanám og jafnvel bæta við fleiri tungumálum í grunnskóla.

Mestar breytingar urðu á framhaldsskólalögunum 2008, þar sem ákvörðunarvald um inntak námskrár var að stórum hluta fært til skólanna sjálfra (aukin dreifstýring – minni stefnumótun í ráðuneyti). Skyldubundnar námsgreinar voru lagðar af, nema á stúdentsbrautum, þar sem einungis íslenska, enska og stærðfræði eru nú tilgreindar, en vægi þeirra var minnkað frá því sem áður var. Þessu ákvörðun löggjafans var djörf og umdeild og nú vinna framhaldsskólar að staðbundinni útfærslu hennar með gerð námsbrauta á grundvelli laganna, sem tryggja eiga fjölbreytni um leið og halda á uppi svipuðum námskröfum til hefðbundinna prófa, s.s. stúdentsprófs og sveinsprófa eða annarra prófa til starfsréttinda.  Eitt mikilvægt úrlausnarefni í þessu sambandi varðar vægi og inntak tungumála­náms á hinum ólíku námsbrautum framhaldsskólans.

Ráðuneytið hefur unnið náið með starfsfólki framhaldsskólanna að gerð viðmiðaramma um námskröfur og lokapróf. Einstakir framhaldsskólar vinna þróunarverkefni um gerð náms­brauta og náið samstarf er við aðila atvinnulífsins í gegnum stafsgreinaráð um nýskipan starfsnáms á framhaldsskólastigi. Hluti þessa starfs snýr að stöðu einstakra námsgreina í námskrám framhaldsskólanna. Dæmi um þetta er staða tungumálanáms á hinum ólíku náms­brautum, bóknáms, listnáms og verknáms; almenns náms til stúdentsprófa og starfsnáms af ýmsu tagi. Hér er glímt við spurningar um eðlilegan fjölda tungumála, vægi þeirra og námskröfur á mismunandi námsbrautum. Hér vakna einnig spurningar um menntagildi og notagildi tungumálanna.

Full ástæða virðist til að skoða alvarlega að hefja kennslu fyrsta erlenda tungumáls hérlendis fyrr en nú er gert í skólakerfinu. Kennsla erlends tungumáls sem skyldunámsgreinar hefst nú fyrr en áður tíðkaðist í skólakerfum Evrópulanda og í langflestum Evrópulöndum gefst nemendum kostur á að læra tvö erlend tungumál á skólaskyldualdri, en algengt er að aðeins annað þeirra sé skyldunámsgrein og að kennsla seinna tungumálsins hefjist ekki fyrr en á unglingastigi (í 8.-10. bekk). Ísland er eitt fárra landa sem hefja kennslu tveggja erlendra tungumála á barnastigi, þ.e. ensku í 4. bekk og dönsku í 7. bekk. Kennsla fyrsta erlenda tungumálsins hefst hins vegar síðar hér á landi en víða í samanburðarlöndunum eða oftast við 10 ára aldur. Rúmlega helmingur Evrópulandanna byrjar kennslu fyrsta erlenda tungumálsins við 7-9 ára aldur. Við samanburð á lágmarksfjölda kennslustunda og fjölda ára í skyldunámi í fyrsta erlenda tungumálinu kemur fram að minni tíma er varið á Íslandi til kennslu fyrsta erlenda tungumáls en meðal þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við. Á móti kemur að valfrjáls kennslutími er meiri á Íslandi en hjá flestum öðrum þjóðum.

Tölur Hagstofunnar undanfarin ár hafa sýnt stöðuga fjölgun grunnskólanema sem læra erlend tungumál. Hlutfallslega hefur fjölgunin verið mest meðal yngri nemenda, því sífellt fleiri yngri nemendur grunnskólans hafa lært ensku. Skólaárið 2009-2010 fækkaði nemendum í dönsku, sænsku, norsku og þýsku. Hins vegar fjölgaði nemendum í frönsku um 22,4% frá fyrra ári og spænskunemum fjölgaði um 5,9% en þessi tungumál eru í sumum skólum kennd sem valgreinar í efstu bekkjum grunnskólans.

Í tölum Hagstofunnar er margt sem vekur spurningar. Ljóst er að mikill áhugi er á að hefja tungumálanám fyrr og má velta fyrir sér hvort það megi ekki eiga við um fleiri tungumál en ensku?  Í öðru lagi hefur þörf og áhugi aukist á spænsku og frönsku. Það vekur upp spurningar hvort gefa eigi þessum tungumálum meira vægi í skólakerfinu.

Kæru gestir

Í júní síðastliðnum komu á minn fund forsvarsmenn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands fulltrúar og lýstu yfir áhyggjum sínum af stöðu erlendra tungumála í skólakerfinu. Að frumkvæði þeirra mun ráðuneytið á haustmánuðum 2010 láta vinna greinargerð um stöðu tungumálakennslu í skólakerfinu, greina vandamál og setja fram tillögur um úrbætur. Þessi vinna verður í nánu samstarfi við Kennarasamband Íslands, Samtök tungumálakennara á Íslandi og önnur fagfélög tungumálakennara, einnig við fulltrúa stofnana og háskóladeilda á sviði tungumálakennslu. Slík greinargerð mun væntanlega gagnast við gerð aðalnámskráa í erlendum tungumálum sem ráðgert er að vinna á næsta ári.

Við vitum öll að kunnátta í erlendum tungumálum eru okkur nauðsynleg til þess að lifa af í þessu landi og við komumst ekki langt án þeirrar kunnáttu. Tungumálið er samskiptatæki og það á jafnt við um erlend tungumál sem móðurmál okkar. En það er líka tæki til að leita sér þekkingar og kynnast menningu annarra. Í því ölduróti sem framundan er ríður á að móta öfluga stefnu í tungumálanámi þar sem bæði hagnýtt og menntalegt gildi tungumálanáms er haft að leiðarljósi. Næstu misseri verða því spennandi tímar fyrir fagfólk á þessu sviði. Heildstæð og fagleg tungumálastefna verður ekki hrist fram úr erminni í einu vetfangi en orð eru til alls fyrst.

Ég vona að þið eigið góðan fund framundan.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum