Hoppa yfir valmynd
3. maí 2011 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Vísindi á vordögum

28. apríl 2011, Landspítali

Ágætu gestir

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag og sjá frá fyrstu hendi þá miklu grósku í vísindum og nýsköpun sem á sér stað hér á Landspítala.

Ég minni á að Vísinda- og tækniráð markar stefnu stjórnvalda í vísinda – og tæknimálum, sem lögð er fram til þriggja ára í senn. Í stefnunni er lögð áhersla á að huga þurfi að vísinda- og nýsköpunarkerfinu sem einni heild, og áhersla á samvinnu og samnýtingu til að nýta best þá krafta sem fyrir eru, og nýta sem best það fé sem veitt er til vísinda- og nýsköpunar.

Samkvæmt nýbirtum tölum þá verja Íslendingar um 3,1% af vergri landsframleiðslu til rannsókna og þróunar, sem er hreint ágætt miðað við aðrar þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Innan Evrópusambandsins er t.d. stefnt að því að þetta hlutfall verði 3% fyrir árið 2020. En Ísland vill gera enn betur, og í stefnumörkuninni Ísland 2020 sem ríkisstjórnin samþykkti nýlega er eitt af markmiðum sem þar eru sett fram að 4% af landsframleiðslu verði varið til rannsókna, þróunar og nýsköpunar.

Það er hins vegar staðreynd að þeir opinberu fjármunir sem veitt er til rannsókna og þróunar dreifast á mjög marga aðila; til háskóla, til opinberra rannsóknastofnana svo og til þekkingarsetra víðs vegar um landið. Það má kannski segja að það sé víða smurt þunnt. Á síðasta fundi Vísinda- og tækniráðs sem haldinn var fyrr í þessum mánuði var samþykkt að fela starfsnefndum ráðsins ásamt vinnuhópi ráðuneytisstjóra að leggja fram tillögur til einföldunar á vísinda- og nýsköpunarkerfinu, með gæði og árangur að leiðarljósi. Tillögur þess efnis verða lagðar fram á desemberfundi ráðsins.

Þrátt fyrir niðurskurð og erfiða tíma, hafa nýlegar úttektir sýnt fram á sterka stöðu íslensks vísindasamfélags. Úttektir á birtingum íslenskra vísindamanna sýnir víðtæk alþjóðleg tengsl en rúmlega 70% birtinga þar sem Íslendingar eiga í hlut eru árangur alþjóðlegs samstarfs, bæði í Evrópu, Ameríku en vert er að geta að samstarf við ríki í Asíu hefur u.þ.b. tvöfaldast á rúmum tveimur áratugum. Klínískar læknisfræðilegar rannsóknir er stærsta rannsóknasviðið á Íslandi, en þriðjungur allra birtinga er á því sviði. Enn fremur bendir margt til þess að stoðumhverfi nýsköpunar sé gott á Íslandi en styrkja ber og hlúa þarf að frekari vexti frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja, enda skapast þannig möguleikar á aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag.

Ég óska ykkur til hamingju með þennan glæsilega afrakstur af öflugu vísindastarfi, og að þið eigið ánægjulegan dag hér á Vísindum á vordögum 2011.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum