Hoppa yfir valmynd
25. maí 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Setning Listahátíðar í Reykjavík

20. maí 2011, Harpa

Góðir hátíðargestir

„Lífið er stutt en listin er löng“ sagði Hippókrates fyrir margt löngu, gömul sannindi og ný.

Sannleika listarinnar þarf ekki að rökstyðja. Hún er. Listin gagnrýnir og hvetur, hneykslar og hrífur og með virkri þátttöku er listin ótæmandi uppspretta og aflvaki í lífi hverrar þjóðar. Þegar litið er yfir sögu þjóða er það helst menning þeirra og listsköpun sem skipar þeim í fylkingarbrjóst.

Það skiptir fámenna þjóð miklu máli að taka opnum örmum á móti menningarstraumum frá öllum heimshornum og leggja um leið rækt við menningarleg sérkenni sín.

Listahátíð í Reykjavík hefur frá upphafi haft metnaðarfulla listsköpun að leiðarljósi og kappkostað að tefla fram framúrskarandi listafólki alls staðar að úr heiminum. Af metnaði hefur Listahátíð miðlað hingað margbrotnum menningarstraumum og opnað okkur sýn til allra átta, ásamt því að endurspegla fjölskrúðugt listalíf á Íslandi. Hátíðin hefur sannarlega átt sinn þátt í að við erum ekki menningarlegt eyland heldur virkur gerandi í heimi listanna.

Um þessar mundir eru tímamót í íslenskri menningarsögu. Langþráður draumur um tónlistarhús á Íslandi er loks orðinn að veruleika og njóta flytjendur og gestir Listahátíðar í ár sannarlega góðs af því. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við þann hóp íslenskra tónlistarmanna, innlendra og aðfluttra, sem á síðustu öld sköpuðu hér auðugt tónlistarlíf upp á eigin spýtur og byggðu upp öfluga tónlistarkennslu frá grunni. Við bættist sá eldhugur fjölmargra sem lagt hafa sitt að mörkum svo upp rísi tilhlýðilegt hús yfir þá miklu gersemi sem tónlistin er.

Íslendingar áttu sannarlega hauk í horni í Vladimir Ashkenazy sem var einn af upphafsmönnum Listahátíðar í Reykjavík og tók þátt í að móta yfirbragð hátíðarinnar fyrstu árin og hefur alla tíð verið hollvinur hennar. Ashkenazy var einnig ötull baráttumaður fyrir byggingu tónlistarhúss á Íslandi og stjórnaði fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hér í Hörpu fyrr í mánuðinum.

Og nú er sannarlega hátíð í bæ. Jafn árviss og vorboðinn ljúfi gengur Listahátíð í Reykjavík í garð með fangið fullt af skrautlegum farfuglum og gróskan í íslenskri list hefur sjaldan verið meiri.

Góðir hátíðargestir, megi Listahátíð í Reykjavík árið 2011 styrkja íslenska listsköpun enn í sessi og verða mörgum til gleði og ánægju. Að lokum langar mig að vitna í orð prófessors Sigurðar Nordal:

„Listin að lifa, hin erfiðasta, nauðsynlegasta og æðsta list allra lista, er framar öllu listin að hugsa, að hugsa frjálslega, af einlægni, djörfung og alvöru.“

Gleðilega listahátíð!

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum