Hoppa yfir valmynd
29. júní 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Opnun Ástustofu og sýningar á verkum Svavars Guðnasonar

24. júní 2011, Ráðhúsið Höfn í Hornafirði

Ættingjar og vinir Svavars Guðnasonar og Ástu, bæjarstjórn Hornafjarðar og bæjarstjóri, Hornfirðingar og aðrir gestir.

Í dag erum við hér saman komin til að fagna opnun á nýjum áfanga í menningarlífi Hornafjarðar og um leið landsins í heild: formlegri opnun Listasafns Svavars Guðnasonar í húsnæði, sem hér með hefur fengið nýtt og spennandi hlutverk eftir gagngerar endurbætur.

Svavar Guðnason er tengur Hornafirði órjúfanlegum böndum. Sagan segir, að í bernskutíð hans hafi verið fimm hús hér í Hornafirði, og ein fjölskylda í hverju húsi. Hús foreldra hans bar það reisulega nafn Hekla og þar var miðstöð mannlífs á staðnum; þar var gisti- og greiðasala, og haldnar voru samkomur og dansleikir, og gestir og gangandi hafa vissulega flutt með sér andblæ utan að inn í þetta litla samfélag.

Þessi ár hafa einnig verið nefnd benskutíð íslenskrar myndlistar; sköpunarkraftur heillar kynslóðar listamanna var leystur úr læðingi með átaki manna og kvenna sem áttu sér þá hugsjón að þjóna sínu landi með því að að verða listamenn og færa þjóðinni nýja sýn á þá fegurð, sem hér var að finna. Hornafjörður varð mikilvægur hluti af þessari þróun, einkum á þriðja áratug síðustu aldar; Ásgrímur Jónsson sótti hingað til að mála, og gerði hér margar af sínum fallegustu vatnslitamyndum, og hér kom fram hlutfallslega stór hópur listamanna, sem Svavar bar mikla virðingu fyrir og minntist með hlýju. Af þeim má nefna þá Jón Þorleifsson, Höskuld Björnsson, og Karl Guðmundsson auk Bjarna Guðmundssonar síðar kaupfélagsstjóra, sem var eins konar lærifaðir hinna yngri þegar þeir fetuðu í fótspor meistara Ásgríms og leituðust við að læra af vinnubrögðum hans meðhöndlun þess stórfenglega myndefnis, sem hér er allt um kring.

Stuðningur við listamenn getur skipt sköpum og ráðið miklu um þróun þeirra og framtíð. Svavar minntist þess oft í viðtölum, að annar listmálari frá Austfjörðum, sjálfur Jóhannes Kjarval, keypti fyrstu myndina sem Svavar seldi. Það réði einnig miklu um að hann helgaði sig myndlistinni að Kjarval hvatti hann 1934 til að fara vestur í Búðardal, þar sem Stefán bróðir hans var héraðslæknir. Þar fór Svavar fyrst að sinna málverkinu af fullri alvöru og tók þá ákvörðun að gera málaralist að ævistarfi sínu. Um haustið hélt hann sýningu á verkum sínum í Haraldarbúð í Reykjavík, og þar keypti hinn þekkti járnsmiður og listunnandi, Markús Ívarsson, mörg verkanna. Það fé gerði Svavari kleift að sigla til Kaupmannahafnar í ársbyrjun 1935, með meðmælabréf frá Kjarval og Jóni Þorleifssyni upp á vasann, til að hefja listnám.

- Stuðningur góðra manna skipti hér öllu.

Það er ljóst, að það mikla næmi fyrir lit- og ljósbrigðum náttúrunnar sem hefur einkennt verk Svavars Guðnasonar alla tíð þróaðist fyrst hér í Hornafirði, og styrktist síðan með aldri og auknum þroska listamannsins. Til er skemmtileg dagbókarfærsla listamannsins frá 11. apríl 1930 þar sem hann lýsir litarfari umhverfisins og himinsins yfir Hafrafelli og Öræfajökli í öllum þess fjölbreyttu blæbrigðum.

Menningarmiðstöð Hornafjarðar hefur hlúð dyggilega að minningu Svavars Guðnasonar, og á vegum hennar hefur verið unnið mikið starf við undirbúning þessa dags. Án þeirrar skráningarvinnu sem hér var unnin er t.d. óvíst að glæsileg bók Kristínar Guðnadóttur um listamanninn sem kom út 2009 hefði orðið að veruleika. Það er mér mikið gleðiefni að í dag höfum við forstöðumaður Menningarmiðstöðvarinnar, Björg Erlingsdóttir, undirritað samning um fjárstyrk mennta- og menningarmálaráðuneytis til uppbyggingar Listasafns Svavars Guðnasonar, eins og hér hefur komið fram, og er sá samningur í samræmi við ákvæði safnalaga um slíkan stuðning. Það er ætíð ánægjulegt að geta stutt góð verkefni, og ég veit að Hornfirðingar, landsmenn allir og gestir okkar eiga eftir að njóta þeirrar uppbyggingar, sem við eru hér saman komin til að fagna.

Góðir gestir,

Lit- og ljósbrigði verka Svavars Guðnasonar hafa nú eignast nýtt heimili; ég vil þakka öllum þeim sem hér hafa lagt hönd á plóginn fyrir vel unnin verk, óska öllum viðstöddum til hamingju með daginn og lýsi hér með fyrstu sýninguna í Listasafni Svavars Guðnasonar opna.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum