Hoppa yfir valmynd
16. september 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Setning Bókmenntahátíðar í Reykjavík

Bókmenntahátíð í Reykjavík spratt upp úr ljóðlistahátíð sem Norræna húsið efndi til á árinu 1985. Þáverandi forstjóri hússins, Knut Ödegaard, fékk skáldin Einar Braga og Thor Vilhjálmsson í lið með sér. Tveimur árum síðar var prósa bætt við og stoðum var skotið undir alhliða bókmenntahátíð með liðveislu yngri eldhuga.

7. september 2011, Norræna húsið

Góðir gestir

Bókmenntahátíð í Reykjavík spratt upp úr ljóðlistahátíð sem Norræna húsið efndi til á árinu 1985. Þáverandi forstjóri hússins, Knut Ödegaard, fékk skáldin Einar Braga og Thor Vilhjálmsson í lið með sér. Tveimur árum síðar var prósa bætt við og stoðum var skotið undir alhliða bókmenntahátíð með liðveislu yngri eldhuga.

Bókmenntahátíð í Reykjavík er nú haldin í tíunda sinn og tileinkuð minningu Thors Vilhjálmssonar.

Þessi mikli skáldjöfur og andans maður, sem setti svo sterkan svip á menningarlífið á Íslandi, var skyndilega hrifinn á brott úr þessum heimi í mars á þessu ári. Þrátt fyrir háan aldur kom andlát hans okkur í opna skjöldu því hann var svo fullur af orku og lífi og sívirkur þátttakandi í menningarlífinu. Með honum er genginn einn af okkar mestu og ástsælustu rithöfundum og vökull sendiboði menningar og lista.

Thor var ótrúlega afkastamikill. Eftir hann liggja á þriðja tug frumsaminna bóka sem sumar færðu honum virt bókmenntaverðlaun. Hann var einnig mikilvirkur þýðandi enda hafði hann í ríkum mæli til brunns að bera alla þá eiginleika sem einkenna góðan þýðanda: staðgóða þekkingu á erlendum tungumálum, innsýn og næmi fyrir menningu viðkomandi lands og frábært vald á íslensku máli. Hann opnaði Íslendingum glugga inn í menningarheima annarra landa, ekki síst þeirra rómönsku.

Hann var „hjartað og sálin í bókmenntahátíðinni íslensku“ sagði Halldór Guðmundsson í minningargrein um Thor. Það eru orð að sönnu. Við minnumst Thors með djúpri virðingu þegar Bókmenntahátíðinni í Reykjavík er ýtt úr vör í ár.

Árið 2011 er merkisár í íslenskum bókmenntum. Fyrst Norðurlanda er Ísland heiðursgestur á Bókasýningunni í Frankfurt, stærstu og virtustu bókasýningu heims, Reykjavík hefur verið útnefnd bókmenntaborg UNESCO og Gyrðir Elíasson hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

Við setningu Bókmenntahátíðarinnar fyrir fjórum árum tilkynnti þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra ákvörðun ríkisstjórnarinnar að óska formlega eftir að Ísland hlyti þennan sess. Það var djörf ákvörðun þar sem hún kallaði á miklar fjárhagslegar skuldbindingar, en á því ári virtist allt vera á blússandi uppleið á Íslandi og hefur það eflaust haft sitt að segja. Ísland hreppti hnossið.

Þrátt fyrir mikla efnahagslega niðursveiflu haustið 2008 og verðrýrnun íslensku krónunnar var haldið fast við ákvörðunina. Af miklum dugnaði og útsjónarsemi hefur Halldóri Guðmundssyni, verkefnisstjóra, Rakel Björnsdóttur, aðstoðarverkefnisstjóra og samstarfsfólki þeirra tekist að afla viðbótarfjár og undirbúa verkefnið og er ég sannfærð um að Ísland mun ekki verða eftirbátur fyrirrennara sinna: Argentínu, Kína og Tyrklands. Talsvert fleiri íslenskir titlar hafa verið þýddir og gefnir út á þýska málsvæðinu í tilefni af bókasýningunni en þessum stórþjóðum tókst að koma í kring. Fámenn þjóð með mikla andagift og þor þarf ekki að gefa þeim fjölmennari neitt eftir nema síður sé.

Ný þýsk þýðing á Íslendingasögunum verður flaggskip okkar á bókasýningunni, kannski má segja rauði dregillinn sem mun hjálpa til að varpa kastljósinu á þá miklu grósku sem einkennir íslenskar samtímabókmenntir.

Fyrir nokkrum árum kom út vegleg ensk heildarþýðing á Íslendingasögunum og brátt munu liggja fyrir nýjar heildarþýðingar sagnanna á skandinavísku tungunum þremur. Þessar íslensku bókmenntir frá 12.-14. öld vekja enn alþjóðlegan áhuga og hvetja marga til að læra íslensku. Mikil ásókn útlendinga hefur löngum verið í íslenskunám. Margir af okkar bestu þýðendum á erlendar tungur hafa einmitt sprottið úr þeim jarðvegi og orðið mikilvirkir sem slíkir og öflugir sendiherrar íslenskrar bókmenningar. Eiga þeir miklar þakkir skildar.

Í tilefni af þessum þýðingum er blásið til alþjóðlegs Íslendingasagnaþings á bókmenntahátíðinni, en einnig er efnt til málþings með útgefendum, íslenskum og erlendum, til að fjalla um framtíð bókarinnar og þýðingu bókasýninga. En kjarni bókmenntahátíðarinnar nú sem endranær er stefnumót rithöfunda og lesenda. Sem fyrr eru mjög athyglisverðir höfundar á ferð sem hafa átt velgengni að fagna í heimalandi sínu sem víðar. Þátttaka Nóbelsverðlaunaskáldkonunnar Hertu Müller er okkur sérstakur heiður. Býð ég okkar erlendu gesti sem og íslenska starfsfélaga þeirra hjartanlega velkomna til leiks á bókmenntahátíðinni.

Öll bindum við miklar vonir við Bókasýninguna í Frankfurt í haust. Þýski bókamarkaðurinn er stór og öflugur, en hann opnar líka dyr að fleiri löndum. Heiðurssess Íslands í Frankfurt beindi þannig sjónum Amazon fyrirtækisins að íslenskum samtímabókmenntum og hyggst það gefa út a.m.k. tíu íslenskar bækur í Bandaríkjunum, bæði prentaðar og sem rafbækur. Ég er þess fullviss að þátttaka okkar mun skila íslenskum bókmenntum í enn ríkara mæli inn á heimsbókamarkaðinn. En hún er einnig mikil lyftistöng fyrir íslenska rithöfunda og hvatning til frekari dáða. Bókmenntahátíð í Reykjavík og útnefning Reykjavíkur sem ein af bókmenntaborgum UNESCO hafa líka áhrif í þessu efni.

Útflutningur á íslenskum bókmenntum og þýðingar sem af því leiða eru mikilvægar til að breiða út hróður íslenskrar menningar en brýnast er þó að auknar tekjur styrki enn útgáfu á íslenskum bókmenntum og þar með stöðu íslenskrar tungu.

Á Bókasýningunni í Frankfurt erum við Íslendingar að hefja öflugri sókn á bókavettvangi heimsins. Ég er þess fullviss að með samstilltu átaki allra munum við hafa erindi sem erfiði, en öflug eftirfylgni er ekki síður mikilvæg. Við erum að hefja langhlaup sem krefst atorku og þolinmæði. Ríkisstjórnin vill leggja sitt lóð á vogarskálarnar og hefur ákveðið stuðla að því að alls verði veitt 45 millj. kr. á þessu ári og næsta til að styrkja það starf.

Góðir gestir

Fram undan er nokkurra daga bókmenntaveisla með glæsilegri og metnaðarfullri dagskrá. Njótið öll vel af andlegum veisluföngum komandi daga.

Bókmenntahátíð í Reykjavík 2011 er sett.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum