Hoppa yfir valmynd
7. mars 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Afhending Eyrarrósarinnar á Bessastöðum

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við afhendingu verðlauna fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við afhendingu verðlauna fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins.

Forseti Íslands,

forsetafrú Dorrit Moussaieff, verndari Eyrarrósarinnar

Góðir gestir

Við erum hér samankomin að því gleðilega tilefni að Eyrarrósin verður veitt í áttunda sinn í dag. Sem fyrr eru verðlaunin veitt fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands og er ætlað að vekja athygli á því vandaða menningarstarfi sem fram fer utan höfuðborgarsvæðisins. Bakhjarlar Eyrarrósarinnar eiga hrós skilið fyrir þessi fallegu verðlaun og þá hvatningu sem þeim fylgir. Sjálfri eyrarrósinni tekst að vaxa og dafna í harðgerum aðstæðum í náttúrunni. Það er vel við hæfi að verðlaunin séu kennd við þetta fagra, þrautseiga blóm.  

Menningarlíf landsmanna hefur verið í sókn undanfarin ár og á Eyrarrósin vafalaust þátt í þeirri grósku. Í hverju byggðu bóli landsins má njóta afraksturs sköpunargleði og hugvits Íslendinga. Þau verkefni sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar í ár endurspegla vel fjölbreytnina sem finna má í menningarlandslaginu. Safnasafnið – Alþýðulistasafn Íslands á Akureyri býður gestum í ferðalag um sögu alþýðulistar á Íslandi og kynnir þá jafnframt fyrir ferskum straumum nútímamyndlistar. Sjóræningjahúsið á Vatneyri við Patreksfjörð örvar ímyndunarafl gesta um leið og þeir fræðast um sjórán við strendur landsins. Tónlistarhátíðin Við Djúpið á Ísafirði  hlúir að tónlistarfólki framtíðarinnar og býður gestum upp á framsækna tónleikadagskrá í einstöku umhverfi.

Undanfarin ár hafa á þriðja tug verkefna verið tilnefnd til Eyrarrósarinnar, sem undirstrikar að blómlegt menningarlíf einskorðast síður en svo við höfuðborgarsvæðið. Verkefnin hafa skapað störf, styrkt samfélög og veitt innblástur. Ríkidæmi þjóðar er ekki síst mælt í menningarverðmætum hennar.

Þau verkefni sem tilnefnd eru til Eyrarrósarinnar í ár væru öll vel að verðlaununum komin. Öll bera þau öflugri menningarstarfsemi á landsbyggðinni fagurt vitni. Ég samgleðst þeim innilega með tilnefninguna, sem og væntanlegum handhafa Eyrarrósarinnar 2012. Hjartanlega til hamingju.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum