Hoppa yfir valmynd
7. maí 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Máltækni fyrir alla

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við opnun ráðstefnu um máltækni í Háskóla Íslands 27. apríl 2012.

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við opnun ráðstefnu um máltækni í Háskóla Íslands 27. apríl 2012.

Góðir ráðstefnugestir og allt áhugafólk um íslenskt mál og máltækni.

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa þessa ráðstefnu sem ber yfirskriftina Máltækni fyrir alla. Ég vil byrja að þakka sérstaklega þeim sem standa fyrir ráðstefnunni fyrir þeirra framlag, þ.e. Íslenskri málnefnd, máltæknisetri og aðstandendum META-NORD verkefnisins sem hefur m.a. að markmiði að kynna og efla máltækni á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum. Hér gefst gott tækifæri fyrir allt áhugafólk um íslenskt mál, málrækt, máltækni og upplýsingatækni til að fræðast og stilla saman strengi. Íslensk málnefnd leggur á þessu ári sérstaka áherslu á íslensku í tölvum enda mikilvægur málaflokkur.

Það var mikið gleðiefni þegar Íslendingar eignuðust opinbera málstefnu í fyrsta sinn hinn 12. mars 2009 en þá samþykkti Alþingi tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu. Samþykkt Alþingis markaði þannig tímamót í sögu tungunnar.

Í íslenskri málstefnu er megináhersla lögð á að treysta stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu. Aðalmarkmið stefnunnar er að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Íslenska er sameign okkar sem tölum hana og því er framtíð hennar í okkar höndum.

Nýir tímar færa okkur ný úrlausnarefni og málstefnuna verðum við þess vegna að endurskoða reglulega. Líklega verðum við ekki alltaf sammála um aðferðir og áherslur en mestu varðar að við séum sammála um að vinna öll að því aðalmarkmiði málstefnunnar að tryggja að íslenska verði áfram notuð um allt sem við hugsum og tökum okkur fyrir hendur alls staðar í íslensku samfélagi.  Þannig tryggjum við best framtíð íslenskrar tungu óháð tækninýjungum  og aðferðum til málnotkunar. Í málstefnunni er sett það meginmarkmið að   íslensk tunga verði nothæf  og notuð á öllum þeim sviðum innan tölvu og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf alls almennings.

Á undanförnum árum hefur tölvu- og upplýsingatæknin og  rafræn samskipti haldið innreið sína á æ fleiri svið og er nú mikilvægur  og sjálfsagður þáttur í daglegu lífi alls almennings í landinu  í öllum aldurshópum.  Einn kafli íslenskrar málstefnu snýr að íslensku í tölvuheiminum. Þar er lauslega rakið margháttað og mikilvægt starf  hér á landi í þágu  máltækni. Þar er dregin upp dökk mynd um horfur á þessu sviði  miðað við öra tækniþróun en takmarkaðar aðgerðir samhliða í íslenskri máltækni. Þar er bent á þá staðreynd að tungumál tækninnar sé enska og verði það einnig á hér á landi nema gripið sé til  viðeigandi aðgerða. Í málstefnunni eru sett fram ýmis markmið á þessu sviði, bæði sem lúta að skólakerfinu og einnig að þróun máltækni almennt.

Ráðuneytið hefur fylgt eftir málstefnunni á undanförnum árum með ýmsum hætti. Í því skyni hefur sérstakur samráðshópur ráðuneytisins og Íslenskrar málnefndar unnið að því að fylgja einstökum tillögum eftir, þar með talið tillögum um íslensku í tölvuheiminum. Skipaður var sérstakur vinnuhópur sem hefur það hlutverk að fylgja eftir stefnu um notendaviðmót á íslensku í skólum á öllum skólastigum og hins vegar að gera áætlun um aðrar aðgerðir sem tilgreindar eru í málstefnunni um íslensku í tölvuheiminum, þar með talið á sviði máltækni.

Ráðuneytið hefur með beinum hætti hvatt skóla á öllum skólastigum til að taka upp stýrikerfi á íslensku í tölvum sínum, en þrátt fyrir að íslensku þýðingarnar hafi fengist án endurgjalds fyrir eigendur kerfanna þá hafa þær ekki fengið þá útbreiðslu sem vænta mætti. Þar skiptir hugarfar einnig miklu máli og má í því sambandi benda á að Reykjavíkurborg hefur nú tekið upp íslenskt notendaviðmót í öllum tölvum í grunnskólum Reykjavíkur og á síðasta ári veitti Íslensk málnefnd Reykjavíkurborg viðurkenningu fyrir störf í þágu íslenskrar tungu. Tungumálið í notendaviðmótinu hefur ótvíræð áhrif á málnotkun notendanna og því skiptir það miklu að tölvur í íslenskum skólum séu með íslensku notendaviðmóti. Nú síðast hafa spjaldtölvur reynst vinsæl kennslutæki í skólastofum grunnskólabarna og eru kjörin til að auka fjölbreytni í kennslu, en þar skortir  því miður á að stýrikerfi og viðmót sé á íslensku.

Að beiðni nefndar um íslensku í tölvuheiminum gerði ráðuneytið könnun meðal allra grunnskóla á landinu um tölvur og íslenskt mál. Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um tölvuumhverfi og íslenskt mál svo fylgja mætti eftir þeim áherslum sem settar eru fram í íslenskri málstefnu. Spurningarnar í könnuninni eru því samdar með hliðsjón af markmiðum íslenskrar málstefnu og í samvinnu við nefnd um íslensku í tölvuheiminum. Spurningalisti var sendur öllum grunnskólum landsins, sem þá voru 170. Spurt var hvort það væri opinber stefna skólans að viðmót á tölvum sem nemendur nota væri á íslensku. Skólastjórar 100 skóla sögðu það vera stefnu síns skóla en 70 svöruðu neitandi. Þeir sem svöruðu neitandi voru beðnir að gera grein fyrir því hvers vegna það væri ekki opinber stefna skólans og voru settar fram mismunandi ástæður fyrir því svo sem tæknilegar ástæður. Þá var spurt hvort notendahugbúnaður væri valinn með tilliti til þess að hann sé fáanlegur með íslensku viðmóti. Skólastjórar 96 skóla sögðu það vera gert en 74 sögðu það ekki vera gert.

Ég tel að það komi nokkuð á óvart hversu hátt hlutfall grunnskóla er með íslenskt viðmót í tölvum miðað við það hvernig umræðan hefur verið um þessi mál. Ýmsar aðrar athyglisverðar niðurstöður má lesa út úr þessari könnun sem verður send öllum grunnskólum og birt á vef ráðuneytisins. Einnig er lagt til að nefnd um íslensku í tölvuheiminum verði falið að koma með tillögur að aðgerðum á grundvelli niðurstaðnanna.

Því er ekki að leyna að það er áhyggjuefni hversu illa íslenska stendur hvað varðar hugbúnað og gagnasöfn í evrópskum samanburði sem kynnt verður á þessari ráðstefnu. Í því sambandi er bent á að eigi íslenska að vera lífvænleg þjóðtunga í þróuðum heimi verði hún að geta staðið undir kröfum
upplýsingatækninnar. Efling íslenskrar máltækni verði því að vera
grunnþáttur í framkvæmd íslenskrar málstefnu. Ég er innilega sammála þessum fullyrðingum, en það lítur út fyrir að staða þessara mála fari að miklu leyti eftir stærð tungumálanna, þ.e. þeim fjölda sem tala viðkomandi tungumál. Við megum þó ekki láta deigan síga og gefast upp. Við höfum alla burði til að vinna af krafti að máltækniverkefnum á komandi árum. Ég get ekki lofað miklum opinberum framlögum til máltækniverkefna sérstaklega á næstunni í ljósi þröngrar stöðu ríkissjóðs, en ég vonast til að hægt sé að styðja einstök máltækniverkefni í gegnum núverandi sjóðakerfi ríkisins  og mögulega með sérstökum fjárframlögum af fjárlögum. Í þeim efnum óska ég eftir tillögum frá Íslenskri málnefnd og máltæknisetri.

Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að hvetja ykkur til dáða og um leið þakka öllum þeim sem lagt hafa máltækni lið á einhvern hátt og nýtingu íslensku í tölvuheiminum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum