Hoppa yfir valmynd
4. júní 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

 Samstarf barnaverndar og skóla

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á ráðstefnu um mikilvægi samstarfs barnaverndar og skóla

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á ráðstefnu um mikilvægi samstarfs barnaverndar og skóla, 29. maí 2012 á Grand Hótel Reykjavík.

 

Ágætu ráðstefnugestir

Ég vil byrja á því að þakka Barnaverndarstofu fyrir frumkvæðið að þessari áhugaverðu ráðstefnu um mikilvægi samstarfs barnaverndar og skóla. Ég veit ekki til þess að sambærileg ráðstefna hafi verið haldin hér á landi, a.m.k. ekki í jafn víðtæku samstarfi og raun ber vitni. Það er tímanna tákn að aðilar á borð við Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólastjórafélag Íslands, samtök félagsmálastjóra og Reykjavíkurborg, bæði skóla- og frístundasvið og velferðarsvið skuli standa sameiginlega að ráðstefnunni með Barnaverndarstofu. Einnig er mér kunnugt um óformlegt samstarf við mennta- og menningar-málaráðuneytið við undirbúninginn og ráðuneytið hefur ákveðið að styrkja netútsendingu á ráðstefnunni til þess að fleiri en viðstaddir fái tækifæri til að kynna sér efni hennar. Hér er fjallað um tækifæri og áskoranir í daglegu starfi barnaverndar og skóla til að treysta samstarfið um velferð barna og er afar áhugavert að heyra frá ýmsum athyglisverðum verkefnum. Einnig er mikill fengur að fá tvo erlenda fyrirlesara frá Norðurlöndum sem fjalla sérstaklega um nám fósturbarna og skólagöngu barna á meðferðarheimilum, svið sem mikið hafa verið í deiglunni hér á landi á undanförnum árum.

Frá því ég tók við starfi mennta- og menningarmálaráðherra árið 2009 hefur markvisst verið unnið að innleiðingu nýrrar menntastefnu í samstarfi við aðila skólasamfélagsins þótt efnahagshrunið hafi vissulega sett strik í reikninginn um ýtrustu áform þar að lútandi. Ný lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla voru samþykkt árið 2008 en vinna við aðalnámskrá fyrir þessi skólastig í kjölfar laganna kom í minn hlut og einnig setning fjölmargra reglugerða við lögin. Aðalnámskrá er rammi um skólastarfið á þessum skólastigum og leiðsögn um tilgang þess og markmið. Hún birtir heildarsýn um menntun og útfærir nánar þá menntastefnu sem felst í lögunum. Ég tók þá ákvörðun að hugað yrði sérstaklega að hlutverki skólakerfisins í þeirri uppbyggingu og endurmótun samfélagsins sem nú á sér stað í kjölfar efnahagshrunsins Sú áhersla kom því inn í vinnu við aðalnámskrár þar sem einstaklings- og samfélagsmiðuð gildi almennrar menntunar á skóla­stigunum þremur eru skilgreind sem sex grunnþættir menntunar. Grunnþættirnir eru læsi, sjálfbærni, lýðræði, jafnrétti, sköpun og heilbrigði og velferð.  Varðandi heilbrigði og velferð sérstaklega vil ég benda á að allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla. Veita þarf fræðslu um hreyfingu, efla hreyfifærni og skapa öruggt umhverfi sem hvetur alla til hreyfingar. Í þessu sambandi er rétt að nefna að í grunnskólalögum er beinlínis tekið fram að nemendur eigi að geta notið bernsku sinnar í skólastarfi, og einnig notið öryggis að öðru leyti.

Á þessum vettvangi ætla ég ekki að fjalla sérstaklega um innleiðingu menntalaganna og nýrra aðalnámskrá en vil þó taka fram að gildistöku menntalaganna hefur verið fylgt eftir með fjölbreyttu þróunarstarfi á öllum skólastigum. Einnig munu allir leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar þurfa að endurskoða skólanámskrár sínar með hliðsjón af áherslum í nýjum aðalnámskrám sem tóku gildi 2011og unnið hefur verið að ýmsum verkefnum við að styðja innleiðinguna.

Allt frá því að heildarendurskoðun menntalaganna hófst 2006 hefur verið haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila skólasamfélagsins og í vaxandi mæli hafa ráðuneytin unnið saman að stefnumótum eða aðgerðaáætlunum ýmis konar. Þar mál t.d. nefna aðgerðaáætlun í málefnum barna sem hrint var í framkvæmd 2007 með framlagi úr ríkissjóði, en við framkvæmdina hafa unnið saman fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Mér er kunnugt um að þessari framkvæmdaáætlun er formlega lokið, en ég hef fylgst með hugmyndum um að framhald verði á samstarfi á þessu sviði. Ég tel afar mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram að stuðla að samhentum aðgerðum til að bæta stöðu barna, en ein af tillögum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda í kjölfar fyrirtöku barnasáttmálans á síðastliðnu ári lýtur einmitt að mikilvægi slíkrar áætlunar. Þar ætti að mínu mati m.a. að leggja áherslu á samstarf barnaverndar og skóla um menntun og velferð barna og eflaust koma hér í dag ýmsar gagnlegar hugmyndir sem gætu nýst á næstu árum í því skyni.

Einnig hefur víðtækt samstarf um Velferðarvaktina sem sett var á laggirnar í kjölfar efnahagshrunsins skipt miklu máli hvað varðar stefnumótun, aðgerðir og forgangsröðun verkefna í ljósi aðstæðna. Ég er líka sannfærð um að samstarf ólíkra aðila við þessar aðstæður hefur í sjálfu sér skilað miklum árangri í gagnkvæmum skilningi og virðingu. Starfandi hefur verið sérstakur barnahópur velferðarvaktarinnar sem hefur hist reglulega og borið saman bækur sínar, þ.e. fólk úr ýmsum áttum, bæði fulltrúar ríkis og sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka sem vinna að velferð barna.  Mér finnst þessi dæmi sýna að það er mikill vilji til samstarfs milli ólíkra aðila en eflaust mætti þróa samstarfið enn frekar með velferð barna að leiðarljósi. Ég lýsi mig reiðubúna til að vinna að þeim málum eftir því sem mennta- og menningarmálaráðuneytinu er framast unnt.

Ég tel að núverandi stefnumótun stjórnvalda sem birtist í menntalögunum, reglugerðum sem settar hafa verið við lögin og nú síðast aðalnámskrám ættu að geta varðað veginn til framtíðar um samstarf ólíkra kerfa, þar á meðal barnaverndar og skóla, þótt eflaust megi útfæra ýmis atriði betur og skýra ábyrgðarsvið aðila. Það eru t.d. skýr ákvæði í menntalögum um tilkynningarskyldu skóla til barnaverndar og einnig hafa aðilar komið sér saman um viðmið vegna tilkynningarskyldunnar. Með reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga sem sett var 2010 er ákveðið samræmingarhlutverk sett á sveitarfélög og skólastjóra hvað um sérfræðiþjónustuna. Jafnframt er nemendaverndaráð gert að skyldu í öllum grunnskólum en einungis hafði áður verið um heimildarákvæði að ræða en þar er sérstaklega vikið að samstarfi við barnavernd. Ef talin er þörf á að skerpa á tilteknum þáttum í samstarfi skóla og barnaverndar þá óska ég eftir ábendingum um slíkt.

Ég get ekki látið hjá líða að nota tækifærið og vekja athygli á nýrri og metnaðarfullri reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins sem sett var að höfðu  víðtæku samráði við hagsmunaaðila. Reglugerðinni er ætlað víðtækt hlutverk hvað varðar m.a. skólabrag, agamál, eineltismál, ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í þeim efnum. Markmið reglugerðarinnar er m.a. að nemendur geti notið bernsku sinnar í skólastarfi, notið hæfileika sinna og séu öryggir í öllu starfi á vegum skólans og að allir í skólasamfélaginu kappkosti í sameiningu að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag þar sem öryggi, vellíðan, heilbrigði og jákvæð samskipti eru höfð að leiðarljósi.  Einnig er markmiðið að stuðla að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um nám nemenda, hegðun og samskipti. Reglugerðin hefur verið rækilega kynnt og henni hefur verið tekið fagnandi í skólasamfélaginu. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að stofnað hefur verið sérstakt þriggja manna fagráð á vegum ráðuneytisins í eineltismálum, en í fagráðinu eru sérfræðingar úr skólakerfinu og barnavernd. Miklar væntingar eru bundnar við starfsemi fagráðsins sem muni nýtast til að finna úrlausn á erfiðum eineltismálum í grunnskólum sem ekki hefur tekist að leysa í nærsamfélaginu. Með samhentum kröftum allra í skólasamfélaginu  ættu að skapast enn betri skilyrði til að útrýma einelti úr samfélaginu sem ekki á að fá að þrífast í skólum eða annars staðar í samfélaginu. Það er einnig ánægjulegt að greina frá því að á Alþingi liggja fyrir mikilvægar tillögur um breytingar á framhaldsskólalögum sem veita heimildir til sambærilegar reglugerðar um ábyrgð og skyldur. Ég vonast til þess að þær tillögur verði samþykktar í vor og í kjölfarið verður unnið að heildstæðri reglugerð fyrir framhaldsskóla.

Eins vil ég vekja athygli á samstarfi mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis og innanríkisráðuneytis  um vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og verkefnisstjórn með fulltrúm þessara ráðuneyta hefur tekið til starfa. Vitundarvakningin er hluti af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda í samræmi við sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri misneytingu gegn börnum. Ég nefni þetta sérstaklega þar sem hér er um að ræða enn eitt dæmið um samstarf milli ráðuneyta við úrlausn og aðgerðir í málum sem heyra undir mörg ráðuneyti. Einnig er starfandi  verkefnisstjórn á vegum nokkurra ráðuneyta til að vinna að aðgerðum gegn einelti í skólum og á vinnustöðum og ýmsir aðrir starfshópar. Þetta sýnir að það er vilji til að taka heildstætt á málum og miklu líklegra að það takist að leysa mál með þverfaglegu samstarfi en að vinna að málum hver í sinni vinnu.

Að lokum vil ég nefna afar mikilvæga vinnu sem staðið hefur í vetur við samningu reglugerðar um skólagöngu fósturbarna í grunnskólum, en sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu mun fara betur yfir þá vinnu síðar í dag. Málefni fósturbarna hafa verið til umræðu í mörg ár og það var ætlun löggjafans að tryggja rétt þeirra til skólagöngu með lögunum frá 2008. Um það virtist hafa náðst góð sátt  í samræmi við meginviðmið menntalaga um skóla um aðgreiningar, sem er í samræmi við þróun hér á landi og alþjóðasáttmála. Ekki tókst þó að leysa ágreining um ýmsa faglega og fjárhagslega þætti með setningu menntalaganna og síðan hefur verið unnið viðamikið starf á vegum ráðuneyta og Alþingis að finna viðunandi lausn, bæði með aðkomu menntamálanefndar og velferðarnefndar þingsins. Á síðasta þingi var niðurstaðan sú að setja nokkur viðbótarákvæði í grunnskólalög um skólagöngu fósturbarna og jafnframt fela mennta- og menningarmálaráðuneytinu að setja reglugerð og freista með því að ná sátt um faglega og fjárhagslega útfærslu í samræmi við rétt barna til menntunar í skóla án aðgreiningar. Síðastliðið haust var skipuð nefnd með fulltrúum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti, Barnaverndarstofu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg sem fékk það krefjandi verkefni að semja slíka reglugerð. Það er einlæg von mín að með þessu víðtæka samráði náist sátt um útfærslu á verklagi  við að tryggja rétt fósturbarna til skólagöngu sem allir aðilar geta við unað. Mér finnst þetta afar gott dæmi um það hvernig hægt er að vinna saman og vænti þess að áframhald verði á samstarfi milli skólakerfisins og barnaverndar við að leita lausna til að tryggja sem best velferð, öryggi og menntun allra nemenda, bæði við stefnumótun og framkvæmd skólastarfs.

Ég óska þess að þessi ráðstefna verði árangursrík og ánægjuleg fyrir alla sem hana sækja og að fram komi margar góðar hugmyndir sem gætu varðað veginn til framtíðar um samstarf skóla og barnaverndar.

Gangi ykkur vel.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum