Hoppa yfir valmynd
18. júní 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ávarp  mennta- og menningarmálaráðherra á Landsmóti UMFÍ 50+

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Landsmóti UMFÍ 50+,  í íþróttahúsinu Varmá í Mosfellsbæ, 8. júní 2012.


Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á Landsmóti UMFÍ 50+,  í íþróttahúsinu Varmá í Mosfellsbæ, 8. júní 2012.

Landsmót Ungmennafélags Íslands 50+ fer nú fram í annað sinn. Segja má að landsmótsflóra UMFÍ sé að verða mjög fjölbreytt með hinum hefðbundnu landsmótum, unglingalandsmótum og nú landsmóti fyrir þátttakendur 50 ára og eldri. Á öllum þessum mótum er þátttakendur kappsamir og á þeim öllum svífur hinn  víðfrægi ungmennafélagsandi yfir vötnum.

Íþróttaiðkun almennings er einn af lykilþáttum sem geta haft áhrif á lífsstíl fólks í átt til heilbrigðara lífernis. Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf nýverið út stefnu í íþróttamálum þar sem eitt af markmiðum stefnunnar er að efla almenningsíþróttir og hvetja til þess að landsmenn taki aukinn þátt í íþróttum og almennri hreyfingu. Þetta verkefni vinnur ráðuneytið ekki eitt heldur í samvinnu við ýmsa aðila í samfélaginu.

UMFÍ  hefur ávallt staðið vörð um íþróttaiðkun almennings og lagt grunn að íþróttamenningu landsins með mótum sínum og eflingu íþróttaiðkunar og ber að UMFÍ fyrir það framlag. Einnig vil ég þakka mótshöldurunum,  Ungmennafélagi Kjalarnesþings, fyrir að halda mótið að þessu sinni en mótið er haldið í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld hér í Mosfellsbæ.  Mannvirki og íþróttaaðstaðan hér eru öll hin glæsilegustu og hefur verið vandað til allrar umgjarðar um mótið. Mótshald af þessu tagi er mikilvægt  innlegg í þróun almenningsíþrótta í landinu. Það byggir á þeirri hugmyndafræði almenningsíþrótta að allir geti tekið þátt. Í þessum viðburði endurspeglast einnig mikilvægi hreyfingar allt lífið og ekki síður félagslegt og menningarlegt gildi íþrótta.  Hægt er að taka þátt sér til ánægju og heilsubótar en einnig er hægt að fá útrás fyrir keppnisandann. Ég þykist vita þessi blanda verði einkar ánægjuleg hjá þátttakendum á þessu móti. 

Dagskráin endurspeglar flesta þætti og þau gildi sem íþróttir standa fyrir og ættu flestir að finna sér eitthvað við hæfi. Að venju er stutt í gleðina og keppendur og áhorfendur eiga góða helgi í vændum. Þetta landsmót er mikilvægur vettvangur fyrir þennan aldurshóp til þess að koma saman og keppa og ekki síst til þess að leggja grunn að heilsueflandi lífsstíl.

Ég óska UMFÍ, UMSK og bæjaryfirvöldum hér í Mosfellsbæ til hamingju með þennan viðburð. Einnig óska ég keppendum velfarnaðar og góðs gengis á mótinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum