Hoppa yfir valmynd
18. júní 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra þegar fyrsta skóflustungan var tekin að nýbyggingu fyrir Framhaldsskólann í Mosfellsbæ

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, þegar fyrsta skóflustungan var tekin að nýbyggingu fyrir Framhaldsskólann í Mosfellsbæ, 15. Júní 2012.


Skólmeistari, starfsfólk og nemendur Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, bæjarstjóri, Mosfellingar og góðir gestir!

Á þessum bjarta sumardegi verður staðfestur nýr áfangi í sögu Framhaldsskólans í Mosfellsbæ. Fyrsta skóflustunga að nýju og glæsilegu skólahúsi markar nýtt upphaf með táknrænum hætti.

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ er ungur skóli. Hann var stofnaður í febrúar 2008 með samningi ráðuneytis og Mosfellsbæjar, en stofnun skólans hafði verið sérstakt keppikefli bæjaryfirvalda hér. Kennsla hófst svo um haustið 2009 og fékk skólinn inni til bráðarbirgða í Brúarlandi, hinu gamla og virðulega skólahúsi Mosfellinga. Þar starfar hann enn við þröngan kost en í haust stefnir í að nemendur skólans verði um 260.

Strax í upphafi markaði Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari, skólanum ákveðna sérstöðu, sem hún hefur unnið að með ötulu samstarfsfólki sínu. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ hefur verið brautryðjandi í þróun og skipulagningu námsframboðs í anda nýrra laga um framhaldskóla og þeirra áherslna sem markaðar eru í nýjum aðalnámskrám.

Í FMOS er í boði metnaðarfullt nám við hæfi hvers og eins. Nemendur eru virkir þátttakendur í skólastarfinu, öðlast sjálfstæði og bera ábyrgð á námi sínu með góðum stuðningi kennara og námsráðgjafa. Í skólanum hafa verið teknar upp fjölbreyttar verkefnamiðaðar kennsluaðferðir og námsmat miðast við hugmyndir um leiðsagnarmat.

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ kennir sig við auðlindir og umhverfi í víðum skilningi og eru þær áherslur samfléttaðar skólastarfinu öllu. Þar er átt jafnt við auðlindir í náttúrunni sem og mannauð með áherslu á lýðheilsu og menningu. Þannig verður umhverfi skólans að lifandi þætti í skólastarfinu, með áherslu á náttúru nágrennisins, virðingu fyrir umhverfinu og hvernig þess má njóta og nýta á skynsamlegan hátt. Í skólanum er nú unnið að því að stofna námbraut í hestamennsku sem fellur vel að þessum áherslum.

Af framansögðu má ljóst vera að nýtt og glæsilegt húsnæði sem hannað er með hliðsjón af innra starfi skólans á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.

Samkeppni fór fram um hönnun hins nýja húss og var markmið hennar að skapa einstaka, vandaða og fagra byggingu sem fellur að hinu fjölbreytta bæjarlífi í Mosfellsbæ og styrkir það um leið. Verðlaunatillagan tengir skólann umhverfi sínu, landslaginu og bænum í lögun sinni og efnisvali.

Framhaldsskólar eru lykilstofnanir í hverju byggðarlagi. Stuðningur og tiltrú heimamann er besta veganesti sem hver skóli getur fengið. Íbúar í Mosfellsbæ mega vera stoltir af framhaldskólanum sínum. Með nýrri og glæsilegri byggingu í hjarta bæjarins fær hann nýjan öndvegissess í bæjarlífinu.

Um leið og ég þakka öllum sem unnið hafa að undirbúningi þeirra framkvæmda sem nú hefjast óska ég starfsmönnum Framhaldsskólans í Mosfellsbæ, nemendum hans, bæjarbúum öllum og velunnurum til hamingju með áfangann.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum