Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

„Menn og hestar á hásumardegi“

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við setningu Landsmóts hestamanna

Katrin-Jakobs-LM2012
Katrin-Jakobs-LM2012

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við setningu Landsmóts hestamanna í Reykjavík, 28. júní 2012.

Dear foreign guests from all around – welcome to Landsmót in Reykjavík

Kære nordiske venner – velkommen til Landsmót i Reykjavík

Ágætu  gestir – velkomin á Landsmót íslenskra hestamanna í Reykjavík

Ykkur heilsa ég á þessari ánægjulegu stund með því að vitna í bókmenntaarfinn okkar áður en lengra er haldið, í aðeins eitt af mörgum dæmum þar sem íslenski hesturinn kemur fyrir, en hann er fyrir löngu orðinn hluti af þeim arfi:

Í morgunljómann er lagt af stað.

Allt logar af dýrð, svo vítt sem er séð.

Sléttan, hún opnast sem óskrifað blað,

þar akur ei blettar, þar skyggir ei tréð.

- Menn og hestar á hásumardegi

í hóp á þráðbeinum, skínandi vegi

með nesti við bogann og bikar með.

Betra á dauðlegi heimurinn eigi.

Fáir hafa náð með orðsnilld sinni og íslenskri tungu að fanga eftirvæntingu yfir nýju ferðalagi og nýjum ævintýrum jafn vel Einar Benediktsson skáld gerir í þessum upphafs ljóðlínum ljóðsins Fákar. Við þessa tilfinningu sem þarna er lýst, eftirvæntinguna sem hríslast oft um mann í upphafi nýrrar ferðar, kannast íslenskir hestamenn mæta vel við. Í ljóðinu kemur einnig fram greinileg tilfinning fyrir þeim böndum sem maður og hestur bindast þegar best lætur. Þeir renna nánast saman, verða eitt úti í náttúrunni. Ferðalagið getur hafist fyrir alvöru.

Landsmót íslenskra hestamanna er fyrir löngu orðið að eins konar stofnun í viðburðadagatali landsmanna, enda í tuttugasta sinn sem blásið er til mótsins nú. Mótið er í senn uppskeruhátíð, frændafundur, kaupstefna, létt skemmtun og vitanlega dauðans alvara, þegar kemur að því að bera sig saman við náungann og keppa til úrslita. Svo er mótið líka mikið fyrir augað, því íslenski hesturinn er vitanlega mikið náttúrunnar listaverk eins og þið vitið, ekki síst þegar glæstur knapi situr hestinn.

En Landsmótin verða til með átaki. Heimamenn sem að mótinu standa í hvert sinn leggja mikla vinnu í undirbúninginn og sýna á sér sínar bestu hliðar. Undirbúningur fyrir svo stóran viðburð stendur mánuðum saman og rétt er að þakka öllum þeim sem leggja hönd á plóg í þetta skiptið. Huga þarf að ýmsu varðandi aðstöðuna, byggja, breyta og bæta. Ekki er síður mikilvægt að skapa réttu stemninguna og þar sannast að fáir eru betur til þess fallnir en hestamenn að kvitta upp á það fornkveðna að maður er manns gaman. Mótið fer vitanlega fram nokkurn veginn á bjartasta tíma ársins. Það er einhver dularfull orka í loftinu, söngur og gleði. Dagur og nótt renna ljúflega saman og allt getur gerst. Þetta vita þeir vel sem lagt hafa komur sínar á landsmótin í gegnum tíðina.

Á undanförnum áratugum hefur hestamennska á Íslandi tekið á sig sífellt fjölbreyttari myndir. Sem íþróttagrein er hestamennskan á uppleið, hún er meðal fjölmennustu íþróttagreina innan Íþróttasambands Íslands, en þeim hefur líka fjölgað sem hafa atvinnu af hestum og hestamennsku á einn eða annan hátt.

Loks má aldrei líta fram hjá því að íþróttaþátttaka eflir manninn á ýmsan hátt. Íþróttir þroska og bæta okkur þegar best lætur og þar er hestamennskan ágætt dæmi. Auk þess að efla hreysti og líkamlegt og andlegt atgervi, kynnast margir landinu sínu í gegnum hestamennsku og rækta með sér virðingu fyrir því. Þennan þátt hestamennskunnar skulum við ekki vanmeta og mikilvægt er að hestamenn séu í fararbroddi þegar að þessu kemur. Ísland er ríkt land á svo margan hátt, en gullum má auðveldlega glata eins og menn vita.   

Í þetta sinn er það höfuðborgin sem tekur á móti hestamönnum sem á landsmót koma. Víðidalurinn er umgjörðin glæsilega sem félagsmenn í Fáki bjóða upp á í samstarfi við fjölmarga aðila sem allir eiga þakkir skyldar. Mótsvæðið og öll skipulagning ber stórhug vitni og öll aðstaða er eins og best verður á kosið.

Ekkert er því að vanbúnaði.  Keppendum, skipuleggjendum og gestum óska ég góðrar skemmtunar og góðs gengis.

Landsmót íslenskra hestamanna er hér með sett.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum