Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tækifæri hugans

Grein eftir Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir

Mannauður lykill að framtíðinni

Eitt helsta verkefni stjórnvalda að búa Ísland undir áskoranir og tækifæri 21. aldarinnar. Þar munu aukinn jöfnuður og bætt aðgengi að góðri og fjölbreyttri menntun leika lykilhlutverk. Ísland verður aldrei stórveldi en það er ríkt af auðlindum og gott aðgengi að menntun er auðlind sem getur veitt Íslendingum forskot á aðrar þjóðir. Mannauðurinn er lykill að framtíðinni ekki síður en auðlindir hafs og lands og hann verður hámarkaður með því að sem flestir hafi tækifæri á að mennta sig. Í hnattvæddum heimi á tímum hraðrar tækniþróunar veit enginn hvar næsta yfirburðahugmynd verður til. Sprotar geta vaxið og blómgast á ólíklegustu stöðum.

Efnahags- og atvinnumál þjóðarinnar verða að grundvallast á aukinni menntun og ekki síst á möguleikum til nýsköpunar á háskólastigi og í vísindasamfélaginu. Þar verða að haldast í hendur aukin framlög til opinna og faglegra samkeppnissjóða og markvissari stuðningur við háskóla svo að þeim verði gert kleift að sinna hlutverki sínu sem aflstöðvar í framþróun samfélagsins. Efnahagshrunið hefur takmarkað möguleikana á að styðja nógu myndarlega við þessar stofnanir en aðeins til skamms tíma. Nú eru sóknarfæri á ný og sóknin er þegar hafin. Það finna þessar stofnanir á fjárlögum þessa árs þó að við gerum enn betur á næsta ári, þegar efnahagurinn hefur rétt enn frekar úr kútnum.

Aukinn stuðningur til samkeppnissjóða og tækniþróunar

Fyrir fámenna þjóð er lífsnauðsyn að leiða fram nýjar hugmyndir sem nýst geta í atvinnulífinu. Öll áherslan þarf að vera á að auka verðmæti þeirra auðæva sem við búum að í umhverfinu eða sköpum úr nánast engu nema hugviti. Til þess að styðja við góðar hugmyndir hafa framlög til samkeppnissjóða og tækniþróunar verið hækkuð um 1,3 milljarða í fjárlögum fyrir árið 2013. Þessi fjárfesting mun skila sér í nýrri þekkingu og hjálpa til við að gera Ísland að fjölbreyttara og betra samfélagi. Ekki þarf að efa að hugmyndir eru nægar í vísindasamfélaginu til að nýta þessi auknu framlög, sem aftur munu styrkjar stoðir atvinnulífsins og nýtast til að leiða fram nýjar lausnir.

Stjórnvöld eiga fyrst og fremst að leggja áherslu á almenna eflingu vísindasamfélagsins og að fjármunum sé dreift samkvæmt almennum reglum þar sem þeir nýtast best. Sjálfstæði vísindanna skiptir þar miklu máli, þau eiga að þjóna samfélaginu en út frá eigin forsendum en ekki samkvæmt pöntunarlistum misviturra stjórnmálamanna og hagsmunaaðila.

Ég trúi því að í hverjum einasta Íslendingi búi auður. Menntakerfið og vísindin eru meðal öflugasta tækja sem við eigum til að virkja þann auð bæði fyrir hagkerfið og samfélagið allt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum