Hoppa yfir valmynd
15. september 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ávarp ráðherra, Katrínar Jakobsdóttur - Þingsályktun um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis

Ég ætla að fara hér yfir stöðu mála hvað varðar eftirfylgni þingsályktunartillögu þeirrar sem var samþykkt þann 16. júní síðastliðinn

9. september 2010, Háskólinn á Akureyri

Ágætu málþingsgestir,

ég ætla að fara hér yfir stöðu mála hvað varðar eftirfylgni þingsályktunartillögu þeirrar sem var samþykkt þann 16. júní síðastliðinn en hún snýst um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Ég reikna með að hugmyndafræði þeirrar ályktunar verði reifuð hér á eftir en ég mun hér fyrst og fremst ræða þau atriði sem snúast að úrvinnslu tillögunnar en Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.

Jafnframt fól Alþingi mennta- og menningarráðuneytinu að fylgja verkefninu eftir og upplýsa þingið á þriggja mánaða fresti um framgang þess og það kemur því í hlut mennta- og menningarráðuneytisins að láta gera úttekt á lagaumhverfinu svo að hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa þær lagabreytingar sem talið er þörf á að gera. Er ráðuneytinu ætlað að líta meðal annars til löggjafar annarra ríkja í þessu sambandi.

Samkvæmt þingsályktuninni á einnig að kanna möguleika á að koma á fót íslenskum tjáningarfrelsisverðlaunum og að halda alþjóðlega ráðstefnu á Íslandi um breytingar á lagasetningu og netnotendaumhverfi með tilkomu gagnavera og hvaða réttarreglur gilda um netið.

Að lokum á að gera úttekt á viðbúnaði ríkisins, einkum á sviði öryggismála, vegna starfrækslu alþjóðlegra gagnavera hér á landi en í ljósi þess að þingsályktunin tekur til alþjóðlegra fjölmiðla væri ákjósanlegt að jafnframt yrði tekið tillit til þess í slíkri úttekt.

Hafinn er undirbúningur að verkefninu þar sem Lagastofnun Háskóla Íslands verður falið að gera úttektina á lagaumhverfinu. Þá hefur mennta- og menningarráðuneytið verið í sambandi við önnur ráðuneyti og stofnanir til að undirbúa næstu skref í úttekt á viðbúnaði ríkisins.

Ljóst er að verkefnið er afar umfangsmikið þar sem það nær til fjölda ráðuneyta og stofnana þeirra. Þá er einnig ljóst að  það verður afar kostnaðarsamt auk þess sem meta þarf hver kostnaður íslenska ríkisins gæti orðið við framkvæmd og eftirlit með breyttum réttindum fjölmiðla. Samkvæmt greinargerð með þingsályktuninni er nauðsynlegt að skoða á annan tug laga með hugsanlegar breytingar í huga.

Í greinargerðinni er meðal annars fjallað um nokkur þeirra mikilvægu réttinda sem fjölmiðlar þurfa að hafa í lýðræðisríkjum til að getað sinnt aðhaldshlutverki sínu og miðla upplýsingum, sem erindi eiga til almennings, með hlutlægum hætti ásamt því að vera vettvangur skoðanaskipta. Hluti þessara tillagna eru þess eðlis að þær hafa ekki áhrif á alþjóðasamninga eða EES-löggjöfina.

Dæmi um slíkt er vernd heimildarmanna en verndun trúnaðar á milli fjölmiðlafólks og heimildarmanna er eitt af grundvallarskilyrðum þess að fjölmiðlar geti lagt sitt af mörkum til lýðræðisþjóðfélagsins og einn af hornsteinum tjáningarfrelsis þeirra. Það liggur því í hlutarins eðli að til þess að tryggja að fjölmiðlar njóti þessa er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að fjölmiðlafólk geti heitið heimildarmönnum sínum nafnleynd og staðið vörð um það loforð. Nú er kveðið á um vernd heimildarmanna í réttarfarslöggjöfinni og er jafnframt að finna nýtt ákvæði þess efnis í fjölmiðlafrumvarpi því sem er til umfjöllunar á Alþingi. Í þingsályktuninni er lagt til að gert verði enn betur en nú er til að tryggja þessi réttindi.

Í öðru lagi má nefna tillögu um að óheimilt sé að leggja lögbann á útgáfu fyrirfram. Hér er um að ræða allskyns lagalegar aðgerðir til að hindra miðlun efnisins áður en til miðlunarinnar kemur. Alþekkt er að slíkar hindranir geta haft skaðleg áhrif á tjáningarfrelsi og í nágrannalöndum okkar er að finna ýmsar hindranir á slíku lögbanni eða algjöru banni við slíku.

Í þriðja lagi má svo nefna að gerð er tillaga um að vernd afhjúpenda (e. whistleblowers), en fyrirmynd að slíkri löggjöf er að finna í ýmsum nágrannaríkjum okkar. Með slíkri vernd er reynt að vernda réttarstöðu afhjúpenda, hvort heldur hjá hinu opinbera eða í einkageiranum þegar þeir koma fram með upplýsingar sem eiga erindi til alls almennings.

Ýmis önnur ákvæði þingsályktunarinnar taka svo til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands. Má í þessu sambandi nefna verndarákvæðið gegn meiðyrðamálaflakki. Þekkt er að hagsmunaaðilar víða í heiminum hafa notað breska meiðyrðalöggjöf til að fara í mál, jafnvel þó að miðlunin og efnið tengist ekki Bretlandi. Þar sem skaðabætur samkvæmt breskum lögum geta verið afar háar á íslenskan mælikvarða getur verið erfitt fyrir fjölmiðil að verjast í slíkum málum fyrir breskum dómsstólum. Í þessu sambandi ber að hafa í huga að Ísland er aðili að Lúganó-samningnum um fullnustu dóma í einkamálum í Evrópu. Það er því áskorun fyrir íslensk stjórnvöld ef leita á leiða til að koma í veg fyrir fullnustu dóma í breskum meiðyrðamálum hér á landi.

Annað dæmi sem vert er að nefna í þessu sambandi er tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2006 þar sem kveðið er á um að varðveita beri  fjarskiptagögn frá sex mánuðum og í allt að tvö ár í þágu rannsóknar sakamála og í þágu almannaöryggis. Tilskipunin hefur verið gagnrýnd af mörgum hagsmunahópum í Evrópu fyrir þær sakir að erfitt er að vernda til dæmis samskipti lögmanns við skjólstæðing sinn eða samskipti blaðamanna og heimildamanna þeirra. Enn sem komið er hafa breytingar ekki verið gerðar til að koma til móts við þessa gagnrýni. Það er erfitt að sjá hvernig ættti að vera hægt að komast hjá þessari tilskipun og því enn eitt úrlausnarefnið í þessu samhengi. (Slík EES-löggjöf gæti því einnig orðið áskorun fyrir íslensk stjórnvöld.)

En frelsi og réttindum fylgir einnig mikil ábyrgð. Því ber að nefna að ekki er að finna tillögur að því í þingsályktuninni hvernig framfylgja eigi ábyrgðarreglum alþjóðlegra fjölmiðla hér á landi. Samkvæmt núgildandi útvarpslögum og prentlögum eru slíkar reglur ekki samræmdar. Núgildandi lög kveða á um að blaðamenn, sem birta orðrétta tilvitnun á prenti, eru ábyrgir fyrir efninu. Í nýju fjölmiðlafrumvarpi, sem er til umræðu á Alþingi, er lagt til að þessar reglur verði samræmdar. Þar er jafnframt gert ráð fyrir því að endanleg ábyrgð á fjölmiðlum geti þeir einungis haft sem eru heimilisfastir á Íslandi á sama hátt og nú er gert í núgildandi prentlögum. Ástæða þess er að ábyrgðarreglur tengjast tjáningarfrelsi með beinum hætti, því þar er kveðið á um það hver skuli gerður ábyrgur þegar farið er út fyrir leyfileg mörk tjáningarfrelsisins. Skýrar ábyrgðarreglur eru eðli máls samkvæmt mikilvægar fyrir hvern þann sem tjáir sig í fjölmiðlum eða er ábyrgur fyrir því sem aðrir segja eða skrifa á þeim vettvangi. Þá eru ábyrgðarreglurnar ekki síður mikilvægar fyrir þá sem telja á sér brotið og vilja sækja rétt sinn. Til að dómsstólar geti framfylgt íslenskum lögum hefur því um áratuga skeið verið hafður sá háttur á að tryggt sé að þeir sem endanlega bera ábyrgð á fjölmiðlaefni hafi lögheimili hér á landi svo hægt sé að draga þá fyrir dóm, hafi þeir brotið á rétti annarra.

Segja má að framkvæmd ábyrgðarreglnanna verði því vandasamasta verkefnið við úttekt á lagaumhverfinu. Er ástæðan meðal annars sú að ekki eru nein dæmi í nágrannalöndum okkar um ábyrgðarreglur fjölmiðla þvert á landamæri, þrátt fyrir tilkomu Internetsins og nýrra miðla.

Góðir málþingsgestir. Ljóst er að þingsályktun sú sem samþykkt var á Alþingi getur bætt lagaumgjörð fjölmiðla hér á landi til mikilla muna. Í greinargerð er bent á hugsanlegar breytingar á ýmsum lögum sem myndu bæta starfsumhverfi blaða- og fréttamanna. Það verður verkefni mennta- og menningarráðuneytisins á næstu mánuðum að fara vandlega yfir tillögurnar og láta gera úttekt á þeim atriðum sem kveðið er á um í þingsályktuninni. Ljóst er að vanda verður til verks, enda þarf að skoða sérstaklega EES-löggjöfina og alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Þá verður jafnframt að vinna úttekt á viðbúnaði ríkisins vegna þeirra tillagna sem fram koma í tillögunni. Að lokum er vert að minnast á að framkvæmd ábyrgðarreglna fjölmiðla verður ef til vill stærsta áskorunin.

Það er áhugavert að þessi tillaga hefur fyrst og fremst verið til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum en við skynjum mikinn áhuga um allan hinn vestræna heim á þessu málefni. Verkefnið er stórt og við erum að rétt að hefja vinnuna en þingið mun fá að fylgjast með framvindu málsins á næstu misserum.

Bestu þakkir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum