Hoppa yfir valmynd
10. desember 2010 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ræða ráðherra við opnun íslenskrar heimasíðu um heimsminjar

Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til þess hér í dag að opna – ásamt umhverfisráðherra – nýja heimasíðu sem fjallar um heimsminjasamning UNESCO og aðild Íslands að honum.

9. desember 2010

Opnun íslenskrar heimasíðu um heimsminjar

Ágætu gestir

Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til þess hér í dag að opna – ásamt umhverfisráðherra – nýja heimasíðu sem fjallar um heimsminjasamning UNESCO og aðild Íslands að honum. Þegar Ísland staðfesti heimsminjasamninginn í desember 1995, fólst í því viss yfirlýsing um að Ísland legði áherslu á verndun menningar- og náttúruminja sinna og að landið væri tilbúið að leggja sitt að mörkum til að varðveita staði sem hafa einstaka þýðingu fyrir alla heimsbyggðina. Ísland á nú tvo staði á heimsminjaskránni, Þingvelli og Surtsey. Það var stór áfangi þegar fyrsti íslenski staðurinn var settur á heimsminjaskrána og fór vel á því að það skyldu vera Þingvellir sem voru skráðir inn árið 2004. Það fólst einnig mikil viðurkenning í því þegar Surtsey fór á skrána árið 2008 því í rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun lagði heimsminjanefnd UNESCO áhersla á vísindalega þýðingu eyjarinnar og hvernig staðið hefur verið að verndun hennar.

Það hefur lengi verið þörf á því að gefa Íslendingum kost á því að kynna sér málefni heimsminja frá íslensku sjónarhorni því bæði er að starf tengt heimsminjasmálum hefur mikla þýðingu fyrir Ísland - heima og á alþjóðavísu - og að stundum hefur borið á fákunnáttu á málinu hér á landi þegar heimsminjamál ber á góma. Er það von mín að þessi heimasíða geti bætt nokkuð hér um. Hún hefur verið í undirbúningi um skeið, t.d. höfum við tryggt okkur lénin „heimsminjar.is“ og „worldheritage.is“ í nokkur ár, en núverandi heimsminjanefnd Íslands hefur sett kraft í gerð heimasíðunnar sem nú er tilbúin til að birtast almenningi. Heimasíðan er á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins en Heimsminjanefnd Íslands ritstýrir heimasíðunni og ber ábyrgð á innihaldi hennar f.h. ráðuneytisins. Tæknilega umsjón síðunnar annast Fornleifavernd ríkisins.

Í nútíma þjóðfélagi er stöðugt lögð meiri áhersla á gagnsæi og upplýsingaflæði til borgaranna og það er von mín að þessi heimasíða geti stuðlað að aukinni þekkingu Íslendinga á heimsminjamálum og starfi okkar í tengslum við þau. Svona síða er aldrei fullkomin og hún mun verða í stöðugri þróun en mikilvægt er að viðhalda upplýsingum statt og stöðugt, því heimasíða sem er úrelt, gerir minna gagn en engin.

Að þessu mæltu vil ég gefa orðið til Svandísar en við berum í sameiningu ábyrgð á því að Ísland standi við skuldbindingar sínar varðandi heimsminjasamning UNESCO.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum