Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ræða ráðherra - Verðlaunahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, 5. febrúar 2011

5. febrúar 2011, Ráðhús Reykjavíkur

Ágætu tilheyrendur, nýsveinar sem og eldri sveinar og meistarar!
Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa þessa hátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, þegar veitt eru verðlaun þeim nýsveinum sem hafa þótt standa sig með mikilli prýði á nýafstöðnum sveinsprófum. Ég vil óska ykkur, sem hér takið móti verðlaunum, til hamingju með frammistöðuna og vona að þið haldið áfram að leggja metnað í verk ykkar í framtíðinni. Þið eruð heiðruð hér í dag fyrir að hafa vandað ykkur og það er nokkuð sem skiptir miklu í nútímasamfélagi. Að vanda til verka og gefa sér tíma.  Stundum gleymist þetta í öllum hraðanum og stressinu en eigi að síður skiptir þetta miklu máli.  
Iðnaðarmannafélagið stendur á gömlum merg, er meira en 140 ára gamalt og gegnir enn mikilvægu hlutverki í að efla verklegar menntir í landinu. Framan af 20. öld stóð félagið fyrir skólahaldi fyrir iðnaðarmenn, sem sýnir að iðnaðarmenn hafi ávallt sýnt að þeir leggja rækt við iðnmenntun og verklega kunnáttu. Án þess metnaðar sem þið sýnið væri erfitt að halda úti verkmenntakerfi sem skilaði tilætluðum árangri. Við sem störfum að starfsmenntamálum af hálfu hins opinbera viljum áfram eiga ykkur að og eiga gott samstarf um eflingu starfsnáms.
Mig langar til að nota þetta tækifæri til þess að árétta mikilvægi sveinsprófa sem atvinnulífsprófa. Með þeim má segja að ákveðnum hring sé lokað. Aðilar á vinnumarkaði veita mennta- og menningarmálaráðuneyti ráðgjöf og leiðbeiningar um þær kröfur sem nauðsynlegt er að gera til þeirra sem starfa á hinum ýmsu sviðum vinnumarkaðar. Ráðuneytið setur síðan námskrár þar sem þessar kröfur eru settar skipulega fram og skólar annast kennslu í samstarfi við fyrirtækin í landinu. Hvað löggiltar iðngreinar varðar er síðan lagt mat á árangurinn í sveinsprófum, þar kemur aftur að þætti aðila á vinnumarkaði, þar sem þeir ákveða inntak prófa og sjá um sveinsprófahald.
Okkur í mennta- og menningarmálaráðuneyti virðist þetta verklag skynsamlegt og við viljum halda í það í einu eða öðru formi, en efla og bæta eftir kostum. Sveinsprófin munu því áfram gegna mikilvægu hlutverki í starfsnámi á Íslandi, þótt einhverjum kunni að þykja heitið gamaldags. Þau standa enn fyrir sínu.
Mig langar þó til þess að færa í tal við ykkur áhyggjur sem við höfum haft í ráðuneytinu varðandi einn þátt, og sést að vissu leyti í sveinsprófum: það er jafnrétti kynjanna. Hér beini ég orðum mínum ekki síst til nýsveina, því að ykkar er framtíðin. Við viljum sjá fleiri konur í hefðbundnum karlagreinum, og fleiri karla í greinum sem hingað til hafa verið skilgreindar sem „kvennagreinar“. Ég beini því til ykkar að aðstoða okkur við að breyta núverandi skipan mála, þeirri stöðnun sem er og virðist, ef eitthvað er, jafnvel vera að færast í aukana. Ein leið til þess er að gera þær konur sem þó afla sér menntunar, t.d. í byggingagreinum eða rafiðngreinum, sýnilegri, þannig að þær geti orðið fyrirmyndir. Þetta getum við gert með því að fjölga skipunum þeirra í sveinsprófsnefndir. Einnig verður að hvetja konur til þess að gefa kost á sér til starfa, bæði í sveinsprófsnefndum og í starfsgreinaráðum. Þetta er ein leið til þess að efla jafnrétti í landinu, til að breyta samfélaginu og okkur sjálfum í leiðinni.
Ég bið ykkur um að ígrunda þetta mál með mér og saman skulum við leggjast á árar um að koma á breytingum í þessum efnum.

Ég óska ykkur öllum til hamingju með daginn og með hátíðina – og áframhaldandi velfarnaðar í ykkar mikilvægu störfum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum