Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Afhending Eyrarrósarinnar

Eyrarrósin – viðurkenning og verðlaun til menningarstarfsemi á landsbyggðinni, sem þykir hafa skarað fram úr, verður nú veitt í sjöunda sinn.

Eyrarrósin
Eyrarrosin

13. febrúar 2011, Bessastaðir

Forseti Íslands, forsetafrú Dorrit Moussaieff,

Góðir gestir

Eyrarrósin – viðurkenning og verðlaun til menningarstarfsemi á landsbyggðinni, sem þykir hafa skarað fram úr, verður nú veitt í sjöunda sinn. Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands, sem standa að Eyrarrósinni, eiga þakkir skildar fyrir að styðja við menningarstarfsemi á landsbyggðinni með þessum fallegu og rausnarlegu verðlaunum og á þann hátt vekja athygli landsmanna á framúrskarandi verkefnum og hvetja til fagmennsku í hvívetna.

Eyrarrósin – það er fallegt og táknrænt við að kenna viðurkenninguna og verðlaunin við þetta litríka blóm sem breiðir úr sér á malarkenndum áreyrum, einkum á hálendinu. Rauðbleik blómin varpa ljóma á annars oft eyðilegt en hrikalegt hálendið. Það geislar einhver kraftur og seigla af Eyrarrósarbreiðum.

Eyrarrósarbreiðurnar í Herðubreiðarlindum gleymast til dæmis vart þeim sem hafa barið þær augum eftir að hafa farið yfir úfið og grátt Ódáðahraunið.

Eins og þrautseig Eyrarrósin þurfa menningarverkefni, ekki síst á landsbyggðinni, oft að sýna ótrúlega seiglu og úthald til að lifa af og ná að dafna. En þau veita eins og Eyrarrósin gleði og ánægju þeim sem njóta.

Þau þrjú menningarverkefni sem eru tilnefnd að þessu sinni: Sumartónleikar í Skálholti, 700 IS Hreindýraland og Þórbergssetur eru lýsandi fulltrúar seiglunnar og úthaldsins.

Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, hafa tekið höndum saman í menningarsamningunum til að styðja við menningarlífið á landsbyggðinni. Ráðuneytið vinnur að því að endurnýja samningana við landshlutana. Þeir hafa skotið styrkari stoðum undir menningarlífið á landsbyggðinni, skapað störf og stuðlað að góðum tengslum við sveitarfélögin á landsvísu og á milli menningarfulltrúanna. Vona ég að sú gróska sem einkennt hefur menningarlífið að undanförnu styrkist og dafni og að menningarsamningar verði efldir til lengri tíma.

Þau verkefni sem tilnefnd eru hver á sínu sviði eru öll vel að Eyrarrósinni komin. Ég óska þeim öllum til hamingju með tilnefninguna, en bara eitt hlýtur hnossið.

Ég óska væntanlegum handhafa Eyrarrósarinnar í ár innilega til hamingju.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum