Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ávarp ráðherra á samráðsfundi ráðuneytisins og fræðsluaðila í framhaldsfræðslu

24. mars 2011, Grand hótel

Komið þið sæl

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin til þessa samráðsfundar mennta- og menningarmálaráðuneytisins með fræðsluaðilum í framhaldsfræðslu.

Til fundarins er boðað á grundvelli ákvæða 7. gr. laga um framhaldsfræðslu en þar segir að haft skuli reglulegt samráð við fræðsluaðila sem starfa á grundvelli laganna um framkvæmd framhaldsfræðslunnar.

Nú er það svo, eins og ykkur er öllum kunnugt, að lögin um framhaldsfræðslu sem öðluðust gildi 1. október sl. eru ekki að fullu komin til framkvæmda og erum við þess vegna í innleiðingarfasa þar sem við þurfum að þreifa okkur áfram um fyrirkomulag samstarfs og ræða sameiginlega hvernig við teljum best að koma hlutunum fyrir til frambúðar í samræmi við lögin.

Í haust átti ég þess kost að ávarpa ykkur, a.m.k. flest ykkar, bæði á ársfundi Kvasis í Hveragerði 13. október og á ráðstefnu ráðuneytisins um innleiðingu laga um framhaldsfræðslu á Hótel Sögu 17. nóvember sl. Við þau tækifæri fór ég almennt yfir mína sýn á menntapólitík í framhaldsfræðslunni og hvaða áherslur ég tel rétt að leggja í þeim efnum. Ég vil undirstrika að þær áherslur sem lúta að nýrri menntastefnu fela í sér fimm grunnþætti. Þeir eru læsi, lýðræði, jafnrétti, menntun til sjálfbærni og skapandi starf. Þeir tengjast allir innbyrðis og er ætlað að fléttast inn í allt fræðslu- og skólastarf með markvissum hætti. Grunnþættirnir snúast um skilning á samfélagi, umhverfi og náttúru á líðandi stund þannig að einstaklingar læri að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Grunnþættirnir snúast einnig um að ungir sem aldnir öðlist þekkingu, getu og vilja til að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt.

Í nýju lögunum leggjum við áherslu á að fræðslustarf hafi í senn hagræna en einnig menningarlega og samfélagslega skírskotun. Því var lögð á það þung áhersla að ný lög um framhaldsfræðslu næðu einnig til fólks sem stæði utan vinnumarkaðar og að sköpuð væru námstækifæri sem efldu einstaklinga sem gagnrýna og virka samfélagsþegna. Grunnþættirnir í nýrri menntastefnu eru eins konar leiðarljós í þeim efnum.

Í samstarfsyfirlýsingu mennta- og menningarmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og aðila vinnumarkaðarins sem var undirrituð 24. nóvember lýsa aðilar því m.a. yfir að með öflugri framhaldsfræðslu vilja þeir efla lýðræðislega þátttöku í samfélaginu og stuðla að jákvæðri byggðaþróun í landinu, stuðla að jafnrétti, auka félagslega aðlögun jaðarhópa m.a. fatlaðra og innflytjenda að atvinnulífi og samfélaginu, auka læsi fullorðinna, efla íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og auka starfstengda íslenskukennslu fyrir þá.

Ég tel mikilvægt að nú þegar við ætlum að fjalla um framkvæmd framhaldsfræðslulaganna drögum við út úr þessari yfirlýsingu mikilvæg mál og ræðum hvernig við getum unnið markvisst að því að hrinda þeim í framkvæmd. Mér er ofarlega í huga átak í læsi fullorðinna, bætt staða útlendinga á vinnumarkaði og í íslensku samfélagi í heild. Ég bið ykkur um góðar hugmyndir um þessi mál.

Nú að ýmsum atriðum.

Símenntunarmiðstöðvarnar hafa að undanförnu sýnt styrk sinn og mikinn sveigjanleika með þátttöku í úrræðum fyrir atvinnuleitendur. Þær hafa verið fljótar að bregðast við þörfum og aðlaga fjölbreytt námsúrræði fyrir atvinnuleitendur með skömmum fyrirvara. Þetta ber að þakka.

Þá vil ég nefna að ríkisstjórn Íslands og aðilar vinnumarkaðarins ætla að vinna sameiginlega að því markmiði að árið 2020 hafi hlutfall fólks á íslenskum vinnumarkaði sem ekki er með formlega framhaldsskólamenntun lækkað úr 30% í 10% og er það markmið sett fram í Sóknaráætlun 2020.

Við í mennta- og menningarmálaráðuneytinu höfum í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins unnið að tillögum þar sem m.a. segir að á næstu þremur árum verði ráðist í sérstakt átak þar sem aðgengi að námi verður aukið, atvinnuleitendum verði sköpuð námstækifæri strax haustið 2011 og ný námsúrræði þróuð með sérstaka áherslu á starfsmenntun. Átakið nær að sjálfsögðu til ykkar starfsemi og áhersla verður lögð á samstarf og samfellu í þjónustu fræðsluaðila, virka ráðgjöf, úrræði og stuðning við einstaklinga. Þarna skiptir máli að gera skil framhaldsskóla og framhaldsfræðslu sveigjanlegri í samstarfi skólanna og fullorðinsfræðslugeirans.

Við höfum átt mikil samskipti við aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd framhaldsfræðslulaganna í vetur. Samstarfsyfirlýsing mennta- og menningarmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og aðila vinnumarkaðarins, sem ég nefndi hér áðan, var undirrituð 24. nóvember sl. um leið og rekstrarsamningur við FA. Ráðuneytið hefur samþykkt starfs- og rekstraráætlun FA fyrir árið 2011 að undangengnum ítarlegum viðræðum og ráðuneytið hefur staðfest úthlutunarreglur Fræðslusjóðs fyrir árið 2011.

Í bréfi ráðuneytisins til stjórnar Fræðslusjóðs 10. febrúar sl. þar sem reglurnar voru staðfestar fyrir árið 2011, lítið breyttar frá fyrri úthlutunarreglum FA, var tekið fram að þar sem ekki hefði verið sett reglugerð á grundvelli framhaldsfræðslulaga og ákvæði um viðurkenningu fræðsluaðila hafi ekki komið til framkvæmda væri áhersla lögð á að staðfestingin gildir einungis fyrir árið 2011. Ég tel mjög mikilvægt að stjórn Fræðslusjóðs hafi sem víðtækast samráð við fræðsluaðila og aðra sem hlut eiga að máli við undirbúning að tillögum um skilmála og reglur fyrir úthlutanir sem gilda skulu eftir árið 2011. Ég vænti þess að slíkt samráð hefjist sem fyrst þannig að fræðsluaðilarnir fá gott tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri um úthlutunarreglur og skilmála sem gilda eiga fyrir Fræðslusjóðs til frambúðar.

Í sama bréfi til stjórnar Fræðslusjóðs mæltist ráðuneytið til þess að stjórnin beitti sér fyrir því að upplýsingar um markhóp framhaldsfræðslunnar væru stöðugt uppfærðar og eins áreiðanlegar á hverjum tíma og frekast væri unnt, enda eru þær mikilvægur grunnur að skilgreiningum á menntunarþörfum hópsins og hafa að vissu marki áhrif á aðferðir við úthlutun fjár úr Fræðslusjóði. Lýsti ráðuneytið sig reiðubúið til samráðs um þetta.

Eins og fram kemur í dagskrá fundarins í dag verður drjúgum hluta tímans varið í umfjöllun um drög að reglugerð sem setja þarf á grundvelli laganna. Ég vil gjarnan að þið fáið tækifæri til að segja ykkar skoðanir á drögunum á þessu stigi málsins. Ráðuneytið mun síðan vinna úr athugasemdunum og setja endurskoðuð drög til formlegar umsagnar út á vef ráðuneytisins.

Ég veit að þið fulltrúar fræðsluaðilanna eruð í nokkrum samskiptum við starfsmenn ráðuneytisins en mér finnst einnig mikilvægt að hitta ykkur og ræða við ykkur beint um þau mál sem á ykkur brenna. Við vorum í svolitlum vafa þegar ákveða þurfti hverjum ætti að bjóða til þessa fundar. Fræðsluaðilar hafa ekki verið viðurkenndir á grundvelli laganna og enn sem komið er því ekki hægt að boða til fundar eingöngu með þeim. Því var í samráði við stjórn Leiknar – samtaka fullorðinsfræðsluaðila á Íslandi, ákveðið að bjóða öllum aðildarfélögum að senda einn eða tvo fulltrúa til þessa fundar og býð ég ykkur öll velkomin. Við munum síðan þróa formið á samráði ráðuneytisins við fræðsluaðilana og aðra í umhverfi framhaldsfræðslunnar á næstu misserum.

Ágætu fundargestir.

Ég ætla ekki að hafa þessi inngangsorð mikið fleiri. Nú vil ég gjarnan eiga samræður við ykkur um framkvæmd framhaldsfræðslunnar, heyra hvað ykkur liggur á hjarta og svara ykkar spurningum eftir bestu getu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum