Hoppa yfir valmynd
3. maí 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Vorfundur höfuðsafna

Í gildandi lögum um höfuðsöfnin þrjú, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, eru ákvæði um skyldur þeirra til að vera í forystu meðal safna hvert á sínu sviði, stuðla að samvinnu þeirra og vera öðrum söfnum til ráðgjafar eftir því sem kostur er.

3. maí 2011, Þjóðminjasafn

Ávarpsliðir

Í gildandi lögum um höfuðsöfnin þrjú, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, eru ákvæði um skyldur þeirra til að vera í forystu meðal safna hvert á sínu sviði, stuðla að samvinnu þeirra og vera öðrum söfnum til ráðgjafar eftir því sem kostur er. Fyrir tæpu ári síðan komu fulltrúar menningarminjasafna saman hér á þessum stað í tilefni fyrsta vorfundar Þjóðminjasafnsins, og skömmu síðar var haldinn fyrsti vorfundur listasafna í boði Listasafns Íslands.

Þetta samráð hefur nú þroskast enn frekar með því að nú hefur verið boðað til sameiginlegs vorfundar höfuðsafnanna þriggja, þar sem fyrri dagurinn er helgaður málum safna almennt, en síðari dagurinn er ætlaður til frekari fræðslu og samráðs í hverjum safnaflokki fyrir sig.

Þessir fundir eru fagnaðarefni. Þar sem þetta er nú að gerast í annað skipti má ætla að hér sé kominn fastur árlegur vettvangur fyrir samráð safnafólks og staður þar sem þið getið komið saman og rætt sameiginleg málefni sem stuðla að samvinnu safna og samræmdri stefnu á þeim sviðum sem söfnin ná til.

Ég held að því meira samráð og samtal sem eigi sér stað á milli safna af öllu tagi, því meiri væntingar geta stjórnvöld haft uppi um vönduð og fagleg vinnubrögð og sameiginlega nálgun við úrlausnir mála. Slíkt mun án efa leiða til betri þjónustu við fræðimenn og almenning, sem þegar allt kemur til alls er helsti eigandi safna hér á landi og hefur því mestra hagsmuna að gæta um að vel sé að öllu staðið.

Á fundinum í dag er á dagskrá umræða um lagaumhverfi á þessu sviði og annað er lýtur að starfsumhverfi safna, sem og menntun til starfa á þeim vettvangi. Eins og ykkur er kunnugt um hafa frumvörp til nýrra laga, sem lengi hafa verið í undirbúningi, nú verið lögð fram og eru til afgreiðslu á Alþingi. Fjallað verður nánar um frumvarp til nýrra safnalaga hér á eftir og mun ég því ekki ræða það sérstaklega, utan þess að minna á að með því sjáum við loks fyrir endann á margra ára ferli við endurskoðun gildandi safnalaga. Leitað hefur verið álits fjölda aðila auk þess sem almenn kynning og samráð við hagsmunaaðila hefur haft veruleg áhrif á gerð og uppsetningu frumvarpsins, vonandi til hins betra.

Þá er eftir að sjá með hvaða hætti Alþingi kýs að afgreiða frumvarpið ásamt þeim þremur öðrum frumvörpum sem lögð voru fram á sama tíma, þ.e. frumvarpi til laga um menningarminjar, frumvarpi til laga um Þjóðminjasafn Íslands og frumvarpi til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa.

Góðir gestir,

Á vorfundi Þjóðminjasafns Íslands á síðasta ári voru kynnt drög að safnastefnu á sviði þjóðminjavörslu 2010-2014 sem hafa verið í frekari vinnslu frá þeim tíma og verður dreift á þessum vorfundi. Þessi stefna endurspeglar þær breytingar sem hafa orðið í þessum málum undanfarin ár, og hefur verið unnin í góðu samráði við áhugafólk um allt land, og verður vonandi góður grundvöllur til að vinna á, og fyrirmynd fyrir önnur höfuðsöfn til að byggja á á sínum sviðum

Að lokum vil ég óska ykkur góðs gengis við þau verkefni sem verða tekin fyrir á þessum sameiginlega vorfundi höfuðsafnanna 2011.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum