Hoppa yfir valmynd
16. september 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðstefna Heilsueflandi skóla

2. september 2011, Grand Hótel

Ágætu ráðstefnugestir

Mér er það mikil ánægja að ávarpa þetta fjölmenna þing um heilsueflandi skóla sem nú er haldið í fyrsta skipti á vegum Landlæknisembættisins. Lagður var mikilvægur grunnur að samstarfi um heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum þegar HoFF -samningurinn var undirritaður fyrir tæpum fjórum árum síðan. Í honum tóku höndum saman mennta- og menningarmálaráðuneyti, þáverandi heilbrigðisráðuneyti og núverandi velferðarráðuneyti, Lýðheilsustöð og félög framhaldsskólanema. Markmiðið var meðal annars að stuðla að bættri almennri líðan og heilsu meðal nemenda, efla forvarnir og hvetja nemendur til að bera ábyrgð á eigin heilsu og stuðla að heilbrigðum og sjálfbærum lífsháttum. HoFF-samningurinn var svo endurnýjaður sl. haust og komu þá einnig að honum Félag íslenskra framhaldsskóla og stofnun um æskulýðsrannsóknir. Eins og áður verður unnið ötullega að fíkniefna- og áfengisforvörnum, aukinni hreyfingu og betri næringu auk þess sem að í nýjum samningi er aukin áhersla á að efla kynheilbrigði og geðrækt meðal ungs fólks.

Í nýrri aðalnámskrá fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem var gefin út af mennta- og menningarmálaráðuneytinu í maí síðastliðnum, birtist ný menntastefna. Byggir hún á sex grunnþáttum menntunar: læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir verða fléttaðir inn í allt skólastarf þannig að hugmyndirnar að baki þeim eiga að endurspeglast í starfsháttum skóla, samskiptum og skólabrag. Þeir verða því sýnilegir í skólastarfinu öllu og koma fram í inntaki námsgreina og námssviða.

Með grunnþáttunum er markmiðið meðal annars að börn og ungmenni verði læs á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru sem hjálpar þeim að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Þannig er þeim ætlað að stuðla að auknu jafnrétti, lýðræði og að því að byggja upp vel menntað og heilbrigt fólk til þátttöku í samfélaginu.

Grunnþættirnir sex tengjast innbyrðis í menntun og skólastarfi og eru háðir hver öðrum. Mig langar sérstaklega að nefna hér einn af grunnþáttunum, það er heilbrigði og velferð.

Í nýrri aðalnámskrá segir meðal annars að heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Mikilvægt er að allt skólastarf miði að því að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan nemenda enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla.

Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra.


Mikilvægt er að skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skóla sé meðvitað um hvað felst í heilsutengdum forvörnum og geti nýtt sér áreiðanlegar upplýsingar um þætti sem hafa áhrif á heilbrigði. Í skólum þarf að skapa börnum og ungmennum aðstæður til heilbrigðra lífshátta. Efla þarf færni þeirra í samskiptum, uppbyggingu sjálfsmyndar, ákvarðanatöku, markmiðasetningu og streitustjórnun. Nauðsynlegt er að þau öðlist skilning á þeim áhrifum sem menning, fjölmiðlar og tækni geta haft á heilsu og líðan. Markmið þess er meðal annars að börn og ungmenni geti tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði.

Í skóla, sem leggur áherslu á daglega hreyfingu og markvisst hreyfiuppeldi, er lagður grunnur að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð til lífstíðar. Veita þarf fræðslu um hreyfingu, efla hreyfifærni og skapa öruggt umhverfi sem hvetur alla til hreyfingar. Taka þarf mið af þessu í íþróttakennslu og öllu öðru skólastarfi. Í skólaumhverfinu þarf á sama hátt að stuðla að heilsusamlegu fæðuvali með fræðslu og góðu framboði á fjölbreyttum mat. Leggja þarf áherslu á uppeldis- og félagslegt gildi máltíða meðal annars með því að gefa nægan tíma til að nærast.

Mikilvægt er að skólinn taki mið af þörfum allra barna og ungmenna á einstaklingsbundinn hátt. Allir þurfa tækifæri til að njóta styrkleika sinna sem er lykilþáttur í að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Mörg áhugamál barna og ungmenna stuðla að heilbrigði og geta nýst í þessu samhengi. Með því að gefa áhugasviðum þeirra rými í skólastarfinu gefst tækifæri til að vinna út frá styrkleikum og áhuga, byggja upp jákvæða sjálfsmynd og efla þannig heilbrigði. Til að mæta áherslum um heilbrigði þurfa allir sem í skólum starfa að skoða störf sín með hliðsjón af heilbrigði og vinna í sameiningu að skýrum markmiðum sem styðja jákvæðan skólabrag, bættan námsárangur og vellíðan. Þar gegnir starfsfólk skóla miklu hlutverki sem fyrirmyndir. Einnig þarf að vinna náið með foreldrum, heilsugæslu og aðilum úr nærumhverfinu því að slík samvinna er forsenda þess að góður árangur náist.

Það er óhætt að segja að markmiðin séu háleit í nýrri aðalnámskrá. Til þess að þeim verði náð er það lykilatriði að gott samstarf sé á meðal skóla, nemenda og foreldra. Við skulum taka höndum saman í því verkefni að gera börnin okkar að heilbrigðari og sterkari einstaklingum og efla vitund þeirra fyrir mikilvægi heilbrigðs lífernis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum