Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 2011

16. nóvember 2011, Menningarmiðstöðin Gerðuberg

Góðir hátíðargestir.

Nú fögnum við degi íslenskrar tungu í sextánda sinn. Í allan dag og fram á kvöld er efnt til fjölbreyttra viðburða um allt land. Þannig heiðrum við tungumál okkar, íslenskuna,  sem tengir okkur saman sem búum hér á landi og hugleiðum gildi hennar fyrir menningu Íslendinga fyrr og síðar. Við minnumst jafnframt á þessum degi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar, sem á sérstakan sess í vitund og menningu landsmanna. Það var vel til fundið að velja fæðingardag Jónasar þegar ákveðið var að velja ákveðinn dag til þess að minnast og heiðra íslenskra tungu sérstaklega, umfram aðra daga. En auðvitað eru allir dagar í einhverjum skilningi dagar íslenskrar tungu. Hvern einasta dag erum við minnt á mikilvægi tungumálsins og það hve margt býr í því.

Efnt er til fjölbreyttra viðburða þennan dag um land allt enda hafa hátíðarhöld dagsins fest sig vel í sessi. Á vefsíðu dags íslenskrar tungu á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis má sjá upplýsingar um ráðstefnur, fundi, fyrirlestra af ýmsu tagi, sýningar, tónlistarflutning, samkeppnir og viðurkenningar sem tengjast deginum.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur lagt sig sérstaklega fram við að hvetja til þess að grunnskólar og sem flestar aðrar stofnanir noti eingöngu þýdd stýrikerfi og annan almennan notendahugbúnað í tölvum sínum. Mikilvægt er að börn og unglingar vaxi upp við að nota íslensk hugtök í tölvuheiminum, sem er stór hluti af daglegu lífi þeirra. Reykjavíkurborg hafði mikilvægt frumkvæði á þessu sviði og var íslenskt tölvuviðmót sett upp í öllum grunnskólum borgarinnar nú í vor. Íslensk málnefnd veitti borginni viðurkenningu fyrir þetta framtak á málræktarþingi síðasta laugardag. Vonandi fylgja fleiri sveitarfélög fljótlega fordæmi Reykjavíkurborgar á þessu sviði.

27. maí í vor var langþráðum áfanga náð þegar samþykkt voru lög um stöðu íslenskrar tungu og íslenska táknmálsins. Mikilvægt er að kveðið sé skýrt á um rétt íslenskunnar og rétt okkar til að nota hana á öllum sviðum samfélagsins. Í lögunum segir: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs“ (tilvitnun lýkur). Þar segir einnig að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.
Í lögunum eru einnig í fyrsta sinn fjallað um stöðu íslenska táknmálsins. Þar segir m.a. í 3. grein: (tilvitnun hefst) „Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja. Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.“ (tilvitnun lýkur). Þetta er mikilvæg breyting frá því sem var. Sérstök málnefnd um íslenskt táknmál hefur nú einnig verið skipuð eins og kveðið er á um í lögunum.

Íslensk málstefna, Íslenska til alls, var samþykkt á Alþingi árið 2009. Með lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslenska táknmálsins er staða þessara mála tryggð í lögum. Mikilvægt er nú að fylgja lögum og málstefnu vel eftir og mun mennta- og menningarmálaráðuneytið leggja sitt af mörkum í því efni.
Í málstefnunni er megináhersla lögð á að íslenskt mál verði nothæft og notað á öllum sviðum íslensks samfélags. Þá er átt við vandaða íslensku sem nýtist sem tjáningarmiðill við allar aðstæðu /hvers kyns kringumstæður.
Í 10. grein nýju laganna er fjallað um málfarsstefnu ríkis og sveitarfélaga. Þar segir: „Mál það sem er notað í starfsemi ríkis og sveitarfélaga eða á vegum þeirra skal vera vandað, einfalt og skýrt.“ (tilvitnun lýkur). Í nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands, sem tóku gildi nú í september, er einnig lögð áhersla á að það mál, sem  notað er í starfsemi Stjórnarráðsins eða á vegum þess, skuli vera vandað, einfalt og skýrt. Annars staðar á Norðurlöndum hefur lengi verið lögð áhersla á skýrt mál í stjórnsýslu eða klarsprog eins og það nefnist á dönsku. Almenningur á rétt á því að geta skilið efni sem kemur frá opinberum stofnunum og ríkinu og að það sé á ljósu og skýru máli. Það er því mikilvægt að huga að þessu við gerð opinberra texta.

Sú hefð hefur skapast að mennta- og menningarmálaráðherra heimsækir skóla og menningarstofnanir í einu ákveðnu sveitarfélagi á degi íslenskrar tungu. Þar er einnig haldin hátíðardagskrá ráðuneytisins. Í ár varð Reykjavík fyrir valinu og Breiðholtið sérstaklega og ég heimsótti nokkra skóla hér í hverfinu og þakka frábærar og vingjarnlegar móttökur, sem ég fékk. Dagurinn hófst með heimsókn í  Fellaskóla og þar fékk ég að njóta samkomu barna og eldri borgara í tilefni af degi íslenskrar tungu,  einnig heimsótti ég  leikskólann Holt og í báðum skólunum kynnti mér starf með börnum af erlendum uppruna .Því næst heimsótti ég Fjölbrautarskólann í Breiðholti og kynnti mér m.a. innflytjendabraut skólans. Að lokum heimsótti ég  leikskólann Sólborg, þar sem sérstök áhersla er lögð á menntun fatlaðra og ófatlaðra barna. Í  leikskólanum dvelja heyrnarlaus og heyrnarskert börn ásamt heyrandi börnum í þremur stofum og í þeim eru tvö mál; íslenska og íslenskt táknmál. Auk þess fá öll börn í Sólborg tækifæri til að kynnst máli og menningu heyrnarlausra.  
Það var virkilega gaman að sjá blómlegt starfið í skólunum hér. Vala og Starri Snær, sem lesa upp hér í dagskránni, ganga einmitt í skóla hér í hverfinu og eru sigurvegarar í Breiðholti í Stóru upplestrarkeppninni.

Góðir hátíðargestir!
Í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að auk Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sé heimilt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.

Viðurkenning
Ég hef eftir tillögu ráðgjafarnefndar ákveðið að veita eina viðurkenningu á degi íslenskrar tungu árið 2011. Viðurkenningarhafi fær  listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur. Í tillögu nefndarinnar segir:
„Stuðmenn rekja uppruna sinn til ársins 1970 og Menntaskólans við Hamrahlíð en segja má að þeir hafi í einni svipan orðið alþjóðareign þegar plata þeirra Sumar á Sýrlandi kom út 1975. Allar götur síðan hafa Stuðmenn kætt, frætt og fætt þjóð sína með söngvum sem komnir eru hátt á annað hundraðið og birst hafa á ótal hljómdiskum og myndböndum, í kvikmyndum, sviðsverkum og bókum. Alla þessa fjóra áratugi hefur „unglingahljómsveit allra landsmanna“ að auki verið órög við að sinna aðdáendum sínum með tónleikum og dansleikjum og hvers kyns uppákomum út um allt land. Margir texta Stuðmanna eru löngu orðnir klassískir og ómissandi þar sem fólk kemur saman. Það varðar því miklu að þeir eru allir ortir og fluttir á íslensku eins og ekkert sé sjálfsagðara. Á tímum þegar slíkt virðist frekar orðið undantekning en regla í poppheimum verður fordæmi Stuðmanna þeim mun mikilvægara.
Ráðgjafarnefndin telur að Stuðmenn séu vel að því komnir að hljóta sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2011“
Bið ég nú fulltrúa Stuðmanna að koma fram og veita viðtöku viðurkenningu á degi íslenskrar tungu. Til hamingju.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Góðir hátíðargestir!
Á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember ár hvert, eru veitt Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Í reglum mennta- og menningarmálaráðuneytisins um verðlaunin segir að þau beri að veita einstaklingum er hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Ráðgjafarnefnd dags íslenskrar tungu gerir tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verðlaunahafa og rökstyður val sitt. Ráðgjafarnefndin var að þessu skipuð Þórarni Eldjárn, Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og Kristjáni Árnasyni. Verðlaunahafi fær í verðlaun 700 þúsund krónur, ritið Íslenskir fuglar eftir Benedikt Gröndal og skrautritað verðlaunaskjal. Íslandsbanki veitir verðlaunaféð eins og oft áður og þakka ég bankanum fyrir stuðninginn.
Ég hef með mikilli gleði fallist á tillögu ráðgjafarnefndarinnar um hver hljóta skyldi Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2011. Í rökstuðningi nefndarinnar segir:
„Veruleiki íslenskra kvenna er yrkisefni Kristínar Marju Baldursdóttur og varpar hún í verkum sínum ljósi á líf og störf kvenna, hlutverk, drauma og þrár.
Jafnrétti kynjanna var markmið og leiðarljós er hún hóf skáldaferil sinn og má merkja það ljóst og leynt í gegnum verk hennar. Kristín Marja er alþýðuskáld í þeim skilningi að bækur hennar eru lesnar í öllum kimum íslensks samfélags og þjóðin sameinast í sagnaheimi hennar. Þá hafa verk Kristínar Marju hlotið miklar vinsældir erlendis og þá sérstaklega í þýskumælandi löndum. Jafnrétti er mannréttindi og persóna Kristínar Marju, listakonan Karítas, segir:
„Í feðraveldinu hampa karlar hver öðrum og það versta er að konurnar hampa þeim líka, því ef þær færu nú að hampa hver annarri hver ætti þá að sjá um þvotta þjóðarinnar?“ Fyrsta skáldsaga Kristínar Marju, Mávahlátur, kom út 1995 og var hún sett á svið hjá Leikfélagi Reykavíkur og kvikmynduð skömmu síðar. Kristín Marja hefur síðan sent frá sér fleiri skáldsögur, smásögur og ævisögu, ásamt því að eiga að baki farsælan feril sem blaðamaður á Morgunblaðinu.
Karítas án titils og Óreiða á striga sýna hlutskipti kvenna í upphafi 20. aldar og byggja þannig brú á milli fortíðar og nútíðar. Verk hennar einkennast af kraftmiklum manneskjum. Stíllinn er sterkur og sambandið náið á milli lesenda og persóna. Hún glímir í sögum sínum við margslungnar hliðar mannlífsins og undirtónninn er konan og hin kvenlæga veröld.

Í bókmenntunum lifir tungumálið, en eingöngu ef þær eru lesnar og Kristín Marja hefur fyrir margt löngu kvatt sér hljóðs hjá íslenskri þjóð og fangað fjöldann með myndrænum lýsingum og fjölskrúðugu máli sagnameistarans, enda blómstrar tungan í snjáðustu bókunum.

Því er það að ráðgjafarnefndin telur Kristínu Marju Baldursdóttur verðskulda Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2011.“
Nú bið ég Kristínu Marju Baldursdóttur að koma hingað og veita Verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar viðtöku. Innilega til hamingju.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum