Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mikilvægur áfangi hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra í tilefni af því að aðalráðstefna UNESCO samþykkti að veita Vigdísarstofnun – alþjóðamiðstöð í fjöltyngi og menningarlæsi hjá Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, viðurkenningu sem Catergory 2 stofnun.

Vigdisarstofnun-21.11.2011-010
Vigdisarstofnun-21.11.2011-010

21. nóvember 2011, Háskólatorg

Blaðamannafundur í tilefni af því að aðalráðstefna  UNESCO samþykkti  
að veita Vigdísarstofnun – alþjóðamiðstöð í fjöltyngi
og menningarlæsi hjá Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur,
viðurkenningu sem Catergory 2 stofnun

Ágæta samkoma

Aðalráðstefna Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna – UNESCO, samþykkti nú í upphafi þessa mánaðar einróma að veita Vigdísarstofnun viðurkenningu sem „Catergory 2 institute“ undir formerkjum stofnunarinnar. Við erum saman komin hér í dag til að fagna þessum áfanga og kynna hvað náin framtíð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur ber í skauti sér.
Ísland hefur löngum unnið að því að standa vörð um stöðu tungumálsins á vettvangi UNESCO. Síðast þegar Sveinn Einarsson sat sem fulltrúi Íslands í stjórnarnefnd UNESCO tókst með nokkru harðfylgi að fá sérstaka tungumálaáætlun inn í verkefna- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar.
Við getum öll verið stolt yfir því að UNESCO – þessi heimssamtök menningar, mennta og vísinda - veiti Vigdísarstofnun þessa viðurkenningu. Því í henni fellst mikill heiður, virðing og viðurkenning á að UNESCO treysti Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur til að annast það vandasama hlutverk að standa vörð um tungumálið sem órjúfanlegan hluta menningar og tjáningar.

Viðurkenningin er fyrst og fremst táknræn. Stofnanir sem hljóta viðurkenningu UNESCO falla hvorki lagalega ellegar fjárhagslega undir UNESCO. En til að öðlast þessa viðurkenningu þarf Vigdísarstofnun að uppfylla ákveðnar reglur sem gilda um þessa viðurkenningu, að ganga í gegnum flókið umsóknarferli og umfram allt – að tryggja að mannauður, þekking og skipulag uppfylli ströng skilyrði.
Það er á engan hátt tilviljum sem ræður þessu vali UNESCO. Vigdísarstofnun og vitaskuld Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hafa ásamt UNESCO tengst nafni Vigdísar órjúfanlegum böndum, enda hefur Vigdís um allnokkur ár verið velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO og verið stofnuninni til halds og trausts á því sviði. Skemmst er að minnast framlags hennar sem opnunarfyrirlesara á málstofu um menntun stúlkna og kvenna á nýliðinni aðalráðstefnu UNESCO í París. Þar minnti Vigdís okkur og alheiminn á að tungumálamenntun er lykillinn að friði og jafnrétti í heiminum í dag.
Það er því vel við hæfi að Vigdísarstofnun hlotnist sá heiður að verða fyrst allra stofnana til að fá Category 2 institute viðurkenningu UNESCO fyrir störf á sviði tungumála. Category 2 stofnanir UNESCO eru ekki margar – og þessi hér er einstök í sinni röð.
Að baki viðurkenningar UNESCO á starfsemi Vigdísarstofnunar liggur mikil vinna. Hér hafa allir lagst á eitt: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóli Íslands, ráðuneytið, landsnefnd UNESCO á Íslandi og sendiráð okkar í París hafa lagt sín lóð á vogaskálarnar til að gera þennan draum að veruleika. Ég við því nota tækifærið og þakka öllum sem unnið hafa að þessu verkefni.

Góðir gestir
Um leið og við fögnum þessum merka áfanga vil ég ljúka máli mínu með því að óska Vigdísarstofnun, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóla Íslands og öðrum hlutaðeigandi innilega til hamingju með þann heiður sem fylgir þessari nafnbót.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum