Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ráðstefna um opið menntaefni

Ávarp mennta- og menningarmálaráðherra á ráðstefnu um opið menntaefni sem haldin var í Hörpu þann 21. nóvember sl.

Opid-menntaefni-21.11.2011-002
Opid-menntaefni-21.11.2011-002

21. nóvember 2011, Harpa

Kæru gestir / dear guests

Það er mér mikil ánægja að vera með ykkur hér í dag og fá tækifæri til að opna þessa ráðstefnu um opið menntaefni.
Um er að ræða fyrsta opinbera atburðinn sem tengist þessu efni og ég hlakka til að fylgjast með okkur Íslendingum stíga fyrstu skrefin í að leggja aukna áherslu á að hafa menntaefni opið.

Ég vil fyrst þakka þeim sem hjálpuðu okkur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu við að gera þessa ráðstefnu að veruleika með virkilega mikilli og óeigingjarnri undirbúningsvinnu, það er 3f félagi um upplýsingatækni og menntun, Menntavísindasviði Háskóla Íslands og RANNUM, Rannsóknarstofu um upplýsingatækni og miðlun. Án þessara aðila væri þessi ráðstefna ekki orðin að veruleika hér í dag.
Þá vil ég einnig þakka fyrirlesurum, sem eiga þátt í að gera þessa ráðstefnu eins áhugaverða og raunin er, með góðum erindum og ykkur þátttakendum fyrir að koma hingað, hlusta og taka þátt í ráðstefnunni með okkur.
I also want to thank Dr. Frank Rennie and Hellen Lentell which came all the way from Scotland and England to be here with us today and to inform us about the idealogy of Open Educational resources and how it is used in United Kingdom.
Eitt helsta markmið menntakerfisins er að sem flestir hljóti þá þekkingu, leikni og hæfni, sem er nauðsynleg til að takast á við daglegt líf og stuðla að frekari þróun í samfélaginu með áherslu m.a. á sjálfbærni og lýðræði.
Þarna skiptir miklu máli hvaða menntaefni  er aðgengilegt fyrir nemendur okkar,hversu gott það er og vandað.

Í nýútgefnum aðalnámskrám endurspeglast áherslur mínar á lýðræðisleg vinnubrögð og afstöðu. Opið menntaefni er því hugmyndafræði sem mér hugnast vegna þess að það felur í sér lýðræðislega þróun þar sem allir, sem það vilja, geta aðlagað efnið, notað það og dreift því áfram.
Auk þess þá ýtir þessi hugmyndafræði undir sjálfstæði kennara og námsefnishöfunda og gerir þá óháða í efnisöflun og vali.
Þegar kennarar finna námsefni á netinu standa þeir oft frammi fyrir því vandamáli að oft hentar efnið bara að hluta en ekki alfarið. Oftast eru engar höfundaréttarmerkingar á efninu og því veit sá sem hefur í hyggju að nýta sér það, ekki hvort og hvernig hann má í raun nota það.

Það er mikilvægt að fræða kennara, námsefnishöfunda og útgefendur um opin höfundaleyfi og fá þá til að tileinka sér hugmyndafræðina sem fylgir slíkum leyfum, því það auðveldar notendum mjög að nota efnið. Kosturinn við opin leyfi er ekki síst að notendur geta breytt efninu, bæta við það og aðlagað það að því námi eða kennslu, sem á að nota það í.
Þetta þýðir að efnið þróast áfram, það tekur breytingum og verður frekar í takt við tímann hverju sinni ásamt því að það verður til í nokkrum útgáfum, þar sem upphaflega höfundar er alltaf getið. Efnið fer því víðar, verður notað meira og höfundurinn fær alltaf þann heiður, sem hann á skilið að fá. Þetta þýðir að gæði efnisins gæti hugsanlega aukist og það væri uppfært og í takt við þjóðfélagið á hverjum tíma.
Ég sé líka fyrir mér að notendur efnisins gætu metið gæði efnisins, sem væri aðgengilegt á netið, gefið því einkunn eða stjörnur, eins og vinsælt er nú á tímum. Þeir gætu jafnvel sagt frá því hvernig efnið hafi nýst þeim og hvernig þeir sjá fyrir sér að það geti þróast áfram.

Um þessar mundir er ráðuneytið með gagnagrunn í smíðum fyrir opið menntaefni. Honum er ætlað að auðvelda menntaefnishöfundum að merkja efnið sitt með opnum höfundaleyfum, aðstoða þá við að koma efninu á framfæri og auðvelda notendum leit að menntaefni ásamt því að bjóða upp á notendamiðaða gæðamatið, sem ég minntist á áðan.
Ráðuneytið hefur einnig kynnt sér stefnu og stuðning stjórnvalda í öðrum ríkjum við opið menntaefni og raunin er því miður sú að við höfum dregist nokkuð aftur úr í því efni. Mörg ríki, víða um heim hafa birt stefnu sína í þessum málum og það er okkur hvatning til að gera líkt hið sama.

Ég hef því ákveðið að skipa nefnd til að gera tillögur um stefnu stjórnvalda um opið menntaefni enda er það samræmi við stefnu okkar um frjálsan og opinn hugbúnað.
Þeirri hugmynd hefur verið varpað fram að allt efni, sem styrkt er af opinberum aðilum, hefði opin höfundarleyfi og við skulum vera opin fyrir öllum góðum hugmyndum, hlusta á þær raddir sem heyrast hér á ráðstefnunni í dag og læra hvert af öðru.

Ég lýsi hér með yfir að ráðstefna um opið menntaefni er hafin.

Opid-menntaefni-21.11.2011-009

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum