Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Rétturinn til að njóta ávaxtanna af vinnu sinni

Ávarp Katrínar Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra á málþingi BÍL um höfundarétt, 28. janúar 2012 í Iðnó.

Ávarp Katrínar Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem flutt var á málþingi Bandalags íslenskra listamanna um höfundarétt, 28. janúar 2012 í Iðnó.
Góðir áheyrendur
Þetta málþing gefur tilefni til að rifja stuttlega upp tilurð og sögu höfundaréttarins, sem rekur upphaf sitt til prentiðnaðarins. Þegar aðferð Guthenbergs við prentun breiddist út á 15. og 16. öld þótti stjórnvöldum víða í Evrópu nóg um og reyndu að koma böndum á fyrirbærið. Þau komu á fót eftirliti með prentverki og afla þurfti leyfis til að prenta og selja bækur. Höfundarétturinn var þannig til kominn að prentarar fengu í tiltekinn tíma einkarétt á að prenta tiltekið verk. Í krafti einkaréttarins gátu prentarar einnig hindrað að aðrir prentuðu sama verk á því tímabili. Af þessum rétti er dregið enska hugtakið „copyright“, þ.e. rétturinn til að framleiða eintök.  Höfundarétturinn var á þessum tíma bundinn við yfirráðasvæði ríkisins en þegar árið1886 var með Bernarsáttmálanum, um vernd bókmennta og lista, lagður grunnur að alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Ég get ímyndað mér að fyrir svona 30 árum hafi fólk í þessum geira verið farið að sjá fyrir sér að höfundaréttarmál í alþjóðlegu samhengi, væri að færast í tiltölulega viðunandi horf. En þá varð stóra tækniviðundrið, tölvur og net, að veruleika og allar forsendur gjörbreyttust.  Í ljósi þess hve þessi tæknibylting hefur orðið á skömmum tíma er eðlilegt að langt sé í land í höfundaréttarmálum á netinu jafnvel þótt grundvallaratriðin séu þau sömu og áður um rétt höfunda, flytjenda og annarra rétthafa á sínum verkum.
Með netvæðingunni breiddist sú skoðun út að allt sem finna mætti á netinu væri öllum heimilt til frjálsra afnota og að eignarréttarhugmyndin, sem höfundarrétturinn byggist á, hefði runnið sitt skeið. Nú væri tími til að endurmeta þá siðferðilegu viðmiðun um eignarhald, sem víðast í heiminum er litið á sem eitt af grundvallaratriðum samfélagsins. Ég get tekið undir með þeim sem telja að hverju samfélagi sé nauðsynlegt að ræða og meta grundvallargildin á hverjum tíma og í þessu tilviki eignarréttinn. Við erum öll meðvituð um að hann er stundum misnotaður og tekur á sig sérkennilegar myndir eins og við þekkjum, til dæmis í einkaeign fólks á gríðarlegum landssvæðum í óbyggðum, sem margir telja að ættu að vera sameign landsmanna. Og margir spyrja hvers vegna fólk þarf að hanga á því að eiga eitthvað sem ekkert snertir afkomu þess.
Hér er kannski komið lykilorðið í þessum vangaveltum;  afkoman. Ef spurningin um höfundarréttinn er tengd afkomu þeirra, sem eiga allt undir honum, þá hættir hún að vera heimspekileg og snýst um að eiga fyrir salti í grautinn. Í raun virðist oft sem hinn almenni notandi komi ekki auga á þetta samhengi, nema þegar hann stendur frammi fyrir því að fá efnið milliliðalaust frá rétthafa. Þá eru meiri líkur á því að honum þyki sjálfsagt að greiða fyrir það. Þegar notandinn á hinn bóginn eygir hvergi höfund eða flytjanda fyrir frumskógi risavaxinna milliliða, sem því miður hirða stundum nánast alla kökuna, þá eru minni líkur á að hann sjái ástæðu til að greiða fyrir efnið.
Það hefur því miður borið við í málflutningi þeirra, sem aðhyllast frjálsa notkun á efni annarra, að þeir hafa ekki bent á leiðir til að tryggja rétthöfum tekjur af atvinnu sinni en þess í stað bent á ýmsar leiðir, utan hins hefðbundna kerfis, sem hafi þrátt fyrir allt fært listamönnum og rétthöfum tekjur. Hér er ekki tækifæri til að fara nánar í saumana á þessum rökræðum nema að slá því föstu að enn hefur þeirri spurningu ekki verið svarað hvernig listamenn og flytjendur eigi að hafa tekjur – og geta skapað fleiri verk – ef réttur þeirra til að njóta ávaxtanna af verkum sínum verður frá þeim tekinn.
Um þessar mundir er mikið að gerast í hinum vestræna heimi á sviði höfundarréttarmála, einkum hvað snertir kröfu rétthafa um að stjórnvöld aðstoði við að sporna gegn ólögmætri dreifingu efnis á netinu. Við höfum heyrt af  mjög umdeildum frumvörpum í Bandaríkjunum, sem kölluð eru SOPA og PIPA og í Evrópu er verið að ræða ýmsar aðferðir og lagasetningar í þessa veru. Krafan beinist ekki síst að fjarskiptafyrirtækjunum, að þau stöðvi ólögmæta dreifingu efnis eftir ábendingar frá rétthöfum, eftir dómsúrskurði eða samkvæmt stjórnvaldsfyrirmælum. Evrópuríkin virðast ætla að fara mismundandi leiðir í þessu efni. Frakkar riðu á vaðið með hinum svokölluðu Hadopi – lögum, Bretar og Spánverjar hafa lög sem beinast að sama marki en framkvæmd þeirra er umdeild og óvíst um árangurinn, sama gildir um frönsku aðferðina. Þær fréttir berast svo af vettvangi Evrópusambandsins að aðildarríkin ræði um tilslakanir frá reglunni um að fjarskiptafyrirtæki beri enga ábyrgð á því efni, sem þau dreifa. Við getum ekki annað sagt en að það sé í hæsta máta eðlilegt að þessar leiðir séu kannaðar en á hinn bóginn er það umhugsunarefni af hverju boð og bönn eru talin ákjósanlegust í þessu efni. Stafar það ef til vill af því að menn hafa gefist upp við að finna viðskiptaaðferðir eða greiðslufyrirkomulag, sem er auðvelt, notendavænt og tryggilegt? Hefur tregða stóru framleiðendanna í Ameríku og víðar, ásamt flóknu höfundarréttarkerfi í Evrópu orðið til þess að menn hafi einfaldlega misst af lestinni og ætli að vinna upp forskot lögbrjóta með valdboði?  Ég hef ekki svör við þessu en ítreka það sem ég áður sagt um þetta efni, að það er mikilvægt að áhersla sé lögð á að finna leiðir til eðlilegrar notkunar á menningarefni á netinu, sem taki mið af hagsmunum beggja aðila, höfundarréttarhafa og neytenda.
Eins og mörg ykkar þekkja þá stóð mennta- og menningarmálaráðuneyti fyrir tveimur samráðsfundum þeirra, sem þessi mál varða. Það er okkar mat að þessir fundir hafi verið mjög gagnlegir, þeir juku þekkingu okkar og leiddu saman mismunandi aðila í þessum geira. Samtök höfundarréttarhafa og fjarskiptafyrirtækin héldu samráðinu áfram og þeir fyrrnefndu lögðu til að sett yrði gjald á netnotkun, sem rynni til höfunda, flytjenda og annarra höfundarréttarhafa. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess enda málið flókið og varðar marga.
Að mínu mati er rétt að við hefjum samræður aftur um þessi mál og leggjum mat á þær fyrirætlanir annarra Evrópuríkja um aðgerðir til að sporna gegn ólögmætri dreifingu efnis á netinu, sem nú liggja fyrir. Við þurfum einnig að ræða hvort núverandi fyrirkomulag um innheimtu gjalda af afritunartækjum sé besta aðferðin við að mæta tekjutapi höfundarréttarhafa. Ég tel nauðsynlegt að gefa hagsmunaðilum gott svigrúm til að leysa sín mál án afskipta ríkisvaldsins og er því ekki reiðubúin á þessari stundu að lýsa því yfir að nú skuli sett lög á við þau, sem áður hafa verið nefnd, í Frakklandi og víðar. Það þarf skapandi hugsun - og lausnamiðaða - til að finna lausnir og ég hvet ykkur til að hugsa í þeim farvegi.
Að því sögðu óska ég ykkur velfarnaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum