Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Katrín Sigurðardóttir fulltrúi Íslands í Feneyjum

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við athöfn í Listasafni Reykjavíkur, 16. febrúar 2012.

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við athöfn í Listasafni Reykjavíkur 16. febrúar 2012 þegar tilkynnt var um fulltrúa Íslands á Feneyjatvíæringnum 2013.

Feneyjatvíæringur 2013

Góðir tilheyrendur
Feneyja tvíæringurinn hefur um árabil átt fastan sess í íslensku listalífi, og annað hvert ár fylgjast íslenskir listunnendur, líkt og þeir sem unna fögrum listum um allan heim, vel með því sem kemur fram í borginni við síkin í þessari miklu alþjóðlegu myndlistarveislu. Á sýningunni „Í afbyggingu“ sem nú er í Listasafni Íslands höfum við fengið að njóta þess sem þau Libia Castro og Ólafur Ólafsson sýndu sem fulltrúar Íslands í Feneyjum árið 2011. Þátttaka Íslands á tvíæringnum  krefst mikils undirbúnings, bæði af hálfu listamanna og annarra sem að málinu koma, og ekki er langt til næsta tvíærings, sem hefst í júní 2013. Hér er því rökrétt tækifæri til að kynna hver verður fulltrúi Íslands í Feneyjum á næsta ári.
Um árabil hefur Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, sem annast framkvæmdina, skipað fagráð á sínum vegum til að velja fulltrúa landsins í þessu verkefni. Niðurstaða fagráðsins að þessu sinni er nú komin fram, og það er mér sönn ánægja að tilkynna hér, að fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2013 verður listakonan Katrín Sigurðardóttir.  
Katrín Sigurðardóttir hefur um árabil verið meðal okkar fremstu listamanna, og hefur skapað sér vaxandi orðstír hér á landi jafnt sem erlendis, einkum í Bandaríkjunum, þar sem hún hefur verið búsett að mestu leyti um árabil. Fjölmargar einkasýningar hennar, bæði hér á landi og erlendis, hafa vakið mikla athygli, og um þær hefur verið fjallað í þekktum listtímaritum, öðrum tímaritum og dagblöðum, svo ekki sé minnst á íslenska fjölmiðla, sem einnig hafa gert list Katrínar góð skil í gegnum árin.
Frami Katrínar ætti ekki að koma neinum þeim á óvart, sem hefur fylgst með ferli hennar. Með sýningu sinni í Listasafni ASÍ 1998 má segja að hún hafi birst okkar sem fullmótaður listamaður, og verk hennar The Green Grass of Home, endurmótun hennar af Miklatúni í formi ferðatösku, gaf tóninn fyrir það meginþema, sem hefur einkennt verk hennar alla tíð síðan; þau vekja samhljóm meðal einstaklinga allra þjóða, þar sem þau fjalla um kortlagningu ferðalaga mannsins í tíma og rúmi, í raunveruleikanum eða í huganum, frá Ísaksskóla í Reykjavík til Metropolitan Museum of Art í New York. Þessi ferðalög vísa ekki til flótta frá einum stað í annan, heldur rannsóknar listakonunnar á því sem hefur verið yfirgefið, og hvernig það verður óaðskiljanlegur hluti af okkur; fjöllin, eyjarnar, húsin, garðarnir – í verkum Katrínar birtist uppsöfnuð lífsreynsla listakonunnar frá barnæsku til fullorðinsára. Í gegnum verk hennar öðlumst við nýja sýn á veruleikann. Stundum er augað gabbað; eyjar sem eru í raun litlar og nettar verða ógnarstórar, jafnvel svo að áhorfandinn upplifir sig sem Gúlliver í Putalandi. Micro og macro eru hugtök sem eiga einkar vel við í list Katrínar.    
Viðhorf listakonunnar koma einkar vel fram í lýsingu hennar á hugljúfu verki sem hún skapaði 2010 fyrir Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Kærleikskúlu ársins, sem Katrín lýsti þannig: „Þegar ég horfði inn í kúluna í fyrstu, þá sá ég fyrir mér þekkt minni; lítinn heim innan í kúlunni og endamörk hans, glerið sjálft eins og sjóndeildarhring þess sem horfir innan úr miðju hans. Kúlan er alheimur í sjálfum sér, en í hönd manns er þessi litla veröld bara ögn í stærri alheimi – sem kannski er líka ögn í enn stærri alheimi, lítill viðkvæmur hlutur í höndum einhvers sem starir innan í hann.“
Í Feneyjum mun Katrín takast á við nýja áskorun, nýtt umhverfi, og um leið nýja möguleika í listsköpun sinni. Í framhaldinu mun sýningin síðan koma til Íslands og verða sett upp hér í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.  Ég er þess fullviss að með dyggri aðstoð sýningarstjórans Mary Ceruti, verkefnisstjórans Ilaria Bonacossa og annarra sem ljá henni lið við þetta verkefni mun Katrín ná að skapa eftirminnilega sýningu, sem verður henni til sóma og okkur Íslendingum og öllum listunnendum til gleði.  
Um leið og ég óska Katrínu til hamingju með að hafa verið valin fulltrúi Íslands á Feneyja tvíæringnum árið 2013 óska ég henni einnig alls velfarnaðar við það mikla viðfangsefni, sem framundan er.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum