Hoppa yfir valmynd
7. mars 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framlag listamanns til samfélagsumræðu

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur við opnun sýningar á verkum Rúríar i Listasafni Íslands.

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur við opnun sýningar á verkum Rúríar i Listasafni Íslands, 2. mars 2012.

Árið 1974, fyrir bráðum fjörutíu árum, stendur ung kona með sleggju á miðju á Lækjartorgi. Þetta er kona sem greinilega er tilbúin í hvað sem er. Þennan dag ætlar hún sér ekki að ráðast á vegfarendur við torgið og ekki heldur á húsnæði helstu fyrirtækja eða stofnanna samfélagsins, sem þá raða sér niður í húsin allt um kringum hana. Þarna er á ferðinni listakonan Rúrí sem ætlar sér sem snöggvast að ráðast gegn því sem e.t.v. er stærsta birtingarmynd valdsins hér á Vesturlöndum, nefnilega gegn valdi peninganna. Birtingarmynd fjármagnsins, sem í þessum gjörningi er skúlptúr og hún beitir sleggjunni síðan á með góðum árangri, er gyllt bifreið. Tegundin er Mercedes Benz. Bæði skúlptúrinn og gjörningurinn lífga í stutta stund við þetta torg, sem yfirleitt lifnar aðeins við með sérstöku átaki veðurguðanna eða borgaryfirvalda.   

Fólk safnast saman í kringum listakonuna og bílinn þegar barningurinn byrjar. Það heyrist bæði hneykslun og aðdáun hjá viðstöddum og þá er tilganginum líklegast náð. Fórnarlambið þennan dag er ekki bara gyllti bíllinn, heldur iðnvæddur kapítalismi eins og hann leggur sig og allt sem hann inniber: mengunin, sóunin, efnishyggjan, feðraveldið. Bardaginn er kannski skýrt afmarkaður en það er engu að síður listakonan sem fer með sigur að hólmi þennan dag. Eftir stendur áhrifaríkt augnablik í íslenskri myndlistarsögu.

Listamaður eins og Rúrí stefnir alltaf að hinu ómögulega, einfaldlega af því að það er eftirsóknarvert og þroskandi að eiga sér stórt takmark. Þess vegna var ekkert mál að ráðast gegn fjármagninu, þarna um árið, sem vissulega er oft hreyfiafl til góðra verka en getur einnig verið heftandi og íþyngjandi, sérstaklega þegar kemur að frjálsri sköpun og tjáningu. Rúrí hefur engu að síður látið fátt stoppa sig. Hvað hefur hún til dæmis oft verið að eltast við regnbogann í verkum sínum, í margbreytilegum myndum? Undir regnboganum er fjársjóður eins og við vitum, en sá leiðarendi fjarlægist hvað sem tautar og raular. Listakonan gefst samt ekki upp. Rúrí reynir að breyta sýn okkar hinna á heiminn, spyrja spurninga, vekja hrifningu, vekja þrá.  Þrá eftir hinu ómögulega.

Það þykir ekki alltaf sjálfsagt í myndlistarlífinu að leggja mat á framlag einstakra listamanna til samfélagsumræðu. Þá heyrist oft að listin sé á einhvern óljósan hátt yfir það hafin að taka þátt í málefnum líðandi stundar. Þessu má hins vegar líka snúa á haus og segja að vegna þess að myndlistin er álitin leggja lítið til samfélags umræðunnar, þá séum við einfaldlega ekki að taka nægilega vel eftir því hvað myndlistarmenn hafa fram að færa, hvað þeir eru að reyna að segja okkur í það og það skiptið. Listin er nefnilega aldrei framin í samfélagslegu tómarúmi. Hún á alltaf í einhverju samtali við umhverfi sitt og þá breytir engu hve oft tuggan um „listina listarinnar vegna“ er tuggin.

Rúrí býr til nýja sýn á reynsluheim okkar: landið, söguna, náttúruöflin og það hvernig við Íslendingar mátum okkur inn í heiminn. Hver ætlar t.d. að halda því fram að verk Rúríar Archive - Endagered Waters, sem var framlag Íslendinga til Tvíæringsins í Feneyjum árið 2003, hafi ekki verið hárnákvæmt tímasett með hliðsjón af þjóðmálunum í landinu? Spurningin er bara, tókum við nægilega vel eftir? Hefur merking og inntak verksins ekki líka breyst á þeim tæplega tíu árum sem liðin eru?

Verk Rúríar eru oft pólitísk í eðli sínu og það er vel. Landsmenn – og stjórnmálamenn þeirra á meðal – þurfa nefnilega á annars konar sýn á hagsmuni og hreyfiöfl samfélagsins að halda. Fjölmiðlar miðla til okkar sinni útgáfu af veruleikanum en sá veruleiki er séður í gegnum ákveðna linsu, eða fer í gegnum prisma-gler og út kemur ákveðinn regnbogi eða ljósbrot (svo að ég noti „rúrísk“ hugtök). Listamenn sýna okkur annars konar regnboga með sínum glerjum og linsum. Þeirra frelsi til gagnrýni er annað en það sem leyfist í hinu opinbera sviðsljósi fjölmiðlanna. Þess vegna þarf að standa vörð um frjálsa sköpun í íslenskum listum. Þess vegna þarf að hvetja til lifandi samspils milli einstakra listamanna og stofnanna samfélagsins á sviði menningar. Slíkt samspil verður til dæmis að veruleika með sýningum á borð við þá sem nú er rétt að opna hér í Listasafni Íslands.

Og um leið og ég opna þessa yfirlitssýningu á verkum Rúríar vil ég óska henni og sýningarstjóranum Christian Schoen til hamingju, bæði með sýninguna og hina nýútkomnu glæsilegu bók um listakonuna og verk hennar.

Til hamingju og takk fyrir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum