Hoppa yfir valmynd
11. maí 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menningarsamningar og menningarstarf um allt land

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur við úthlutun verkefnastyrkja Menningarráðs Suðurlands 6. maí 2012 á Selfossi.

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur við úthlutun verkefnastyrkja Menningarráðs Suðurlands 6. maí 2012 á Selfossi.

Góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að vera viðstödd úthlutun verkefnastyrkja Menningarráðs Suðurlands. Samstarf ríkisins og sveitarfélaga á Suðurlandi í menningarmálum hófst fyrst formlega árið 2007 þegar samningur þess efnis var undirritaður hér í Árborg 2. maí. Þetta samstarfsform ríkis og sveitarfélaga hefur lukkast vel þar sem þau taka höndum saman um uppbyggingu í mikilvægum málaflokki. Nú er svo komið að alls eru í gildi sjö menningarsamningar við sveitarfélögin um land allt utan höfuðborgarsvæðisins.

Það er stórt landsvæði sem samningurinn við Suðurland nær til. Allt frá Hveragerði og Þorlákshöfn til Hafnar í Hornafirði auk Vestmannaeyja. Menningarmiðstöðin á Höfn í Hornafirði gegnir mikilvægu hlutverki á Suðurlandi í því að koma menningu og listum á framfæri. Við starf menningarmiðstöðvarinnar hefur ríkið stutt allt frá árinu 2001. Í yfirlýsingu þeirri sem undirrituð var á Höfn 24. júní á síðasta ári var staðfestur áfram sá vilji stjórnvalda að menningarmiðstöðin verði leiðandi á sviði bókmennta og sýningahalds.  Slíkum menningarmiðstöðvum er ætlað að vera í fararbroddi í listrænu starfi á viðkomandi svæðum og leita samstarfs sem víðast, til Reykjavíkur, milli landsvæða og út fyrir landsteinanna.

Ánægjulegt er að geta þess hér að um áramótin var sveitarfélögunum falið enn stærra verksvið og ábyrgð þegar þau nú taka að sér í gegnum menningarsamninga að veita rekstrar- og eða stofnstyrki til starfsemi á sviði lista, safna og menningararfs sem áður voru á hendi Alþingis. Með þessu móti leitast stjórnvöld við að ákvörðun um stuðning við einstök verkefni verði tekin af nærsamfélaginu á faglegan og vandaðan hátt. Það er von mín og trú að þetta skref sé rétt og verði farsælt fyrir alla til framtíðar.  Það mun hins vegar koma í ljós þegar árangur þeirra menningarsamninga sem í gildi eru verður metinn en það mat mun fara fram áður en kemur að því að ákveða með endurnýjun samnings frá og með árinu 2014.

Í dag er það almennt viðurkennt að listir og menning séu hluti af því samfélagi sem við viljum búa í. Ekki er lengur talað um að menningin sé einungis fyrir fólk til að njóta og taka þátt í almennu áhugastarfi, heldur er einnig bent á það víða um lönd að atvinnuuppbygging þessarar aldar muni ekki síst liggja á sviði lista og menningar og í skapandi atvinnugreinum. Og ásamt menningartengdri ferðaþjónustu er augljóst að hér liggja tækifærin til framtíðar. Með þessum samningum mótaði ráðuneyti mennta- og menningarmála og iðnaðarráðuneyti þá stefnu að gera menningarsamninga við landshluta með það meginmarkmið að leiðarljósi að fjölga störfum á sviði menningarmála og menningartengdrar ferðaþjónustu.

Á þessu fæst staðfesting í skýrslu um hagræn áhrif skapandi greina þar sem fram kemur með skýrum hætti að þær skapi miklar tekjur og veiti mörgum atvinnu. Menning er ein af meginstoðum þess samfélags sem við viljum búa í, hún er samgróin allri framvindu í samfélaginu og er oft aflvaki breytinga, leggur til fjölbreyttrar þekkingarsköpunar.

Á erfiðum tímum í efnahagsmálum þjóðarinnar er ekki sjálfgefið að fjárveitingar til menningarsamninga við sveitarfélög séu ekki skornar niður enda er samstarfið á þessu sviði ekki lögbundið verkefni ríkis eða sveitarfélaga.  En árangurinn er ótvíræður og ánægja meðal þingmanna, sveitarstjórnarmanna og stjórnsýslunnar og ekki síður hjá öllum þeim sem vinna að menningarverkefnum um land allt. Það má fyrst og fremst þakka öflugu starfi menningarráða og menningarfulltrúa um landið og þeim mikla og frjóa áhuga sem listafólk og aðrir sem vinna að ýmsum verkefnum á sviði menningar um land allt hafa sýnt í verki.

Á sviði menningarmála á landsvísu hafa á undanförnum árum verið tekin stór skref og árangur þeirra verkefna sem ráðist hefur verið í er augljós.  Þar vil ég sérstaklega nefna opnun menningarhússins Hofs á Akureyri og Hörpu í Reykjavík, menningarsamningana og stóraukinn stuðning við kynningarmiðstöðvar lista, en ekki síst einstakan árangur Íslands sem heiðurslands á bókamessunni í Frankfurt. Öflug kynning á landi og þjóð hefur nefnilega mikil efnahagsleg áhrif um land allt, ekki síst þegar til lengri tíma er litið.

Því má ekki gleyma að menningarlíf landsmanna byggir öðru fremur á hugmyndaauðgi og sköpunargleði einstaklinga og hópa, sem hafa til að bera þann kraft sem þarf til að koma hlutunum í verk.  Og ég vil leyfa mér að halda því fram að á endanum eru þjóðir metnar í sögulegu tilliti á grundvelli þeirrar menningar sem þær fóstra og þeirra menningarverðmæta sem kynslóðirnar skilja eftir sig fremur en efnislegum gildum, auði og völdum.

Góðir gestir. Fjölbreytni í framsetningu listamanna á hugmyndum sínum endurspeglar það frelsi sem er listunum nauðsynlegt, og það er von mín að sú ríkulega menningarstarfsemi sem dafnar og á eftir að dafna nái að endurspegla þær hugsjónir sem íslenskt samfélag byggir á. Þá getum við sagt að vel hafi tekist til. 

Ég óska styrkhöfum innilega til hamingju og vil þakka alþingismönnum, forsvarsmönnum sveitarfélaga, menningarráði og menningarfulltrúa fyrir áhuga þeirra og stuðning við þetta starf. Til hamingju með árangur síðustu ára og megi þetta samstarf halda áfram að vaxa og dafna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum