Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytið

„Menningararfur við hvert fótmál“

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra á menningarhátíðinni „Brú til Borgar“ í Borg í Grímsnesi, 1. júlí 2012.

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við setningu málþingsins „Menningararfur við hvert fótmál“  á menningarhátíðinni „Brú til Borgar“ í Borg í Grímsnesi, 1. júlí 2012.

Góðir málþingsgestir,

Vægi menningarinnar í þjóðlífinu verður seint ofmetið. Af daglegum fréttum mætti ætla að stærð, efnahagslegur styrkur eða hernaðarlegur máttur ráði stöðu einstakra ríkja í samfélagi þjóðanna. Ég vil halda því fram að svo sé ekki; á endanum eru þjóðir metnir í sögulegu tilliti á grundvelli þeirrar menningar sem þær fóstra og þess menningararfs og þeirra menningarverðmæta, sem kynslóðirnar skilja eftir sig.

Þjóðir, samfélög og sveitarfélög gera því fátt betra en að rækta sinn andlega og sögulega garð, hlúa að sínu menningarlífi og sínum menningararfi, til ánægju fyrir lifandi kynslóðir, og til eftirbreytni fyrir þær sem koma síðar. Því eru menningarhátíðir af öllu tagi sérstakt fagnaðarefni; „Brú til Borgar 2012“ hefur gefið öllum gestum einstakt tækifæri til að kynnast þeim menningararfi sem er að finna hér í sveit, hvort sem menn náðu að nýta sér afar fróðlega ferð um vesturhluta Grímsness, sem var á dagskrá í gær, eða með dagskrá þessa sunnudags. 

Sú samfélagsþróun, sem átt hefur sér stað á undanförnum áratugum, er gríðarleg. Nú er það almennt viðurkennt að menningarmál séu ekki aðeins til skrauts, heldur virkur hluti af því samfélagi sem við viljum búa í og jafnframt mikilvæg atvinnugrein.  Menningin er ekki lengur einungis fyrir fólk til að njóta eða taka sjálft þátt í með almennu áhugastarfi, heldur er þáttur menningar í efnahagsmálum þjóðarinnar nú orðinn stærri en marga grunar.  Víða um lönd er bent á að atvinnuuppbygging þessarar aldar muni ekki síst liggja á sviði menningarmála, eða eins og sumir kalla þetta nú orðið, í skapandi atvinnugreinum sem og menningartengdri ferðaþjónustu. Þar telja margir að tækifærin liggi til framtíðar og þegar landsmenn hyggjast nýta þau er nauðsynlegt að byggja á þeim góða grunni, sem felst í menningararfi þjóðarinnar almennt og í menningararfinum eins og hann er þekktur á hverjum stað fyrir sig.

Þrátt fyrir allt tal um peninga og aðstöðu sem forsendur alls má ekki gleyma að öflugt menningarlíf fær ekki eingöngu þrifist fyrir tilstilli laga, fjárveitinga, samninga eða tilskipana. Það byggir öðru fremur á hugmyndaauðgi og sköpunargleði einstaklinga og hópa, sem hafa til að bera þann kraft sem þarf til að koma hlutunum í verk, einkum með góðri samvinnu fjölmargra aðila. Sem dæmi um slík verkefni hér að Suðurlandi má nefna samvinnu þeirra sem vinna með sunnlenskan menningararf í Safnaklasa Suðurlands og í menningarlífinu almennt í gegnum Menningarráð Suðurlands.

Og síðan höfum við dæmi dagsins fyrir okkur, því það stendur öflugur áhugamannahópur á bak við þessa glæsilegu menningarhelgi, þar sem „Hollvinir Grímsness“ hafa borið hitann og þungann af undirbúningi dagskrárinnar. Ég vil óska þeim félagsskap til hamingju með það mikla verk, sem liggur að baki.

Góðir gestir,

Þetta málþing er vel til þess fallið að auka þekkingu allra viðstaddra á þeirri auðlegð menningarsögunnar sem er að finna í Grímsnesinu, því hér, eins og svo víða annars staðar, er „Menningararfur við hvert fótmál“, svo vísað sé til yfirskriftar þeirrar dagskrár sem hér er að hefjast. Hér fáum við tækifæri til að hlusta á einvalalið fræðimanna, sem hafa kynnt sér þá sögu sem hér er að finna og ætla að deila hluta hennar með okkur.

Eins og Guðmundur frá Efri-Brú sagði í tölvupósti, sem mér barst í aðdraganda þessa málþings, er eins víst að þetta ágæta fólk, sem og aðrir sem hafa komið að dagskrá helgarinnar, gætu auðveldlega haldið viðstöddum hugföngnum dögum saman með þeim fróðleik sem hér er að finna. Svo verður þó ekki að þessu sinni en við bíðum þá bara þolinmóð eftir menningarhátíð næsta árs til að fræðast meira.

Ég segi málþingið „Menningararfur við hvert fótmál“ hér með sett.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum