Framhaldsskólar

Námsvist við alþjóðlegan menntaskóla

 

Námsvist við alþjóðlegan menntaskóla

Mennta- og menningarmálamálaráðuneyti auglýsir eftir umsóknum um skólavist við Alþjóðlegan menntaskóla Rauða krossins (Red Cross Nordic United World College) í Flekke, Noregi.  Nám við skólann tekur tvö ár og lýkur því með viðurkenndu alþjóðlegu stúdentsprófi, International Baccalaureat Diploma (IB). Kennsla fer fram á ensku.

Íslensk stjórnvöld eiga aðild að rekstri skólans og býðst skólavist fyrir einn nemanda. Umsækjandi þarf að hafa lokið einu ári í framhaldsskóla. Nánari upplýsingar má finna á vef skólans.

Auglýst er eftir umsækjendum um skólavist fyrir skólaárið 2017 - 2018. Umsækjendur skulu hafa lokið sem svarar einu ári í framhaldsskóla, hafa gott vald á ensku og vera á aldrinum 16-18 ára. Væntanlegur nemandi þarf sjálfur að greiða fargjald og námsgögn.

 Nánari upplýsingar veitir Ásta María Reynisdóttir, tölvupóstur asta.reynisdottir@mrn.is

Um United World College skólana

Skólar Rauða krossins, United World College skólarnir (UWC), eru 16 talsins en hver skóli leggur sérstaka áherslu á ákveðin málefni, oft tengd nærsamfélagi sínu.

Skólinn í Noregi leggur sérstaka áherslu á umhverfis-, samfélags- og mannréttindamálefni.

Markmið skólanna er að beita menntum sem sameiningarafli.  Norski skólinn, UWC Red Cross Nordic, í Flekke, á Vesturströnd Noregs, leggur sérstaka áherslu á umhverfis- og mannúðarmálefni í starfi sínu, en nemendur hvaðanæva að úr heiminum stunda þar nám. Markmið skólans er að gera nemendum kleift að verða virkir og menntaðir þátttakendur í samfélagi sínu og að viðhorf þeirra og skilningur á aðstæðum og ólíkum menningarheimum verði drifkraftur breytinga. Í gegnum nemendur, sem veljast til náms á forsendum árangurs og sem fulltrúar heimalands síns, vonast skólinn til þess að hugmyndafræði menntunarinnar hafi áhrif í nærsamfélögum nemenda og auki skilning þeirra og mannúð. Í stuttu máli miðar starf skólans að því að búa til betri og umburðarlyndari heim.