Aðalnámskrá listaskóla

Aðalnámskrár listaskóla

Aðalnámskrár tónlistarskóla

Aðalnámskrá tónlistarskóla skiptist í almennan hluta og sérstaka greinahluta. Í almennum hluta aðalnámskrár tónlistarskóla er meðal annars gerð grein fyrir hlutverki og meginmarkmiðum tónlistarskóla, skipan tónlistarnáms, greinanámskrám og skólanámskrá, fjallað um kennslu og kennsluhætti, þætti í hljóðfæra- og tónfræðanámi, námsmat og próf, tengsl heimila og skóla og samvinnu í skólastarfi.

Í greinahlutum aðalnámskrár tónlistarskóla er fjallað um markmið, inntak og skipulag náms á tilteknum námssviðum. Jafnframt er gerð grein fyrir prófum og gefnar ábendingar um viðfangsefni.Aðalnámskrár listdansskóla

Aðalnámskrár fyrir listdansskóla eru gefnar út í tveimur hlutum, fyrir grunnnám og fyrir framhaldsnám á framhaldsskólastigi. Hlutverk aðalnámskrár er einkum að samræma helstu þætti listdansnáms milli skóla og innan einstakra skóla og mynda eðlilega stígandi í náminu. Í aðalnámskrá er greint frá hlutverki og markmiðum í listdansnámi, inntökuskilyrðum, skipulagi námsins, kennsluháttum og námsmati.

Aðalnámskrá fyrir grunnnám setur markmið fyrir byrjendur í listdansi. Í henni eru sett lokamarkmið og áfangamarkmið. Aðalnámskrá á framhaldsskólastigi setur markmið fyrir nám í listdansi fyrir nemendur sem hyggja á frekara nám í listgreininni. Námið er metið til eininga á framhaldsskólastigi.