Námskrár framhaldsfræðslu

Framhaldsfræðsla

2.7.2012

Mennta- og menningarmálaráðuneyti  birtir viðmið um gerð námskráa í framhaldsfræðslu en þær lýsa námstilboði sem samanstendur af einum eða fleiri námsþáttum og felur í sér að lágmarki 40 klukkustunda vinnu námsmanns, í og utan kennslustunda. Viðmiðin nýtast fræðsluaðilum við námskrárgerð og eru höfð til hliðsjónar af ráðuneyti við staðfestingu þeirra.
Ráðuneytið vottar/staðfestir námskrár á grundvelli 6. greinar laga um framhaldsfræðslu nr. 27/2010 og 8.-10. gr. reglugerðar um framhaldsfræðslu nr. 1163/2011. Markmið með vottuninni eru að stuðla að aukinni viðurkenningu náms sem fer fram utan formlega skólakerfisins og tryggja gæði og gegnsæi námstilboða viðurkenndra fræðsluaðila í framhaldsfræðslu. Með vottun er staðfest að námið uppfylli kröfur um skipulag, framsetningu viðmiða og námsmat. Í vottuninni felst jafnframt að viðkomandi nám hefur verið tengt við hæfniþrep í hæfniramma um íslenskt menntakerfi.
Fræðsluaðilar í framhaldsfræðslu sem hafa viðurkenningu sem slíkir á grundvelli laga um framhaldsfræðslu, eða aðrir fagaðilar sem ráðuneyti telur hæfa, geta sótt um vottun námskráa. Námskrár og námsþættir eru skráðir af fræðsluaðila í námskrárgrunn ráðuneytisins og úr þeim grunni sendir fræðsluaðili formlega umsókn um vottun.

Námsskránum er ætlað að leiðbeina um kennslu fyrir útlendinga á fullorðinsaldri. Með kennslu í íslensku fyrir útlendinga er stefnt að því að nemendur verði sem best í stakk búnir að taka virkan þátt í íslensku, lýðræðislegu þjóðfélagi. Því er lögð áhersla á að námsþættirnir snerti persónulega færni, félagslega færni og starfsfærni eftir því sem framast er unnt.

Námskrárnar stuðla að samræmingu við kennslu og mat á íslenskunámi fyrir útlendinga. Með samræmingu fæst frekari samfella í námsferlinu og námsmaður sem flyst milli landshluta getur gengið að því vísu að sömu kröfur eru gerðar til námsins hvar sem kennt er. Námsmat er einnig sambærilegt og lagt er til að það taki mið af viðmiðunarstöðlum Evrópuráðsins. Námsskrárnar eru sveigjanlegar og styðja við annað nám, s.s. starfstengt nám á vinnustað. Framhaldsnámskráin gerir ráð fyrir að nemendur hafi náð lokamarkmiðum fyrri námskrár.Til baka Senda grein