Hoppa yfir valmynd
28. október 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Niðurstöður úttektar á kennslu í lögfræði

Í samræmi við þriggja ára áætlun mennta- og menningarmálaráðherra um úttektir á háskólum lét ráðuneytið fara fram úttekt á kennslu í lögfræði í íslenskum háskólum, þ.e. Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst.

  • Laganámið uppfyllti öll formleg lagaleg skilyrði og samræmdist alþjóðlegum viðmiðum um uppbyggingu námsleiða og ECTS eininga.
  • Ekki eru nein viðmið um innihald íslensks laganáms nema til prófs til héraðsdómslögmannsréttinda (hdl-próf).
  • Athugasemdir við fjölda stundakennara og menntun þeirra, sem kenna í lagadeildum háskólanna.

Í samræmi við þriggja ára áætlun mennta- og menningarmálaráðherra um úttektir á háskólum lét ráðuneytið fara fram úttekt á kennslu í lögfræði í íslenskum háskólum, þ.e. Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst. Var úttektarnefndin skipuð tveimur erlendum sérfræðingum, einum íslenskum og einum háskólanema.

Eins og venjan er við úttektir af þessu tagi undirbjuggu háskólarnir sjálfsmatsskýrslur samkvæmt fyrirmælum ráðuneytisins sem úttektarnefndin fékk til skoðunar. Nefndin heimsótti háskólana fjóra vikuna 6.-9. september 2010 en vegna veikinda annars erlenda sérfræðingsins dróst úrvinnslan fram á árið 2011. Nefndin skilaði skýrslu sinni til ráðuneytisins þann 25. júlí 2011. Skýrslan er yfir 200 bls. að lengd og fjallar hún um hvern skóla sérstaklega en í lok skýrslunnar leggur nefndin heildarmat á kennslu í lögfræði í skólunum fjórum.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að laganámið í skólunum fjórum uppfyllti öll formleg lagaleg skilyrði og samræmdist alþjóðlegum viðmiðum um uppbyggingu námsleiða og ECTS eininga. Hins vegar bendir nefndin á að ekki séu til nein viðmið um innihald íslensks laganáms ef undanskildar eru þær kröfur sem felast í prófi til héraðsdómslögmannsréttinda (hdl-próf). Nefndin telur að skortur á slíkum viðmiðum getur komið niður á starfsundirbúningi nemenda og torveldað mat á námi milli skóla og hvetur íslenska háskóla til að auka samstarf sín á milli í þeim tilgangi að tryggja sem best hagsmuni nemenda sinna.

Almennt telur nefndin að aðstæður til kennslu í lögfræði hér á landi séu góðar en gerir alvarlegar athugasemdir við fjölda stundakennara sem kenna í lagadeildum háskólanna og hlutfall fastra kennara og nemenda. Telur nefndin að hvort tveggja samræmist ekki alþjóðlegum viðmiðum fyrir kennslu í lögfræði og komi niður á gæðum kennslu og rannsókna. Nefndin gerir einnig athugasemdir við menntun kennara í lagadeildum háskólanna og bendir á að kröfur til menntunar kennara hér samræmast ekki alþjóðlegum viðmiðum fyrir kennslu í lögfræði. Þótt munur sé á menntun fastra kennara eftir skólum hér á landi þá lækkar hinn mikli fjöldi stundakennara enn frekar menntunarstig kennara í lögfræði.

Þá gerir nefndin all nokkrar athugasemdir við innri gæðastjórnun skólanna. Þannig telur nefndin brýnt að skólarnir tryggi betur kennslufræðilega þekkingu kennara sinna, hlúi að starfsþróun kennara og bæti nemendakannanir sínar. Nefndin lýsir yfir ánægju með að skólarnir hafi mótað stefnu á sviði rannsókna en bendir á brotalamir í framkvæmdinni. Hvetur hún þá háskóla, sem ekki hafa nú þegar farið þá leið, að fá erlenda sérfræðinga til að leggja mat á rannsóknavirkni sinna lagadeilda.

Háskólarnir fjórir hafa brugðist við niðurstöðum úttektarinnar og hægt er að nálgast svör skólanna á vef ráðuneytisins ásamt úttektarskýrslunni og sjálfsmatsskýrslum skólanna. Niðurstöðurnar verða svo ræddar í tengslum við samninga milli ráðuneytisins og skólanna.





Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum