Hoppa yfir valmynd
11. september 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Gæðaeftirlit með háskólastarfsemi

Ráðstefna um gæðakerfi íslenskra háskóla verður haldin föstudaginn 13. september kl. 13:00-16:00 í Landbúnaðarháskóla Íslands að Keldnaholti.

Gæðaráð íslenskra háskóla stendur fyrir ráðstefnu um gæðakerfi íslenskra háskóla og ræðir um reynslu síðasta árs af gæðaeftirliti með háskólastarfsemi. Einnig verður fjallað um nýjustu úttektir ráðsins á gæðum náms við Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólann á Hólum. Ráðstefnan verður haldin föstudaginn 13. september kl. 13:00-16:00 í Landbúnaðarháskóla Íslands að Keldnaholti.

Gæðaráðið var stofnað árið 2010 og markmið þess er meðal annars að tryggja gæði háskólastarfsemi hér á landi, bæði á sviði rannsókna og kennslu, að tryggja samkeppnishæfni háskólanna og færa gæðaeftirlit til samræmis við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur tekið á sig.

Gæðaráðið mótar aðferðafræði fyrir mat á gæðum í kennslu og rannsóknum og gerir tillögu til ráðherra um þriggja ára áætlun um eftirlit með kennslu og rannsóknum við íslenska háskóla. Það hefur mótað skýra stefnu um gæðaeftirlit á háskólastigi, sem m.a. gerir kröfur um að skólarnir viðhaldi ábyrgu innra gæðaeftirliti og felur í sér áætlun um ytra eftirlit. Stefnan er sett fram í gæðahandbók og í henni eru sett fram mælanleg markmið sem háskólar verða að uppfylla og munu úrskurðir gæðaráðsins verða birtir opinberlega. Sett hafa verið skýr markmið og tímarammi um hvenær og hversu oft viðkomandi háskólar skulu gangast undir opinbert ytra gæðaeftirlit.

Dagskrá:

13:00 Setning

13:10 Prófessor Norman Sharp, formaður Gæðaráðs íslenskra háskóla

13:25 Dr. Rita McAllister, formaður úttektarhóps Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum

14:00 Dr. Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands

14:20 Dr. Erla Björk Örnólfsdóttir, rektor Hólaskóla – Háskólans á Hólum

14:40 Kaffihlé

15:00 Almennar umræður

16:00 Ráðstefnulok



  • Fundarstjóri er Dr. Einar Hreinsson, framkvæmdastjóri Gæðaráðs íslenskra háskóla.
  • Ráðstefnan fer fram á ensku.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum