Hoppa yfir valmynd
14. maí 1997 Matvælaráðuneytið

Smáfiskaskiljur

Fréttatilkynning

Smáfiskaskiljur

Sjávarútvegsráðuneytið hefur í dag gefið út tvær reglugerðir, sem snerta notkun smáfiskaskilju í fiskivörpum og verður hér á eftir gerð nokkur grein fyrir efni þeirra en Fiskistofa mun á næstu dögum kynna útgerðarmönnum tog- og dragnótaskipa nánar efni þeirra.

I. Í byrjun febrúar 1997 voru togveiðar heimilaðar á tilteknu svæði á Breiðdalsgrunni með því skilyrði, að notuð væri smáfiskaskilja í vörpunni. Jafnframt var þá gefin út reglugerð um gerð og útbúnað samáfiskaskilju. Í reglugerðinni sagði, að væru veiðar á tilgreindum svæðum bundnar því skilyrði, að varpan væri útbúin smáfiskaskilju, væri aðeins heimilt að nota þær tegundir smáfiskaskilja, sem ráðuneytið hefði viðurkennt, að fenginni umsögn Hafransókna-stofnunarinnar. Þegar reglugerð þessi var gefin út hafði aðeins ein tegund smáfiskaskilju "SORT-X" hlotið slíka viðurkenningu. Ráðuneytið hefur nú, að fenginni tillögu frá Hafrannsókna--stofnuninni, viðurkennt notkun nýrrar gerðar íslenskrar smáfiskaskilju, sem kölluð hefur verið "STUNDAGLASIÐ" og gefið út í því sambandi viðauka við reglugerð um gerð og útbúnað smáfiskaskilju.

II. Þá hefur ráðuneytið gefið út reglugerð um verndun smáfisks við tog- og dragnótaveiðar fyrir Suðausturlandi. Samkvæmt reglugerð þessari, sem gildi tekur 15. júní 1997, eru allar veiðar í fiskivörpu og dragnót bannaðar á svæði milli Hvítinga og Kötlutanga nema notuð sé smáfiskaskilja eða legggluggi í veiðarfærinu í því skyni að koma í veg fyrir veiðar á smáfiski. Skuttogurum er óheimilt eftir 15. júní 1997 að stunda togveiðar á þessu svæði nema með smáfiskaskilju. Togskipum, sem taka trollið inn á síðunni, er heimilt að stunda veiðar á svæðinu frá 15. júní til loka ágúst með leggglugga, en eftir þann tíma er þeim skylt að nota smáfiskaskilju á svæðinu. Dragnótaveiðar er eftir 15. júní óheimilt að stunda á þessu svæði nema nótin sé útbúin leggglugga.


Sjávarútvegsráðuneytið

14. maí 1997



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum