Hoppa yfir valmynd
20. júní 1997 Matvælaráðuneytið

Loðnuveiðar erlendra skipa

Loðnuveiðar erlendra skipa


Sjávarútvegsráðuneytið hefur í dag gefið út reglugerð um loðnuveiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Reglugerðin tekur til veiða skipa frá Grænlandi, Noregi og Færeyjum. Í reglugerðinni er kveðið á um að Fiskistofa skuli gefa út veiðileyfi til loðnuskipa frá þessum löndum, þó þannig að ekki verði fleiri en 30 leyfi gefin út til norskra skipa á tímabilinu 1. júlí til 30. nóvember, og ekki fleiri en 20 á tímabilinu frá 1. desember til 15. febrúar. Ekki skal gefa út fleiri leyfi en 7 til færeyskra skipa. Áður fengu öll skip leyfi sem sóttu um en fjöldi skipa á veiðum var takmarkaður.

Skip sem koma inn í fiskveiðilandhelgina skulu sigla um einn af þremur tilteknum athugunarstöðum. Skulu þau tilkynna til Landhelgisgæslunnar, með minnst 6 tíma fyrirvara og mest 12 tíma fyrirvara, um áætlaðan komutíma í athugunarstað. Í tilkynningunni komi m.a. fram hver afli um borð er.

Þegar veiðar eru stundaðar innan fiskveiðilandhelginnar skal tilkynna Landhelgis-gæslunni einu sinni á sólarhring um afla.

Þá skal tilkynna Landhelgisgæslunni um lok veiða og afla um borð.

Áður en veiðiskip yfirgefur fiskveiðilandhelgina skal það sigla um einn af áðurnefndum athugunarstöðum. Skal tilkynna Landhelgisgæslunni um áætlaðan komutíma í athugunarstað, auk annarra upplýsinga, m.a. um afla um borð.

Þetta fyrirkomulag mun auðvelda Landhelgisgæslunni að hafa eftirlit með loðnuveiðum erlendra skipa.


Sjávarútvegsráðuneytið, 20. júní 1997

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum