Hoppa yfir valmynd

8. Fjárreiður ríkisaðila í B-hluta

Flokkun ríkisaðila var breytt í fjárlögum fyrir árið 2022 til samræmis við breytingar sem gerðar voru á flokkun á starfsemi þeirra í lögum um opinber fjármál. Þær breytingar byggðust á endurskoðun Hagstofu Íslands á flokkun tiltekinna ríkisaðila/stofnanaeininga. Hluti af sjóðum þeim sem töldust áður til B-hluta flokkast nú undir A2-hluta. Enn fremur voru gerðar breytingar á skilgreiningu á B-hluta:

B-hluti.Til B-hluta teljast önnur fyrirtæki og lánastofnanir sem eru undir beinni stjórn ríkisins og rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs og ekki teljast til A-hluta. Þessir aðilar starfa á markaði og standa að stærstum hluta undir kostnaði við starfsemi sína með tekjum af sölu á vöru eða þjónustu til almennings og fyrirtækja.

Eftir breytingar á flokkun ríkisaðila teljast nú einungis þrjú fyrirtæki og tveir sjóðir til B-hluta. Það eru ÁTVR, Happdrætti Háskóla Íslands, Íslenskar orkurannsóknir, Nýsköpunar­sjóður atvinnulífsins og Kría, sprota- og nýsköpunarsjóður. Framsetning á fjárreiðum aðila í B-hluta er eins og í reikningsskilum fyrirtækja í sambærilegum rekstri og reikningsskil þeirra skulu uppfylla kröfur laga um ársreikninga.

Meðfylgjandi tafla gefur yfirlit yfir nokkrar lykilstærðir úr fjárreiðum B-hluta aðila sem byggjast á fjárhagsáætlunum þeirra fyrir árið 2024. Arðgreiðslur B-hluta aðila í ríkissjóð eru áætlaðar 250 m.kr. en einungis Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins greiðir arð í ríkissjóð. ÁTVR gerir ráð fyrir að hagnaður ársins 2024 verði um 300 m.kr. sem er 165 m.kr. lægri en áætlaður hagnaður 2023 samkvæmt fjárlögum. Áætlað er að Happdrætti Háskóla Íslands greiði 1.638 m.kr. framlag á næsta ári sem renni til framkvæmda og viðhalds fasteigna Háskóla Íslands.

Rekstrargrunnur, m.kr.

Sækja töflu 8-1

Tveir nátengdir sjóðir teljast til B-hlutans. Annars vegar Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sem fjárfestir í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum þar sem vænta má virðisauka og arðsemi af starfseminni fyrir íslenskt samfélag og góðrar ávöxtunar fyrir sjóðinn. Sjóðurinn áætlar að verja 350 m.kr. í fjárfestingar árið 2024 og veita 100 m.kr. í langtímalán 2024 líkt og 2023. Hins vegar er Kría, sprota- og nýsköpunarsjóður sem hóf starfsemi árið 2021, en hann sérhæfir sig í fjárfestingum í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum. Kría er með öðrum orðum sjóðasjóður sem fjárfestir í svokölluðum vísisjóðum. Slíkir sjóðir sérhæfa sig í að fjárfesta snemma í vaxtaferli sprotafyrirtækja sem hafa mikla vaxtamöguleika en getur þá um leið verið áhættusöm fjárfesting.

Í meðfylgjandi töflu er samandregið rekstrar- og sjóðstreymisyfirlit fyrir ríkisaðila í B-hluta í heild. Gert er ráð fyrir að samanlagður hagnaður þessara aðila af reglulegri starfsemi aukist um tæplega 6% milli ára. Fjármagnsjöfnuður eykst um næstum helming milli áranna en hærri verðbólga hefur haft áhrif á vaxtastig. Handbært fé frá rekstri hækkar um ríflega 750 m.kr. frá fyrra ári. Þegar tekið hefur verið tillit til arðgreiðslna ÁTVR til ríkissjóðs og framlags Happdrættis Háskóla Íslands til Háskóla Íslands, sem gert er ráð fyrir að aukist um rúmlega 1.200 m.kr. milli ára, er niðurstaðan sú að breyting á handbæru fé er sambærileg milli ára eða aukning um 260–290 m.kr.

Rekstrargrunnur, m.kr.

Sækja töflu 8-2

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum