Hoppa yfir valmynd

16 Markaðseftirlit og neytendamál

Menningar- og viðskiptaráðuneytið
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð menningar- og viðskiptaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra. Undir málefnasviðinu er einn málaflokkum sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefnasviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Heildarútgjöld

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn stjórnvalda er skilvirk efnahagsstarfsemi og velferð á grunni stöðugleika, virkrar samkeppni, gagnsæis og heilbrigðra viðskiptahátta. Meginmarkmið málefnasviðsins er alþjóðleg samkeppnishæfni atvinnulífs sem byggist á efnahagslegu, umhverfislegu og samfélagslegu jafnvægi. 

Framtíðarsýn og meginmarkmið málefnasviðsins felast í virku markaðseftirliti sem styður við markmið um góða atvinnu og hagvöxt, ábyrga neyslu og framleiðslu, nýsköpun og uppbyggingu, jöfnuð og framþróun á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Þau styðja jafnframt við heimsmarkmið um að reglusetning og eftirlit með alþjóðlegum fjármálamörkuðum og -stofnunum verði bætt og beiting slíkra reglna efld og um að þróaðar verði skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum sem hafi gagnsæi að leiðarljósi.

Markmið málaefnasviðsins eru til þess fallin að stuðla að bættum samskiptum almennings og fyrirtækja við Samkeppniseftirlitið, Neytendastofu og Fjármálaeftirlitið í samræmi við velsældaráherslur ríkisstjórnarinnar. 

Fjármögnun

Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins í heild hækki um 677 m.kr. frá fjárlögum 2024 til ársins 2029. Hækkun um 716 m.kr. á tímabilinu skýrist af áætluðum breytingum á fjárheimildum vegna rekstrarkostnaðar Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Hækkunin tekur mið af rekstraráætlun Seðlabanka Íslands fyrir Fjármálaeftirlitið vegna ársins 2025 og langtímaáætlun til ársins 2029 sem gerir ráð fyrir hækkun rekstrarkostnaðar í takt við verðbólguspá. Fjárheimild til Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands er jafn há eftirlitsgjaldi sem Seðlabankinn innheimtir af eftirlitsskyldum aðilum og rennur í ríkissjóð. Til lækkunar á útgjaldaramma á tímabilinu er almenn aðhaldskrafa að fjárhæð um 39 m.kr.

Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfestingu hins vegar.

Útgjaldarammi

Helstu áherslur 2025–2029

Bætt samkeppnishæfni

16.1 Markaðseftirlit og neytendamál 

Verkefni

Undir málaflokk 16.1 fellur eftirlit Samkeppniseftirlitsins með ákvæðum samkeppnislaga, nr. 44/2005, og samkeppnisreglna EES-samningsins, og almennt fyrirsvar fyrir bættum samkeppnis­skilyrðum íslensks atvinnulífs. Undir málaflokkinn fellur einnig eftirlit Seðlabanka Íslands með fjármálastarfsemi (Fjármálaeftirlitið). Neytendastofa fer með eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og sérlögum á sviði neytendaverndar. Þá fer Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með markaðseftirlit með öryggi vöru en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heyrir undir málefnasvið 11. 

Helstu áskoranir 

Ýmsar áskoranir eru til staðar á sviði samkeppnismála. Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkis­stjórnarinnar er viðvarandi verkefni og áskorun að auka samkeppnishæfni og sveigjanleika íslensks atvinnulífs með því að draga úr hindrunum í gildandi regluverki og tryggja að ný löggjöf sé skýr og skilvirk. Skilvirkni í eftirliti með samkeppni og starfsháttum fyrirtækja er mikilvægur þáttur í að tryggja að ábati samkeppninnar skili sér til neytenda. Skilvirkt og öflugt eftirlit með samkeppni kallar á að starfsumhverfi Samkeppniseftirlitsins sé með þeim hætti að stofnunin geti uppfyllt og framkvæmt lögbundin verkefni sín. Æskilegt er að umgjörð samkeppnislöggjafar hér standist samanburð við önnur lönd, s.s. að því er varðar sjálfstæði eftirlits, eftirlitsheimildir og rétt máls­aðila í samkeppnismálum, svo að málaflokkurinn geti mætt þeim áskorunum sem að honum beinast, m.a. með hliðsjón af aukningu í fjölda mála til meðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum.

Á sviði neytendamála er unnið að því að mæta ýmsum áskorunum í málaflokknum í gegnum gerð heildarstefnumótunar. Snýr sú vinna að nokkrum þáttum.

Í fyrsta lagi að því að bæta skilvirkni og málshraða hjá kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og gera nefndinni þar með kleift að sinna með fullnægjandi hætti þeim lögbundnu verkefnum sem henni eru falin. Vaxandi málafjöldi og aukið álag hjá þeim stjórnvöldum og kærunefndum sem fara með neytendamál er orðið að viðvarandi áskorun í málaflokknum.

Í öðru lagi hefur verið, og er, unnið að víðtækri uppfærslu og nútímavæðingu á löggjöf á sviði neytendamála með það fyrir augum að efla rétt neytenda. Í því felast m.a. ný heildstæð markaðssetningarlög, tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda í neytendamálum, löggjöf um rafrænar skuldaviður­kenn­ingar, áhersla á netviðskipti og stafvæðingu, löggjöf um neytendalán og neytendakaup, bætt úrlausn ágreiningsmála og aukin fræðsla á sviði neytendamála, auk fleiri þátta sem fela í sér verulegar umbætur fyrir neytendarétt og neytenda­vitund í landinu.

Í þriðja lagi felst í stefnumótuninni endurskoðun á stjórnsýslulegri stöðu neytenda- og sam­keppnismála innan stofnanakerfis ríkisins en þegar hefur verið unnið að úttekt og greiningu á stjórnsýslulegri stöðu og fyrirkomulagi Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu. Þar hefur m.a. komið til skoðunar möguleg sameining eða samrekstur Samkeppniseftirlits og Neytendastofu.

Skil­virkt og öflugt stjórnsýslulegt fyrirkomulag samkeppnis- og neytendamála er viðvarandi áskorun. Meginmarkmið vinnu á því sviði er að efla málefnasvið samkeppnis- og neytendamála, auka skilvirkni, styrkja samkeppni innan lands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi viðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Falla þessar áskoranir og verkefni á sviði samkeppnis- og neytendamála vel að velsældar­áherslum ríkisstjórnarinnar um betri samskipti við almenning.

Á sviði fjármálaeftirlits hafa orðið miklar lagabreytingar á undanförnum árum. Samhliða ­­þeim hafa verið gerðar fjölmargar breytingar á stjórnvaldsfyrirmælum auk þess sem fyrirtækjum á fjármálamarkaði er í starfsemi sinni ætlað að fylgja fjölda verklagsreglna og leiðbeinandi tilmæla. Mikilvægt er að Seðla­bankinn sjái til þess að eftirlitsskyldir aðilar hafi gott aðgengi að upplýsingum um þær kröfur sem til þeirra eru gerðar í gildandi regluverki á sviði fjármálaeftirlits og eftirlitsframkvæmd á hverjum tíma. Á næstu árum verður unnið að upptöku og innleiðingu á mörgum nýjum Evrópureglum sem m.a. tengjast stafvæðingunni með ýmsu móti. Töluverðar breytingar verða gerðar á umgjörð netöryggismála með tilkomu reglugerðar um viðnámsþrótt net- og upplýsinga­kerfa á sviði fjármálamarkaðar (e. Digital Operational Resilience Act, DORA). Þá er að vænta lagasetningar um stafrænar eignir með innleiðingu reglugerðar um markaði með sýndareignir (e. Markets in Crypto-Assets, MiCA). Þá fylgja því ýmsar áskoranir nýjum lögum um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokk­unarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar er tóku gildi á árinu 2023. Loks eru í farvatninu breytingar á Evrópugerðum á bankamarkaði sem munu hafa áhrif á íslensku viðskiptabankana.

Tækifæri til umbóta 

Ýmis tækifæri eru til umbóta á sviði samkeppnismála. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um stjórnsýsluúttekt á Samkeppniseftirlitinu, frá ágúst 2022, voru lagðar fram ábendingar í átta liðum, sem ýmist lutu að rekstri stofnunarinnar og beindust að henni, eða að umgjörð mála­flokksins, og einnig að ráðuneytinu. Ráðuneytið og Samkeppniseftirlitið hafa lagt mat á þær ábendingar sem beinast að eftirlitinu og hrinda þarf í framkvæmd á gildistíma fjármála­áætlunar í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar. Áfram verður unnið að endurskoðun á stofnanaumgjörð á sviði samkeppnismála með það að markmiði að styrkja samkeppni innan lands, tryggja stöðu neytenda betur í nýju umhverfi viðskipta og efla alþjóðlega samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Um tækifæri til umbóta á sviði neytendaverndar verður nánar fjallað í tillögu til þings­ályktunar um stefnu stjórnvalda í neytendamálum sem lögð verður fram á vorþingi 2024, ásamt heildarendurskoðun markaðssetningarlaga sem er rammalöggjöf á sviði neytendaverndar. Unnið verður að því að létta reglubyrði, auka skýrleika, tryggja bætt samræmi við EES-rétt, auka neytendavitund og tryggja trausta neytendavernd. Áfram verður einnig unnið að endur­skoðun á stofnanaumgjörð á sviði neytendaverndar með það að markmiði að bæta skilvirkni og eftirlit í þágu heildarhagsmuna neytenda.

Helstu tækifæri til umbóta á sviði fjármálaeftirlits liggja í bættu stafrænu aðgengi eftirlitsskyldra aðila að upplýsingum um gildandi lög, verklagsreglur og jafnframt í aukinni skilvirkni og samþættingu í upplýsingagjöf til eftirlitsskyldra aðila. Nýtt regluverk hefur í för með sér áskoranir fyrir allt fjármálakerfið og eftirlit með því. Þær áskoranir fela jafnframt í sér tækifæri til umbóta í fjármálaeftirliti líkt og m.a. bent var á í nýafstaðinni úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mikilvægt er að Fjármálaeftirlit hafi áfram nægilegt bolmagn til að viðhafa fullnægjandi eftirlit og standa undir auknum kröfum.

Í íslensku atvinnulífi eru fjölmargar áskoranir þegar kemur að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Tryggja þarf að kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja verði jöfn og að fleiri konur veljist sem æðstu stjórnendur. Hvað varðar markaðseftirlit sérstaklega má almennt segja að það taki með jöfnum hætti til kynjanna en gæta þarf þess við undirbúning lagasetningar og annarrar reglusetningar að horft verði til jafnréttissjónarmiða við útfærslu og að ekki halli á eitt kyn umfram önnur.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Aukið gagn­sæi, virk sam­keppni og heil­brigðir viðskipta­hættir fjár­mála- og við­skipta­lífs.

10.5, 8, 9

Meðaltal VLF og reiknaðs ábata vegna ákvarðana Samkeppniseftirlitsins sl. tíu ár[1][2].

0,5%

0,5%

0,5%

12

Aukning í fjölda á innköllun ólöglegrar vöru á markaði.

16[3]

18

20

[1] Gert er ráð fyrir því að reiknaður ábati vegna ákvarðana Samkeppniseftirlitsins verði reiknaður reglulega í samræmi við aðferðafræði OECD.
[2] Unnið er að því að gera mælingar á reiknuðum ábata vegna samkeppniseftirlits nákvæmari og kann sú vinna að leiða til þess að gerðar verði á síðari stigum breytingar á mælikvarðanum og viðmiðum sem sett eru. Þá er verið að þróa mælikvarða sem mælir þekkingu almennings og fyrirtækja á samkeppnisreglum og samkeppniseftirliti en aukin þekking er til þess fallin að auka skilvirkni og efla traust.
[3] Í eftirliti Neytendastofu með ólöglegri vöru á markaði hefur Neytendastofa heimild til að innkalla vöru sem er ólöglega sett á markað þar sem hún uppfyllir ekki ákveðin skilyrði fyrir að vera sett á markað. Viðmiðunartalan 16 fyrir árið 2022 vísar til þess að árið 2022 voru 16 innkallanir á ólöglegri vöru á markaði. Markmiðið til næstu ára er að hækka þetta hlutfall, í 18 innkallanir fyrir árið 2024 og í 20 innkallanir á árinu 2028. Mælikvarðinn snýr að betra og virkara eftirliti með ólöglegri vöru á markaði, þar sem brýnt er að innkalla eins mikið af þeirri vöru og hægt er.

Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum