Hoppa yfir valmynd
16. september 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þingmálaskrá mennta- og menningarmálaráðherra

Þingmálaskrá mennta- og menningarmálaráðherra á 144. löggjafarþingi 2014-2015

RN_01_IllugiGunnarsson

Þingmálaskrá Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra á 144. löggjafarþingi 2014 - 2015. Þingmálaskrá ríkisstjórnar í heild er á vef Stjórnarráðs Íslands.


Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Fram kemur hvort ætlunin er að leggja mál fram að hausti eða vori. Flutt kunna að verða fleiri frumvörp en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra frumvarpa.

1.      Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla (rafræn námsgögn o.fl.)

Í frumvarpinu eru tillögur um breytingu á ákvæðum gildandi laga um gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna og tímabundna heimild framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda af nemendum auk innheimtu gjalda í kvöldskóla og fjarnámi, rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launuð námsorlof og viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla og afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskólabyggingar án kvaða eða gjalda

Lagt fram í annað sinn. Áður lagt fyrir á 143. löggjafarþingi. (Haust).

2.      Frumvarp til laga um breyting á kvikmyndalögum, nr. 137/2001 (ESA: viðeigandi ráðstafanir)

Tilgangur lagabreytinga er að styrkja framleiðslu og dreifingu íslenskra kvikmynda. Ennfremur að styrkja framleiðslu og dreifingu kvikmynda sem eru á íslensku eða hafa skírskotun til íslenskrar menningar sem unnar eru og kostaðar af aðilum með skráð aðsetur í EES ríki.

Lagt fram í fyrsta sinn. (Haust).

3.      Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (höfundaréttargjald á stafræna geymslumiðla)

Lagðar eru til breytingar á 11. gr. laganna sem miða að því að settar verði skýrar reglur um heimild einstaklinga til eintakagerðar eftir birtum verkum til einkanota eingöngu.

Lagt fram í fyrsta sinn. (Haust).

4.      Frumvarp til laga um örnefni

Markmið laganna er að stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða í landinu sem hluta af íslenskum menningararfi og tryggja að honum verði viðhaldið handa komandi kynslóðum, að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju, að ný örnefni séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð og að samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna þannig að ferli nafngifta sé opið, gagnsætt og skilvirkt.

Lagt fram í þriðja sinn. Áður lagt fram á 142. og 143. Löggjafarþingi (Haust).

5.      Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (tilskipun 2011/77/ESB um breytingu á tilskipun 2006/116/EB: lenging verndartíma hljóðrita)

Frumvarpið snýst um að höfundaréttur að tónverki með texta, þar sem bæði texti og tónverk eru samin sérstaklega fyrir hlutaðeigandi tónverk með texta, helst uns 70 ár eru liðin frá andlátsári þess sem lengst lifir af tilteknum aðilum. Þá er verndartími hljóðrita lengur úr 50 árum í 70 ár.

Lagt fram í fyrsta sinn. (Haust).

6.      Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (tilskipun 2012/28/ESB: afnot munaðarlausra verka)

Um er að ræða lagabreytingar vegna tilskipunar um tiltekin leyfileg afnot á munaðarlausum verkum. Munaðarlaus verk eru þau verk nefnd sem njóta verndar höfundaréttar en höfundur þeirra er óþekktur eða ekki vitað hvar hann heldur sig og því ekki unnt að leita heimildar hjá þeim til nota verkanna.

Lagt fram í fyrsta sinn. (Haust).

7.      Frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (kæruleiðir, valdmörk, einkarekstur)

Tilefni og tilgangur frumvarpsins er í fyrsta lagi að leitast við að skýra betur valdmörk ráðuneyta sveitarstjórnarmála annars vegar og fræðslumála hins vegar hvað varðar kæruleiðir vegna ákvarðana sem teknar eru í grunnskólum á vegum sveitarfélaga og lúta að réttindum eða skyldum einstakra nemenda. Í öðru lagi er fjallað um skilyrði þess að sveitarfélag feli rekstur grunnskóla í hendur einkaaðila. Í þriðja lagi er lögð til orðalagsbreyting þannig að fjallað er um skólaþjónustu í stað sérfræðiþjónustu í ýmsum ákvæðum laganna. Í fjórða lagi er með frumvarpinu lögð til breyting á orðalagi.

Lagt fram í fyrsta sinn. (Haust).

8.       Frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda, nr. 87/2008 (endurskoðun)

Frumvarpið felur í sér endurskoðun á lögunum í samræmi við þau markmið sem fram koma í hvítbók mennta- og menningarmálaráðherra um umbætur í menntun.

Lagt fram í fyrsta sinn. (Haust).

9.       Endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992 (ný heildarlög)

Stefnt er að endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna veturinn 2014 – 2015 og nýtt frumvarp verður lagt fram til kynningar að vori.

10.   Frumvarp til sviðslistalaga

Samkvæmt frumvarpinu er markmið laganna að efla íslenskar sviðslistir, kveða á um skipan og fyrirkomulag og búa þeim hagstæð skilyrði. Með sviðslistum er átt við leiklist, listdans, óperuflutning, brúðuleik og skylda liststarfsemi sem heyrir ekki undir lög um aðrar listgreinar.

Lagt fram í þriðja sinn. Áður lagt fram á 140. og 141. löggjafarþingi.

11.   Frumvarp til laga um tónlistarskóla (fjárstuðningur ríkisins)

Helsta markmið frumvarpsins er að sett verði ný heildarlög um starfsemi tónlistarskóla sem starfa samkvæmt frumvarpinu og um samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum. Í frumvarpinu er kveðið á um starfsemi tónlistarskóla með mun skýrari hætti en í gildandi lögum. Þá er sérstaklega mælt fyrir um að sjálfstætt starfandi tónlistarskólar eigi rétt á viðurkenningu ráðuneytis og gert ráð fyrir tilteknum lágmarkskröfum um efni þjónustusamnings milli slíkra skóla og sveitarfélaganna.

Lagt fram í fyrsta sinn. (Haust).

12.  Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972 (endurskoðun höfundalaga)

Frumvarpið er áfangi í heildarendurskoðun höfundalaga sem hófst árið 2009. Að þessu sinni eru lagðar til breytingar á 1. kafla höfundalaga.  

Lagt fram í fyrsta sinn. (Haust).

13.  Frumvarp til laga um nýja stofnun á sviði menntamála (brottfelling laga um Námsmatsstofnun, nr. 168/2000 og breyting laga um námsgögn, nr.  71/2007)

Með frumvarpinu er búin til ný stofnun á grunni Námsmatsstofnunar og Námsgagnastofnunar.

Lagt fram í fyrsta sinn. (Haust).

14.  Engin tillaga til þingsályktunar fyrirhuguð.

15.  Skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra um framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum, skólaárið 2008 – 2009, 2009 – 2010 og 2010 - 2012. (Haust)




 

 



.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum