Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Um stöðu háskóla og umræður um sameiningu þeirra

Í tilefni af umfjöllun í fjölmiðlum um hugsanlega sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Bifröst og Hólaskóla – Háskólans á Hólum

Í tilefni af umfjöllun í fjölmiðlum um hugsanlega sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Bifröst og Hólaskóla – Háskólans á Hólum er rétt að eftirfarandi komi fram:

Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur nú að stefnumótun um háskóla og vísindastarfsemi og hugsanlega verða á grundvelli hennar mótaðar tillögur um breytingar á háskólakerfinu á Íslandi með áherslu á öfluga, framsækna og samþætta háskólastarfsemi, aukin gæði og bætta nýtingu fjármuna.

Margvíslegar úttektir og skýrslur frá liðnum árum ásamt ítarlegum greiningum er meðal þess sem lagt er til grundvallar. Má þar t.d. nefna skilagrein nefndar menntamálaráðherra um fýsileika sameiningar Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands frá 2009, úttektarskýrslur og ábendingar Ríkisendurskoðunar, úttektarskýrslur Gæðaráðs háskólastigsins, ábendingar frá fjárlaganefnd Alþingis um málefni háskólanna, tillögugerð hagræðingarnefndar ríkisstjórnarinnar, stefnumótun og áherslur Vísinda- og tækniráðs auk ýmissa úttekta erlendra sérfræðingahópa. Greina má tiltekinn samhljóm og skilaboð í þessum gögnum þegar kemur að skipulagi háskólakerfisins hér á landi, sem mikilvægt er að tekið verði tillit til við stefnumótun til framtíðar.

Í nágrannalöndum hefur verið gripið til markvissra aðgerða til að skapa sterkari og samkeppnishæfari einingar. Miklar og vaxandi  kröfur eru gerðar til háskólaumhverfisins, sem fela í sér miklar áskoranir einkum fyrir fámennar stofnanir. Að mati Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra var nauðsynlegt að ráðast í þessa úttekt til þess að fá mat á stöðu háskólakerfisins, hægt væri að setja það í alþjóðlegt samhengi, meta þróunina sem hefur verið á síðustu áratugum og meta þá stöðu sem íslenski háskólar  eru í núna hvað varðar fjármagn, gæði kennslu og fleira. Hluti af þessari vinnu er einnig að athuga stöðu minni skólana og hvaða möguleikar eru á að efla þá.

Ráðherra telur að það sé nauðsynlegt að kanna vel hvort með auknu samstarfi, samrekstri eða sameiningu megi efla rannsókna- og kennslustarfsemi þessara háskólastofnana og þar með efla eða styrkja þær byggðir þar sem þessar stofnanir eru staðsettar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum