Bókasýningin í Frankfurt 2011
Sögueyjan Ísland

Bókasýningin í Frankfurt 2011

Ísland verður heiðursgestur á Bókasýningunni í Frankfurt, stærstu bókasýningu heims, árið 2011 og er Ísland fyrst Norðurlanda til þess að hljóta þennan heiður. Á sýningunni gefst heiðursgestinum tækifæri til að kynna sögu sína og sjálfsmynd, menningu og bókmenntir fyrir árvökulum augum umheimsins. Megináhersla er lögð á að kynna íslenska bókmenningu og bókmenntir og er það meðal annars gert með höfundarkynningum í Þýskalandi. Nú þegar hefur verið samið við þýsk bókaforlög um útgáfu á meira en 100 íslenskum titlum.

Tækifæri til menningarsamstarfs gefst einnig á öðrum sviðum. Efnt verður til myndlistarsýninga, ljósmyndasýninga, tónleika og kvikmyndadagskrár í samráði við þýskar menningarstofnanir. Öll samstarfsverkefnin byggja á samræðu og samstarfi á milli íslenskra og þýskra fyrirtækja og stofnana. Gert er ráð fyrir að mikill fjöldi þýskra fjölmiðla heimsæki Ísland í tengslum við verkefnið fram til haustsins 2011 og að birtar verði hundruðir greina og þátta um Ísland í þýskum fjölmiðlum af þessu tilefni.

Verkefnið Sögueyjan Ísland heldur úti heimasíðu á þremur tungumálum, www.sagenhaftes-island.is, og er þar að finna stærsta gagnagrunn sem til er um íslenskar bókmenntir. Fréttabréf á þremur tungumálum er sent út reglulega á þúsundir áskrifenda um allan heim.


 
Senda grein