Hoppa yfir valmynd

23 Sjúkrahúsþjónusta

Heilbrigðisráðuneytið

Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð heilbrigðisráðherra. Það skiptist í þrjá mála­flokka sem sjá má í eftirfarandi töflu ásamt fjárhagslegri þróun þeirra og málefna­sviðsins í heild á tímabilinu 2022–2024.

Heildarútgjöld

Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er hin sama og á öðrum málefnasviðum heilbrigðis­ráðu­neyt­isins, að íslensk heilbrigðisþjónusta sé á heimsmælikvarða og að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir sé hluti af allri þjónustu. Árangur heilbrigðisþjónustunnar er metinn með því að mæla gæði þjónustunnar, öryggi hennar, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar. Framtíðarsýn um stafræna framþróun í heilbrigðisþjónustu lýsir því að íslenskur almenn­ingur hafi tækifæri til að styrkja og viðhalda eigin heilbrigði með stafrænum lausnum í öruggu og samtengdu upplýsingaumhverfi. Staða Landspítalans sem stærstu heil­brigðis­­stofn­unar landsins verður styrkt og sérstök áhersla er á að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu og bráðadeildar. Áætlanir gera ráð fyrir að fyrsta áfanga Nýs Landspítala verði lokið í lok árs 2028 með nýjum meðferðarkjarna og rannsóknahúsi, auk bílastæða- og tæknihúsi og bíla­kjallara undir Sóleyjartorgi. Nýjar byggingar bæta aðstöðu sjúklinga og starfsfólks til muna, auk þess sem öryggi og aðbúnaður sjúklinga eykst verulega, m.a. með eins manns herbergjum. Undirbúningur annars áfanga hefst á tíma fjármálaáætlunar og er frum­athugun fyrir nýja geðdeildarbyggingu fyrsta verkefnið.

Meginmarkmiðið er að veitt sé örugg, aðgengileg og hagkvæm heilbrigðisþjónusta þar sem sjúklingum er tryggð greið leið að réttri þjónustu á réttum stað. Markmiðið er að setja þarfir einstaklingsins í forgrunn og einfalda dagleg störf heilbrigðisstarfsfólks með því að styrkja stafræna upplýsingagrunna sem ganga þvert á heilbrigðiskerfið ásamt því að tryggja öryggi og gæði. Þjónustutengd fjármögnun samkvæmt flokkunarkerfi DRG verður innleidd í auknum mæli. Á árinu 2023 voru stigin afgerandi skref við innleiðingu hennar og eru bæði Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri fjármögnuð í auknu mæli í gegnum samning um þjónustutengda fjármögnun við Sjúkratryggingar. Á næstu misserum verður unnið að því að bæta sjúkra­sviðum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni við þessa tegund fjármögnunar sem tryggir gagnsæi hennar og endurspeglar raunverulegt umfang sjúkrahúsþjónustu. Auk þessa verða settir upp miðlægir bið­listar og tryggt að þjónusta sé veitt innan tiltekins ásættanlegs biðtíma. Aðgengi allra lands­manna að sérfræðiþjónustu verður bætt.

Fjármögnun

Helsta útgjaldabreyting málefnasviðsins snýr að framkvæmdum við nýjan Landspítala. Áætlað er að framkvæmdir við nýbyggingarnar standi yfir til 2028. Einnig verður haldið áfram vinnu við nýtt legudeildarhúsnæði við Sjúkrahúsið á Akureyri og viðbyggingu við endurhæf­ingar­deild Landspítalans á Grensási. Í meðfylgjandi töflu má sjá fjárheimildir málefnasviðsins til næstu fimm ára og áætlaða skiptingu þeirra í rekstur og tilfærslur annars vegar og fjárfest­ingu hins vegar.

Útgjaldarammi

Helstu áherslur 2025–2029

Aðgengi, gæði, hagkvæmni

23.1 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta

Verkefni

Landspítalinn er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús. Sjúkrahúsið á Akureyri er kennslu­sjúkrahús og varasjúkrahús Landspítala. Hlutverk þeirra er að veita heilbrigðis­þjón­ustu sem á hverjum tíma samræmist skyldu slíks sjúkrahúss, m.a. sérfræðiþjónustu í nær öllum viðurkenndum greinum læknisfræði, hjúkrunarfræði og eftir atvikum öðrum greinum heil­brigðisvísinda sem stundaðar eru hér á landi, með aðgengi að stoðdeildum og rannsóknar­deildum. 

Helstu lög sem gilda um málaflokkinn eru lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Helstu áskoranir

­­Á Íslandi eru tvö sjúkrahús sem veita sér­­hæfða sjúkrahúsþjónustu. Annað þeirra, Land­spítali, er meginbráðasjúkrahús landsins auk þess að veita margs konar þjónustu sem ekki er hægt að fá annars staðar á landinu. Ýmsar áskoranir felast í því að standa vörð um sérhæfðu þjónustuna stofnananna og tryggja tímanlegt aðgengi að mikilvægri heilbrigðisþjón­ustu. Að mæta aukinni eftirspurn og þörf fyrir sérhæfða þjónustu er áskorun sem orsakast af öldrun þjóðarinnar, aukningu í lífstílstengdum sjúkdómum, fólksfjölgun og fleiri ytri áhrifa­þáttum. Mönnun í heil­brigðis­þjón­ustunni er hér sem annars staðar ein af stærstu áskorununum á málefna­svið­inu. Sjá nánar í fjármálaáætlun 2023–2027 um helstu áskoranir vegna mönnunar. Því þarf að fylgjast með mælikvörðum sem tengjast mönnun og álagi sem hefur áhrif á öryggi heilbrigðis­þjónustu. 

Breytt aldurssamsetning þjóðarinnar á næstu árum er áskorun fyrir sjúkrahúsþjónustu. Sjá nánari umfjöllun um áskoranir í fjármálaáætlun 2023–2027. Í kjölfar heimsfaraldurs hefur þörf fyrir sérhæfða geðheilbrigðis­þjónustu fyrir alla aldurshópa aukist. Nauðsynlegt er að fylgja eftir árangri átaksverkefna um styttingu biðtíma í sérhæfða geðheilbrigðis­þjónustu og ná við­miðunar­­mörk­um embættis landlæknis um biðtíma eftir heilbrigðis­þjónustu.

Ofbeldi gegn konum er útbreiddasta mannréttindabrot í heimi og heimilisofbeldi er ein stærsta ógn við lýðheilsu kvenna. Einnig nær heimilisofbeldi til margra viðkvæmra hópa sam­félagsins. Því er mikilvægt að heilbrigðiskerfið sé í stakk búið að veita viðeigandi þjónustu þegar þolendur og gerendur leita þangað. Einnig er mikilvægt að börn sem búa á ofbeldis­heim­­ilum fái þann stuðning sem þeim ber lögum samkvæmt, t.a.m. lögum um samþættingu þjón­ustu í þágu farsældar barna.

Önnur áskorun felst í að tryggja aðgengi að viðeigandi þjónustuúrræðum fyrir þá einstakl­inga sem lokið hafa meðferð á stofnunum og mæta þörfum einstaklinga á viðeigandi þjónustu­stigi. Verulega hefur verið bætt í þá þjónustu, sjá nánari umfjöllun í köflum um málefna­svið 24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa og 25 Hjúkrunar- og endurhæfingar­þjónusta.

Veikindahlutfall af greiddum stöðu­gildum er hærra hjá konum en körlum, bæði í dagvinnu og vaktavinnu, en konur eru tæplega 80% starfsmanna spítalanna. Í heimsfaraldri jókst veik­inda­­­hlutfall á Landspítala úr 8,5 í 10,1% milli árana 2021 og 2022 en lækkaði aftur á árinu 2023 niður í 9%. Starfsmannavelta er svipuð á milli áranna 2021, 2022 og 2023 eða um 15%. Stór hluti þeirra sem starfa í heil­brigðisþjónustu er konur, hvort sem um er að ræða sér­menntað eða ófaglært starfsfólk. Vel þekkt er umræðan um streitu og kulnun­ meðal stórra stétta eins og hjúkrunarfræðinga sem tengist áhættuþáttum í starfsumhverfi þeirra eins og mönnun, stjórnun og samskiptum. Önnur ólaunuð störf sem konur sinna í meira mæli en karlar og tengjast umönnun barna og heimilis koma til viðbótar og líklegt er að það skýri hærra veik­indahlutfall meðal kvenna sem starfs­manna sérhæfðu sjúkrahúsanna. Sjá nánar umfjöllun í stöðu­skýrslu um kort­lagn­ingu kynja­sjónarmiða fyrir 2022.

Tækifæri til umbóta

Til þess að standa vörð um sérhæfingu og viðbragð sérgreinasjúkrahúsa og mæta aukinni þjónustuþörf þarf að tryggja að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og innan þeirra faglegu tímamarka sem við setjum okkur. Unnið hefur verið að tilfærslu á þjónustu í ákveðnum aðgerðaflokkum frá Landspítala til annarra þjónustu­­veitenda, bæði opinberra og einkaaðila. Slíkri útvistun er ætlað að auka öryggi og skilvirkni kerfisins án þess að gæðum sé ógnað. Jafnframt hefur auknu fjármagni verið veitt til Sjúkratrygginga Íslands í samninga um valda aðgerðaflokka, t.d. liðskipta­aðgerða og til sjúkrahúsa þar sem bið er eftir heilbrigðis­þjónustu, sjá nánari umfjöllun í málaflokki 24.2. Slík viðbót er að skila þeim ávinningi að styttri bið er eftir val­aðgerðum á sjúkrahúsum sem ekki eru bráðar og því mikil­vægt að halda áfram slíkri styrkingu. ­­Á vegum ráðu­neytisins er unnið að greiningu og framtíðarsýn hjúkrunar- og lækna­mönnunar fyrir landið í heild og áhrifum tækninýjunga á borð við gervigreind á mönnun heil­brigðis­þjónust­unnar.

Í samstarfi heilbrigðisráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis er unnið að verkefnum til eflingar menntunar heil­brigðis­­­­stétta og fjölgunar nemenda í námi í heilbrigðisgreinum bæði á framhaldsskólastigi og háskóla­stigi.

Samhliða hefur verið hafið samstarf við mennta- og barnamálaráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um eflingu menntunar heilbrigðis­stétta, m.a. með uppbyggingu á færni- og hermisetrum. Jafnframt vinna þessi ráðuneyti að því að fjölga í námi í ákveðnum heilbrigðisgreinum samkvæmt skilgreindri forgangs­röðun sem er í takt við tillögur landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðis­þjónustu. 

Til að tryggja sem best aðgengi, gæði, öryggi og hagkvæmni þjónustunnar þarf að skoða hvernig auka megi samvinnu milli sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana, heilsugæslu og annarra þjónustu­­­­veitenda enn frekar og samnýta þekkingu og hæfni heilbrigðisstarfsmanna.

­Unnið hefur verið að fjölda umbóta í kjölfar skýrslu verkefna­stjórnar um bráðaþjónustu og gerð var könnun á viðhorfi íbúa landsbyggðarinnar til bráða­þjónustu í heimabyggð og að mati íbúa er bætt mönnun talin mikilvæg.

Hjá ráðuneytinu og embætti landlæknis er verklag um utanumhald og birtingu biðlista til heildarendurskoðunar og er tilgangurinn að auka gagnsæi og yfirsýn. Fyrsta skrefið er birting rauntímayfirlits um liðskiptaaðgerðir sem nú er aðgengilegt á vef embættisins. Skilvirk raun­tíma­­­gagna­öflun er stuðningur við ákvarðanatöku. Til framtíðar er svo stefnt að því að inn­leiða sambærilegt ­yfirlit fyrir fleiri þjónustuflokka, s.s. geðheilbrigðisþjónustu og ýmsa endurhæf­ingar­þjónustu. 

 Unnið hefur verið að eflingu á þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu með tímabundnu fjár­fram­lagi til þriggja ára ­­sem miðar að því að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfar­aldurs. Fjárframlagið nýtist til að styrkja mönnun og hefur leitt til verulegrar styttingar á biðtíma á göngudeildum geðsviðs og barna- og unglinga­geðdeild Landspítala.

Samræmt verklag í heilbrigðisþjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis verður innleitt á allar heilbrigðisstofnanir landsins vorið 2024. Jafnframt vinnur Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsu­gæslu nú í samstarfi við 112.is að gerð fræðsluefnis sem ætlað er að tryggja við­kvæmum hópum sem búa við kynbundið ofbeldi við­eigandi heilbrigðis­þjónustu á réttum stað. Tilrauna­verkefni eru í gangi varðandi sálfræði­þjónustu við sakborninga í kynferðisbrota­málum en finna þarf þjónustunni framtíðarlausn. Verkefnin eru m.a. í samræmi við markmið ríkis­stjórn­ar­­sáttmálans um mark­vissar aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi, við sjónar­mið sem sett eru fram í Istanbúl-­samningnum, heimsmark­mið Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti kynj­anna, þings­ályktun um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og í samræmi við skuldbind­ingar stjórn­valda í átaksverkefninu Kynslóð jafnréttis.

Uppbygging húsnæðis Landspítala við Hringbraut er stærsta beina fjárfestingarverkefni rík­isins frá upphafi. Í fjármálaáætluninni er líkt og í fjármálaáætlun 2024–2028 gert ráð fyrir nauðsynlegum fjárveitingum til uppbyggingar fyrsta áfanga og er meðferðarkjarninn stærsta byggingin. Auk meðferðarkjarna er nýtt sjúkrahótel, rannsóknahús, og bílastæða- og tæknihús hluti af fyrsta áfanga verkefnisins, að meðtöldum nauðsynlegum framkvæmdum við götur, veitur og lóð. Í fyrsta áfanga er einnig gert ráð fyrir nauðsynlegum kaupum á tækjum og búnaði í byggingarnar. Einnig er gert ráð fyrir þróun í upplýsingatækni í nýjan spítala. Í upp­byggingu Landspítala og tengdri þjónustu felast tækifæri í aukinni notkun heilbrigðistækni og aukinni stafrænni þróun. Sam­þætt og öflug rafræn kerfi og gagnagrunnar eru forsenda þess að tæknin nýtist við úrlausn fram­­­tíðar­­­áskorana, tengdum mönnun, notendamiðaðri þjónustu, upplýsinga­gjöf og samvinnu. Undirbúningur annars áfanga uppbyggingar við Hringbraut er hafinn með frumathugun á húsnæði fyrir geðdeild sjúkrahússins. Verkefnið er fjármagnað í fjármála­áætlun. ­­­­­­­­Haldið verður áfram undirbúningi að framkvæmdum við nýtt legudeildar­húsnæði við Sjúkrahúsið á Akureyri og stækkun endurhæfingardeildar Grensáss er nú á framkvæmdastigi­. Þessar framkvæmdir skipta máli svo hægt sé að veita betri og öruggari þjónustu í takt við nýja tækni og þekkingu, auk þess sem aðbúnaður starfsfólks og sjúklinga verður betri. 

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir málaflokksins eru eftir sem áður mönnun. Sjá nánari umfjöllun um áhættuþætti bls. 328 í fjármálaáætlun 2024–2028.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Efla mönnun.

3.d

Starfsmannavelta:

a) LSH b) SAk.

a) 15%

b) 11%

a) 13%

b) <7%

a) 12%

b) <7%

3.d

Veikindafjarvistir – allir starfsmenn:

a) LSH b) SAk.

a) 9%

b) 9%

a) 6%

b) <6%

a) 6%

b) <5%

3

Hlutfall hjúkrunarfræðinga á

bráðalegudeildum LSH.

47%

60%

70%

Sjúklingar fái heilbrigðisþjónustu

á réttu þjónustustigi.

3

Hlutfall rúma á bráðalegu-deildum fullorðinna (ásamt Landakoti) á LSH sem eru upptekin vegna sjúklinga sem bíða úrræða utan spítala (staða í lok árs).

a) LSH b) SAk.

a) 29% b) 17%

5%

2%

3

Bið á bráðamóttöku LSH. Hlutfall innlagna < 6 klst. frá því að innlögn var ákveðin.

21%

70%

80%

3

Heildarreynsla sjúklinga LSH af síðustu innlögn (0–10).

8,3

8,5

9,0

Að sjúklingar í brýnni þörf fái heilbrigðisþjónustu innan ásættanlegs biðtíma.

3.8

Hlutfall þeirra sem beðið hafa

eftir liðskiptum skemur en 90 daga: a) LSH b) SAk.

a) 27%

b) 54%

a) 50%

b) 70%

a) 80%

b) 80%

3.8

Heildarfjöldi liðskiptaaðgerða (ekki bráðaaðgerðir) á hné og mjöðm á sérgreinasjúkrahúsum:

a) LSH b) SAk.

a) 587

b) 297

a) 600

b) 300

a) 660

b) 340

3.4

Fjöldi barna sem hafa beðið lengur en þrjá mánuði

eftir þjónustu á BUGL.

0

0

0

           

Markmið tvö breytist á þann hátt að nú er einnig birtur mælikvarði fyrir Sjúkrahúsið á Akur­eyri. Í markmiði þrjú breyttist mælikvarði tvö á þann hátt að bætt var við í sviga (ekki bráða­aðgerðir) en fram að því höfðu allar liðskiptaaðgerðir verið taldar með en nú verður einungis horft á liðskipta­aðgerðir sem ekki eru bráðar, svokallaðar biðlista­aðgerðir. Hægt er að fylgjast með framkvæmd aðgerða og þróun biðlista á sérstöku mælaborði um liðskiptaaðgerðir sem er uppfært mánaðarlega.

23.2 Almenn sjúkrahúsþjónusta

Verkefni

Með almennri sjúkrahúsþjónustu er átt við almennar lyflækningar, göngudeildarþjónustu, sér­greinalækningar, eftir atvikum skurðlæknisþjónustu ef um skilgreindan fæðingarstað er að ræða, hjúkrun, slysamóttöku, endurhæfingu og nauðsynlega stoðdeilda­þjón­ustu. Almenn sjúkra­­­­­­­­­­­­húsþjónusta er veitt á heilbrigðisstofnunum í heilbrigðisumdæmum. Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri veita almenna sjúkrahúsþjónustu fyrir íbúa sem búa í viðkomandi heil­brigðisumdæmi en allar fjárveitingar til þessara tveggja stofnana eru undir málaflokki 23.1. Helstu lög sem gilda um málefnasviðið eru lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, og lög um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. 

Helstu áskoranir

Samkeppni er um vel menntað heilbrigðisstarfsfólk. Mikilvægt er að vinna áfram að því að gera nám heilbrigðisstétta aðgengilegt óháð búsetu og aðstæðum eins og fram kemur í áherslum stjórnarsáttmála því að slíkt eykur líkur á því að sérhæft starfsfólk nýti sína sér­þekk­ingu í heimabyggð. Á landsbyggðinni er mönnun sérstök áskorun og snýr hún helst að því að tryggja viðeigandi læknisþjónustu og aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Sjá einnig nánari um­fjöllun í málaflokki 23.1.

Önnur mikilvæg áskorun felst í skorti á viðeigandi þjónustuúrræðum utan sjúkrahúsa til að mæta þörfum einstaklinga sem lokið hafa meðferð á sjúkrahúsi eða þurfa á annarri meðferð eða umönnun að halda en boðið er upp á innan sjúkrahúsa. Þessum þætti eru gerð nánari skil á málefnasviðum 24 og 25.

Helsta áskorun í geðheilbrigðismálum er samþætting og samvinna milli þjónustustiga geð­heilbrigðisþjónustu sem veitt er tímanlega og mætir þörfum notenda um allt land með árangurs­­ríkum lausnum á réttu þjónustustigi. Að auki skortir upp á samvinnu þjónustustiga heil­­brigðisþjónustu við aðra velferðarþjónustu. Setja þarf í forgang að þróa og samþætta þjón­ustu­ferla í geðheilbrigðisþjónustu og er geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni og fólk með taugaþroskaröskun þar í forgangi. 

Slys og veikindi erlendra ferðamanna auka álag á heilbrigðisþjónustuna, s.s. heilsugæslu­þjónustu, bráðaþjónustu sjúkrahúsa og sjúkraflutninga. Nauðsynlegt er að styrkja innviði heil­brigðis­kerfisins til að þeir séu í samræmi við umfang þjónustunnar og er það í takti við áherslur í sátt­­mála ríkisstjórnarinnar.

Töluvert mikið vantar upp á að kyngreind tölfræðigögn heilbrigðisstofnana séu aðgengileg og vel uppfærð þar sem heilbrigðisstofnanir leggja mismikla áherslu á aðgengilegar upplýs­ingum á vefsíðum sínum. Mælaborð embættis landlæknis er í þróun en vonir standa til að þar verði að finna aðgengilegar upplýsingar um veitta þjónustu stofnana.

Tækifæri til umbóta

Til að jafna aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu þarf m.a. að nýta fjarheilbrigðistækni til að færa þjónustuna nær íbúum svæðisins í samræmi við tillögur starfshóps heilbrigðis­ráðu­neytisins um fjarheilbrigðisþjónustu, sbr. velsældaráherslur og stefnuáherslur ríkis­stjórnar. Þá er stefnt að því að sérhæfðu sjúkrahúsin færi, í samvinnu við heilbrigðisstofnanir, tiltekna þjón­ustu í auknum mæli nær íbúum í dreifðari byggðum.

Í fjárlögum 2024 var fjárheimild aukin um 800 m.kr. til sjúkrasviða heilbrigðisstofnana á lands­byggð­­inni. Áhrif heimsfaraldurs COVID-19 voru og eru margþætt og vörpuðu að ein­hverju leyti ljósi á að bæta þyrfti stöðu og viðbragð í sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni. Fjár­­­­­veitingunni er ætlað að styrkja sjúkrahús á landsbyggðinni til að sinna mikilvægri grunn­þjónustu í um­dæmum sínum og þannig létta álagi af Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Við lok árs 2023 var skrifað undir þjónustusamninga milli sérgreinasjúkrahúsanna Land­spítala og Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Austurlands um sam­starf sem tryggir þessum heilbrigðisstofnunum mönnun lykilstarfsfólks þar sem um er að ræða viðkvæm svæði með tilliti til reksturs heilbrigðisþjónustu þar sem langt er í sérhæfðar bjargir. Samningurinn er liður í því að styðja við öfluga sjúkrahúsþjónustu í dreifbýli. Starfs­hópur sem hafði það markmið að jafna aðgang að sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði óháð búsetu í gegnumákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna, sem kveður á um sértækar að­gerðir um ívilnun á sérstökum svæðum, hefur skilað ráðherra niðurstöðu og nú vinna Byggða­stofnun og Samband íslenskra sveitarfélaga að undirbúningi þess að unnt verði að beita íviln­unum skv. 28. gr. laga um menntasjóð námsmanna af hálfu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar­ráðuneytisins.

Með því að nýta nýsköpun, fjarheilbrigðisþjónustu og aðrar tækniframfarir eins og fram kemur í stjórnarsáttmála má tryggja aðgengi landsmanna óháð aldri, að sérhæfðri geðheil­brigðis­­­þjónustu, samfellu í þjónustu og samvinnu milli þjónustustiga. Sjá nánari umfjöllun um tækifæri til umbóta í fjármálaáætlun 2023–2027.

Til að efla stafræna heilbrigðisþjónustu er unnið að þróun og stefnumótun um stafrænar lausnir við veitingu heilbrigðisþjónustu. Hefur stýrihópur um þá vinnu verið skipaður en honum er ætlað að vera samráðsvettvangur og ráðuneytinu til ráðgjafar við mótun stefnu og framtíðarsýnar í málaflokknum. 

Bráðaþjónusta á öllu landinu hefur verið stiguð og tillaga að heildarskipulagi þjónustunnar sett fram sem auðveldar ákvarðanir og forgangsröðun við veitingu fjármagns. Fjarráðgjöf og vegvísun (1700) hefur verið efld og kynnt frekar sem hefur fækkað komum einstaklinga með vægari vandamál á bráðamóttökum um 15%. Nauðsynlegur búnaður vegna bráðaþjónustu hefur verið staðlaður og fjármagnaður sem hefur aukið gæði og öryggi í þjónustu á öllum ­stöðvum heilbrigðisstofnana. Gerðar hafa verið úrbætur á reglugerð sem flýtir fyrir og auð­veldar heilbrigðisstarfsmönnum utan Evrópska efnahagssvæðisins að fá starfsleyfi á Íslandi sem hefur hjálpað til við að tryggja mönnun í heilbrigðisþjónustu. Einnig hefur öryggi ferðamanna á vinsælum ferða­­mannastöðum kringum Öræfi verið bætt yfir álagstíma með stofnun sérstakrar við­bragðs­vaktar. Ýmsar byggingar sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana þarfnast endurbóta.­ FSRE (Fram­kvæmda­sýslan – Ríkiseignir) heldur m.a. utan um viðhald heilbrigðisstofnana. Töluverðar umbætur hafa t.d. verið gerðar á húsnæði Heilbrigðis­stofn­unar Suður­lands og Heilbrigðis­stofnunar Suður­nesja vegna vaxandi umfangs starfsemi samhliða brýnum viðhaldsverkefnum. Þá er endur­nýjun tækjakosts sjúkrahúsa viðvarandi verkefni sam­kvæmt skilgreindri þörf en endur­nýjun á stærri tækjum, t.d. mynd­greiningartækjum á heilbrigðis­stofnunum, hefur gengið vel undanfarin ár. ­

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir málaflokksins eru taldir tengjast getunni til að ráða viðeigandi starfs­fólk til starfa og halda því í starfi. Hnökrar í samvinnu, bæði innan stofnana (flæði starfs­fólks milli eininga) og utan, eru einnig þættir sem gætu hindrað árangur sem og forgangsröðun stjórnenda, bæði hvað varðar fjármagn og hvaða málefni hljóta brautargengi. Vax­andi þreng­ingar á fasteignamarkaði á landsbyggðinni gera heilbrigðis­stofn­unum á lands­byggðinni einnig erfitt fyrir að tryggja starfsfólki sem kemur til starfa um skemmri tíma húsnæði.

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Efla aðgang sjúklinga að skilgreindri sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á heilbrigðisstofnunum.

3.8

Hlutfall framboðs á almennri sérfræðiþjónustu til einstaklinga á heilbrigðis­stofnunum utan höfuðborgarsvæðis.

56%

80%

100%

Efla sérhæfða ráðgjafaþjónustu til stuðnings við fagaðila sem sinna börnum og unglingum í heimabyggð.

3.4

Heildarfjöldi mála í fyrsta eða annars stigs þjónustu sem fær sérhæfða ráðgjöf BUGL á samráðsvettvang.

1087

1100

960

Sjúklingar komist í liðskiptaaðgerðir innan ásættanlegs biðtíma miðað við viðmið embættis landlæknis.

3.8

Hlutfall þeirra sem beðið hafa eftir liðskiptum skemur en 90 daga á HVE.

68%

80%

80%

3.8

Heildarfjöldi liðskiptaaðgerða (ekki bráðaaðgerðir) á hné og mjöðm á HVE.

357

400

430

           

Til útskýringar vegna markmiðs tvö er rétt að geta þess að innleiðingu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna verður lokið 2029 og leiðir líklega til þess að færri börn þurfi annars stigs þjónustu árið 2029, því ætti heildarfjöldi mála sem fengi sérhæfða ráðgjöf BUGL á samráðsvettvangi að minnka. Í markmiði þrjú breyttist mælikvarði tvö á þann hátt að bætt var við í sviga (ekki bráðaaðgerðir) en fram að því höfðu allar liðskiptaaðgerðir verið taldar með en nú verður einungis horft á liðskipta­aðgerðir sem ekki eru bráðar, svokallaðar biðlistaaðgerðir. Hægt er að fylgjast með framkvæmd aðgerða og þróun biðlista á sérstöku mælaborði um liðskipta­að­gerðir sem er uppfært mánaðarlega.

23.3 Erlend sjúkrahúsþjónusta

Verkefni

Til erlendrar sjúkrahúsþjónustu telst sú heilbrigðisþjónusta sem veitt er erlendis og greitt er fyrir af Sjúkratryggingum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sjúkratryggingum er heimilt að greiða fyrir læknismeðferð erlendis sem ekki er unnt að veita hér á landi á grundvelli 23. gr. laga um sjúkratryggingar og þjónustu sem sjúkratryggður velur að sækja sér í öðru aðildar­ríki EES-samningsins, sbr. 23. gr. a laganna. Er nánar mælt fyrir um skilyrði fyrir greiðslu­þátt­töku í reglugerðum nr. 712/2010 og 484/2016. Þá gilda ákvæði reglugerðar Evrópuþings­ins og ráðsins nr. 883/2004, um almannatryggingar, einnig um rétt sjúkratryggðra til að sækja sér heilbrigðisþjónustu erlendis, svo sem þegar um er að ræða nauðsynlega heilbrigðis­þjón­ustu sem er ekki veitt á Íslandi innan tímamarka sem réttlæta má læknis­fræðilega. Að auki heyrir sjúkrakostnaður vegna veikinda og slysa erlendis undir málefna­sviðið, sbr. 33. gr. laga um sjúkratryggingar.

Helstu áskoranir

Löggjöf hér á landi og Evrópulöggjöf gera einstaklingum kleift að sækja þjónustu til annarra Evrópulanda ef bið hér á landi fer yfir ákveðin tímamörk í ljósi ástands sjúkl­ings og líklegri framvindu sjúkdóms. Slík tilfærsla á heilbrigðis­þjónustu milli landa getur haft umtals­verð áhrif á skipulag þjónustunnar hér á landi. Í ákveðnum aðgerðaflokkum, eins og t.d. efna­skiptaaðgerðum hefur verið töluverð aukning á því að sjúkl­ingar fari erlendis til aðgerða og fái til þess greiðslu­þátttöku frá Sjúkratryggingum Íslands. Liðskiptaaðgerðum erlendis hefur hins vegar fækkað um helming á síðasta ári eftir að þeim var fjölgað hérlendis. Greiðslu­heimild vegna biðtímareglugerðar heimilar greiðslu kostnaðar vegna aðgerð­anna og ferða­kostnað. Í ákveðnum tilfellum er einnig heim­ilað að greitt sé fyrir fylgdarmann. Áskor­unin felst í umsýslu og þeim óþægindum fyrir sjúklinginn að þurfa að leita sér þjónustu erlendis og fyrir ríkið sem í flestum tilfellum greiðir meira fyrir þjónustu sem veitt er erlendis heldur en ef hún væri veitt innan lands.

Umfang þjónustunnar getur verið mjög breytilegt milli tímabila og byggist á sértækum þörfum. Tilgreint er í lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, að þeir sem þurfa á heil­brigðis­­­­­­þjónustu að halda fái hana innan lands svo fremi sem gæði þjónustunnar og öryggi sjúklings sé sambærilegt því sem gerist erlendis. Ef þekking eða þjónusta er ekki fyrir hendi hér­lendis þarf aðgangur sjúklinga að slíkri þjónustu erlendis að vera tryggður.

Konur eru í meiri hluta þeirra sem sækja um læknismeðferð erlendis á grundvelli biðtíma­reglugerðar og 74% þeirra sem fá samþykkta umsókn eru konur. Munar þar mestu að fleiri konur sækja um efnaskiptaaðgerð erlendis en karlar. Þó virðist offita ekki vera algengari meðal kvenna en karla og ástæða er til að skoða orsök þessa munar á eftirspurn kynjanna eftir þjón­ustunni.

Tækifæri til umbóta

Til þess að bregðast við þeirri stöðu að einstaklingar þurfi að leita erlendis eftir heilbrigðis­þjónustu á grundvelli biðtímareglugerðar hefur heilbrigðisráðherra heimilað opinberum stofn­unum að útvista í auknum mæli aðgerðum til einkarekinna þjónustuveitenda innan lands og lagt áherslu á að í gildi séu samningar um sérgreinalæknaþjónustu og þær aðgerðir sem mikil bið er eftir. Er þá sérstaklega horft til aðgerða eins og liðskiptaaðgerða. Slík ráðstöfun er í takt við stefnuáherslur ríkisstjórnar í loftslagsmálum um minnkun kolefnisspors og er ætlað að auka hagkvæmni opinbers fjár. 

Sjúkratryggingar Íslands hafa undanfarin ár í samstarfi við sérgreinasjúkrahúsin unnið að þróunarverkefnum með samningum sem miða að því að flytja heim meðferð sem hefur ein­ungis verið veitt erlendis. Verkefni þessi hafa verið afar mikilvæg fyrir fagfólk og hafa aukið þekkingu og bætt starfsþróun þeirra. Þau auka einnig nýsköpun í íslensku heilbrigðis­kerfi. Í nokkrum tilfellum hafa svona samningar leitt til þess að sérfræðingar erlendis frá flytja til landsins. Mikilvægt er að styðja við nýsköpun sem þessa.

Í skýrslu McKinsey 2021 um framtíðarhlutverk Landspítala kemur fram að það skorti formlegt ferli við tilvísun sjúklinga erlendis, sérstaklega vegna biðtímamála. Tækifæri eru til umbóta með skipulagðri nálgun tilvísenda, greiðenda og innlendra þjónustuaðila þegar um er að ræða samþykki til meðferða erlendis.

Fyrirhugað er að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um sjúkratryggingar. Í frum­varpinu er lagt til að lögfesta heimild Sjúkratrygginga til að samþykkja greiðsluþátttöku þegar sjúkratryggður á ekki kost á meðferð hér á landi innan tímamarka sem réttláta má læknis­fræðilega, sé tekið mið af núverandi heilsufarsástandi og líklegri framvindu sjúkdóms, sbr. 20. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 883/2004 um samræmingu almannatrygginga­kerfa. Er talið til hagsbóta fyrir sjúkratryggða að kveðið sé um þennan rétt með skýrum hætti í lögum.

Áhættuþættir

Áhættuþættir tengjast helst forgangsröðun þegar kemur að því að meta hversu brýn með­ferðin er og hvernig hún raðast inn í áætlanir stofnana. Reynslan hefur auk þess sýnt að opinber umræða eða þrýstingur á stjórnvöld og stofnanir getur haft áhrif varðandi forgang og ráðstöfun fjármagns fyrir einstaka meðferðir eða sjúklingahópa. Unnið er að því að ná sam­vinnu þjón­ustu­veitenda um lausn sem tryggir ásættanlegan biðtíma eftir þjónustu, for­gangs­röðun sjúkl­inga sem eru í mestri þörf fyrir þjónustuna; og nauðsynlega mönnun í þjónustu sem veitt er af stofnunum sem jafnframt þurfa að manna bráðaþjónustu allan sólar­hringinn, alla daga ársins. 

Markmið og mælikvarðar

Markmið

HM

Mælikvarðar

Staða 2023

Viðmið 2025

Viðmið 2029

Aðgerðir sem áður voru gerðar erlendis á grundvelli biðtímareglugerðarinnar eru framkvæmdar hérlendis.

3.8

Fjöldi samþykktra umsókna um heilbrigðisþjónustu erlendis á grundvelli biðtímareglugerðar.

261

100

30

           
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum