Hoppa yfir valmynd
23. júní 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Innritun í framhaldsskóla landsins fyrir skólaárið 2008 - 2009

Innritun í framhaldsskóla landsins fyrir skólaárið 2008 - 2009 var með rafrænum hætti eins og undanfarin ár. Að þessu sinni sóttu um 4.426 nemendur úr 10. bekk grunnskóla um skólavist í framhaldsskólum á haustönn 2008.

Innritun í framhaldsskóla landsins fyrir skólaárið 2008 - 2009 var með rafrænum hætti eins og undanfarin ár. Bæði nemendur sem koma beint úr grunnskóla og eldri nemendur sóttu um með rafrænum hætti. Að þessu sinni sóttu um 4.426 nemendur úr 10. bekk grunnskóla um skólavist í framhaldsskólum á haustönn 2008. Þetta er rúmlega 95% árgangsins sem er heldur meiri aðsókn en síðasta ári þegar tæplega 92% árgangs sótti um nám. Flestar umsóknir bárust Verzlunarskóla Íslands og Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þessir skólar þurfa að vísa frá á sjötta hundrað nemendum sem höfðu valið þá sem fyrsta kost. Þeir eiga þó vísa vist í öðrum skólum þar sem áætlað pláss fyrir nýnema er nægilegt í framhaldsskólunum sé tekið mið af innritunartölum. Þó er þrengra um en á síðasta ári, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þá sóttu 4.100 eldri nemendur, sem annað hvort óska eftir að skipta um skóla eða hefja nám að nýju, um skólavist í dagskóla samanborið við um 3.250 nemendur á síðasta ári.

Afgreiðslu umsókna lauk fimmtudaginn 19. júní. Fái umsækjandi úr 10. bekk ekki inni í þeim skóla eða varaskólum sem hann valdi berst umsókn hans til ráðuneytisins sem þá leitar úrræða fyrir viðkomandi. Fjöldi slíkra tilvika var nú rúmlega 130 og hefur þorra þeirra nemenda sem svo er ástatt um þegar verið útveguð skólavist.

Upptaka rafrænnar innritunar í framhaldsskólana hefur valdið þáttaskilum. Hún auðveldar ráðuneytinu að fylgjast með eftirspurn nemenda eftir skólum og námsbrautum. Fyrr verður ljóst hverjar óskir nemenda eru og því auðveldara að bregðast við þeim. Jafnframt verður yfirsýn ráðuneytisins um námsframboð og eftirspurn mun skýrari og auðveldar því að rækja hlutverk sitt og tryggja þannig öllum nemendum skólavist.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum