Hoppa yfir valmynd
13. maí 2011 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Ríki og sveitarfélög efla tónlistarnám

Í dag var undirritað samkomulag á milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms

Ríki og sveitarfélög efla tónlistarnám 2011
Ríki og sveitarfélög efla tónlistarnám 2011

Helstu atriði:

  • Framlög aukin um 250 m.kr. til söngnáms á mið- og framhaldsstigi og hljóðfæranáms á framhaldsstigi.
  • Tónlistarnemar geta stundað nám óháð búsetu.
  • Sett verða ný lög um tónlistarskóla.


Í dag var undirritað samkomulag á milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms.

Markmið samkomulagsins er að efla tónlistarnám og gera tónlistarnemendum kleift að stunda nám sitt óháð búsetu. Með samkomulaginu tekur ríkissjóður yfir kostnað vegna kennslu í söngnámi á mið- og framhaldsstigi og hljóðfæranámi á framhaldsstigi. Felur aðkoma ríkisins í sér að framlög til málaflokksins aukast um allt að 250 m.kr. á ári og að sveitarfélögin tryggja að nemendur geti stundað nám sitt án tillits til búsetu.

Samkomulagið felur í sér að ríkissjóður veitir árlega framlag, alls 480 m.kr., vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum. Á móti skuldbinda sveitarfélög sig til að taka yfir ný verkefni frá ríki sem nemur 230 m.kr. Aukning á fjárframlögum til málaflokksins nemur því 250 m.kr. Viðræðunefnd á vegum ríkis og sveitarfélaga mun vinna að samkomulagi um tilfærslu verkefnanna og er stefnt að því að nefndin ljúki störfum fyrir 1. júlí næstkomandi.

Framlag ríkisins mun greiðast til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Munu sveitarfélögin tryggja að framlagið fjármagni kennslu þeirra nemenda sem eru innritaðir í viðurkennda tónlistarskóla og uppfylla nánari skilyrði sem sett verða í lögum um tónlistarskóla. Á grundvelli samkomulagsins tryggja sveitarfélögin einnig að nemendur sem uppfylla inntökuskilyrði tónlistarskóla og reglur um námsframvindu geti stundað tónlistarnám á framhaldsstigi í hljóðfæraleik og á mið- og framhaldsstigi í söng án tillits til búsetu. Mennta- og menningarmálaráðherra mun á komandi haustþingi leggja fram frumvarp til laga um tónlistarskóla þar sem ýmis atriði í samkomulaginu verða útfærð nánar. Samkomulagið felur einnig í sér að í reglugerð sem innanríkisráðherra setur verður kveðið á um stuðning jöfnunarsjóðs við tónlistarnám nemenda á grunn- og miðstigi í hljóðfæraleik og á grunnstigi í söng sem þurfa vegna framhaldsskólanáms eða af öðrum gildum ástæðum að innritast í tónlistarskóla utan síns sveitarfélags.

Samkomulagið gildir fyrir skólaárin 2011-2012 og 2012-2013. Kveðið er á um að ríki og Samband íslenskra sveitarfélaga skuli hefja viðræður um framlengingu og endurskoðun samkomulagsins við lok fyrra skólaársins.

Ríki og sveitarfélög efla tónlistarnám 2011

Samkomulagið var undirritað í tónlistarhúsinu Hörpu í hádeginu í dag. Fyrir hönd ríkisins var samkomulagið undirritað af Katrínu Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra.

Fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu samkomulagið Halldór Halldórsson, formaður stjórnar sambandsins og Guðríður Arnardóttir varaformaður.

Evropuar2005
Evropuar2005

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum