Hoppa yfir valmynd
21. júní 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Athugun á framboði list- og verkgreina í grunnskólum

Athugunin var liður í endurskoðun aðalnámskráa grunnskóla en fyrirhuguð er umfangsmeiri úttekt á þessum þáttum síðar á árinu.

Til skólastjóra

Menntamálaráðuneytið hefur nú lokið athugun á framboði list- og verkgreina í grunnskólum. Athugunin var liður í endurskoðun aðalnámskráa grunnskóla en fyrirhuguð er umfangsmeiri úttekt á þessum þáttum síðar á árinu. Spurningalisti var sendur 20 grunnskólum sem kenna 8. til 10. bekk, 13 á höfuðborgarsvæðinu og 7 á landsbyggðinni, og var þess gætt að skólar í sveit og þétttbýli, fámennir jafnt sem fjölmennir væru meðal þátttakenda. Spurningalistarnir voru sendir skólunum í byrjun janúar 2007 og óskað eftir svörum í janúarlok. Erfiðlega gekk að innheimta svör og var að lokum ákveðið að vinna úr könnuninni með hliðsjón af svörum frá 16 skólastjórum. Eftirfarandi eru helstu niðurstöður athugunarinnar.

Spurt var hvaða list- og verkgreinar væru kenndar í 8. bekk skólaárið 2006-2007 sem hluti af skyldunámi. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd þá eru heimilisfræði, myndlist, smíðar og textílmennt kennd í öllum þeim skólum sem svör bárust frá.

Spurt var hvaða námsgreinar væri boðið upp á sem valgreinar í 9. og 10. bekk skólaárið 2006-2007. Svarendur gátu merkt við tiltekna valkosti og/eða bætt við greinum eftir því sem við átti á hverjum stað. Í flestum tilfellum eru sömu valgreinar í boði bæði fyrir nemendur í 9. og 10. bekk. Meðfylgjandi mynd sýnir hve margir merktu við þá valkosti sem settir voru fram í spurningalistanum.

Að auki voru talin upp önnur námstilboð svo sem: Bókfærsla, bókmenntir, bridge, ferðamálafræði, félagsmálafræðsla, fjölmiðlun, framsögn, franska, glerlist, heimspeki, hestamennska, hraðlestur, jóga, knattspyrnuval, kvikmyndir, leirmótun, líkamsrækt, málmsmíðalist, raftækni, rokksaga, skák, skipulagt tómtundastarf, skrautskrif, stuttmyndagerð, stærðfræði, sænska, trúabragðafræði, tæknilegó, umferðarfræðsla, útgáfa skólablaðs, útivist, verslunargreinar, vísindi og þýska.

Einungis tveir skólastjórar sögðust ekki vera í samstarfi við aðra grunnskóla eða framhaldsskóla í tengslum við valnám. Langflestir sögðust vera í samstarfi við framhaldsskóla og þá oftast þann (eða þá) framhaldsskóla sem er landfræðilega næstur. Einnig nefndu tveir skólastjórar samstarf við aðra grunnskóla og var þá um að ræða samvinnu milli grunnskóla sem eru í sama sveitarfélagi.

Af þeim 16 skólastjórum sem svöruðu sögðust fimm bjóða valnám sem fælist í vinnu utan skólans en væri á vegum hans. Þar af tóku þrír fram að slíkt væri einungis ætlað fáum nemendum.

Í 14 af skólunum 16 er vinna nemenda og/eða tómstundastarf metið sem valgrein og í langflestum tilvikum er það íþróttaiðkun eða tónlistarnám sem metið er. Af þeim sem það gera og gefa upp fjölda nemenda sem nýta sér slíkt mat þá er fjöldinn nokkuð mismunandi milli skóla enda skólarnir misfjölmennir. Fjöldi nemenda í 9. bekk sem nýta slíkt mat er frá fjórum og upp í 22 og í 10. bekk frá einum og upp í 22. Einn skóli sker sig nokkuð úr en þar eru 72 nemendur í 9. bekk sem fá vinnu eða tómstundastarf metið og 46 nemendur í 10. bekk.

Í sex af skólunum 16 hafa verið gerðar áætlanir um breytingar á framboði og fyrirkomulagi valgreina í kjölfar lagabreytinganna sem gengu í gildi þann 1. janúar 2007. Dæmi um slíkar breytingar er að fyrirhugað er að meta vinnu nemenda í nemendaráði, reiðskóla, björgunarsveit og öðru tómstundastarfi.

Menntamálaráðuneytið þakkar skólastjórunum sem svöruðu fyrir greinargóð svör.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum