Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norrænn loftslagsdagur og keppni meðal nemenda um verkefni á sviði loftslagsmála

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin í Kaupmannahöfn í desember 2009
norrænn loftslagsdagur
nordiskklimadag138

Til leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin í Kaupmannahöfn í desember 2009 en þar munu Norðurlöndin kynna sameiginlegar aðgerðir um menntun til sjálfbærrar þróunar með áherslu á loftslagsmál. Í tengslum við ráðstefnuna hefur verið ákveðið að halda norrænan loftslagsdag 10. nóvember 2009. Markmiðið með deginum er meðal annars að auka þekkingu almennings á þeim loftslagsvanda sem heimurinn býr við, efla vitund nemenda um loftslagsvandann, auka möguleika til aðgerða og efla norræna samkennd.

Í tengslum við norræna loftslagsdaginn hefur verið ákveðið að efna til samkeppni um athyglisverð verkefni á sviði loftslagsmála á meðal barna í leikskólum og nemenda í grunn- og framhaldsskólum. Gert er ráð fyrir að verkefnin verði unnin í skólum ýmist í haust eða á sjálfan loftslagsdaginn. Einnig verður haldin stuttmyndasamkeppnin ,,REClimate", Kvikmyndir gegn loftslagsbreytingum, og hafa allir Norðurlandabúar á aldrinum 15-19 ára þátttökurétt. Tekið verður á móti myndum á tímabilinu 24. ágúst til 23. október 2009 á vefsíðunni: www.dvoted.net/reclimate. Vegleg verðlaun eru í boði. Nánari upplýsingar um keppnina eru í meðfylgjandi bréfi.

Með þessu bréfi vill menntamálaráðuneytið vekja athygli á norræna loftslagsdeginum 10. nóvember 2009 og keppni í tengslum við hann. Að loknu sumarfríi skóla mun ráðuneytið senda bréf með frekari upplýsingum um tilhögun loftslagsdagsins og þá samkeppni sem frá er greint hér að ofan. Ráðuneytið fer þess á leit við skólastjórnendur að þeir miðli þessum upplýsingum til allra kennara og nemenda skólanna og hvetur skóla til þátttöku.

Bent er á heimasíðu verkefnisins: www.klimanorden.org og í undirbúningi er að opna íslenska heimasíðu með upplýsingum um verkefnið. Tengiliður ráðuneytisins er Jóhanna María Eyjólfsdóttir, sérfræðingur, netfang: [email protected].



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum