Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tilkynning um notkun eininga á framhaldsskólastigi

Til skólameistara/rektora framhaldsskóla

Ný lög um framhaldsskóla nr. 92/2008 gera ráð fyrir nýjum námseiningum í framhaldsskóla. Í 15. gr. stendur:

Öll vinna nemenda í framhaldsskóla skal metin í stöðluðum námseiningum og skal að baki hverri einingu liggja því sem næst jafnt vinnuframlag nemanda. Eitt námsár, sem mælir alla ársvinnu nemanda með fullnaðarárangri, veitir 60 einingar. Er þá miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé að lágmarki 180 dagar.

Ráðherra setur í aðalnámskrá nánari reglur um mat á námi til eininga og vinnu nemenda í framhaldsskólum.

Til aðgreiningar hinna nýju námseininga frá fyrra einingakerfi kallast þær framhaldsskólaeiningar og eru skammstafaðar fein.

Samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 skal kennsla í háskólum fara fram í námskeiðum sem metin eru í stöðluðum námseiningum. Að jafnaði svara 60 námseiningar (ECTS) til fulls náms í heilt ár og eiga þær að endurspegla alla námsvinnu nemenda á háskólastigi. Í lögum um háskóla nr. 63/2006 er kveðið á um að háskólar þurfi að fá viðurkenningu menntamálaráðuneytis á þeim fræðasviðum sem þeir bjóða upp á og byggir viðurkenningin á reglum um viðurkenningu háskóla nr. 1067/2006 og umsögn sérfræðinganefndar.

Þar sem námseiningar sem endurspegla vinnu nemenda á háskólastigi eru skammstafaðar ECTS má einungis skilgreina nám hjá viðurkenndum háskólum sem ECTS einingar. Nám nemenda í framhaldsskólum og á framhaldsskólastigi skal alltaf vera skilgreint í gömlum einingum eða framhaldsskólaeiningum. Aftur á móti geta framhaldsskólar fengið háskólastofnanir innlendar sem erlendar til að viðurkenna nám sem veitt er í framhaldsskóla til ECTS eininga og er þá leyfilegt að geta þess í upplýsingum um námstilboð.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum